Friday, October 31, 2003

Í gær gerði ég eitt af því sænskasta sem ég hef gert síðan ég kom hingað. Ég fór í rútuferð með vinnufélögum til Helsingör í Danmörku að versla, ég ákvað að fara með bara upp á spaugið svona til að sjá hvað það er sem Svíarnir eru virkilega að sækjast eftir ég var nefnilega búin að heyra að Svíar flykktust til Danmerkur og Þýskalands til að kaupa ódýrara áfengi og hvað var það sem fór í innkaupakerrurnar ÁFENGI og aftur ÁFENGI það voru langar raðir af fólki í búðinni sem var að kaupa létt og sterkt vín og við erum að tala um yfirfullar innkaupakerrur, fólk tekur ferðatöskurnar með sér til að bera allt áfengið í tilbaka. Annars var þetta mjög skemmtilegt rútan lagði af stað rétt fyrir sjö og allir rosaglaðir og staupa sig aðeins í rútunni, svo var komið í ferjuna og þar sem ferðin tekur aðeins 22 mín hljóp helmingurinn að skipta pening yfir í danskt meðan hinir fóru í kaffiteríuna til að kaupa bjór til að drekka á leiðinni af því að maður hefur ekki tíma fyrir bæði. Svo fannst mér alveg brálæðislega fyndið að í fríhöfninnu um borð má bara kaupa áfengi meðan maður er í danskri landhelgi og tóbak meðan maður er í sænskri landhelgi þannig að eftir 11 mín hringir klukka og þá lokar á annað og hitt opnar eftir því á hvorri leiðinni maður er. Verst við svona rútuferð er hvað tíminn er naumur, við komum í verslunina rétt fyrir 11 og höfðum tíma til 12:45 og fólk var að deyja úr stressi hvort það myndi örugglega ná að versla því ég veit ekki hvað það voru margar rútur frá Svíþjóð allar í sama tilgangi. Síðan er farið inn í miðbæinn og fengið sér að borða og svo er haldið áfram að skoða í búðir og reyna að versla meira til kl 3 og þá er haldið til baka. Ég var komin heim rúmlega átta og gjörsamlega búin eftir daginn og þá aðallega alla setuna í rútunni. En þetta var mjög skemmtilegur dagur engu að síður og allir ákváðu að þessi hópur færi saman til Mallorca í viku í maí, ég þarf nú að sjá til með það þar sem ég veit ekki hvað ég er að gera í maí 2004.

Tuesday, October 28, 2003

Nú er að koma vetur, hitastigið rétt slefar í núllinu og það er dimmt mjög dimmt strax uppúr kl 5 og á einhvern óskiljanlegan hátt virðist vera meira myrkur hér en heima, ég veit ekki en þetta setur smá svona útlandafíling á þetta allt saman? Mér finnst ég nefnilega ekki beint vera í útlöndum eins skrýtið og það hljómar ég er stöðugt að rekast á fólk sem ég þekki heima, t.d. rakst ég á konu sem var skuggalega lík tengdamóðir Rúnu í einni versluninni en eins og ég hef alltaf sagt þá eigum við öll tvífara einhversstaðar þarna úti. Um daginn var ég svo í strætó og það gengu 2 konur frekar líkar í útliti og á svipuðu reki framhjá vagninum og veifuðu bílstjóranum og hættu ekki fyrr en hann tók eftir þeim, ósjálfrátt datt mér í hug systurnar sem voru alltaf á Hlemmi og veifuðu öllum strætisvögnum sem óku framhjá þeim- ætli þær séu ennþá að þessu?
Í dag var ég kölluð fyrir til Spítalahjúkkunnar ég átti að mæta í viðtal og fékk sömu viðbrögð frá hjúkkunni eins og svo mörgum öðrum hérna, Jónasdóttir ertu Íslendingur? Hvernig stendur á því að þú komst til nafla alheimsins Karlskrona? En ég svaraði honum eins og öllum öðrum að mig langaði að prófa eitthvað nýtt og skellti mér því út í heim til að standa á eigin fótum. Svíarnir eru nebbnilega svo heimakærir að þeir myndu aldrei láta sér detta í hug að pakka saman föggum sínum og flytja til annars lands, hvað þá einir eins og ég gerði.
Mér finnst frekar skrýtið að sitja svona fyrir framan tölvuna og skrifa niður hugsanir mínar, mér finnst ég eins og hálfgerð Carrie í Sex and the City nema hvað mínar hugsanir snúast ekki eingöngu um kynlíf!!!
Jæja ég held ég sé að verða búin að bulla nóg í bili.
hej då

Sunday, October 26, 2003

Bara smá endurbætur á síðunni, greinilega ekki hægt að nota íslenska stafi í titilinn þannig að hann er á sænsku, skemmtilegt ekki satt.
Þá er það orðið opinbert, ég er orðinn tölvunörd, ég er búin að læra að blogga. Á þessari síðu verður hægt að fylgjast með mér og ævintýrum mínum í Svíaríki. Í dag upplifði ég dálítið skrýtið, ég átti að breyta klukkunni yfir á vetrartíma þannig að þegar ég vaknaði kl 9 í morgun var klukkan raunverulega 8 sem þýddi náttúrulega bara góðar fréttir fyrir svefnpurku eins og mig, ég mátti sofa lengur, annars er ég bara fegin að ég var ekki að vinna næturvaktina, ímyndið ykkur að mæta í vinnuna og svo er vaktin klukkutíma lengri vegna að þú þurftir að skipta yfir á vetrartíma bjakk! Jæja nóg af bulli í bili