Saturday, December 31, 2005
Komið að árslokum og þar af leiðandi uppgjöri ársins.
Starfsferillinn:
Kláraði svæfingahjúkkuna og gæti ekki verið ánægðari í starfsvali, geri aðrir betur.
Ferðalög:
Lundúnir um páskana með fjölskyldunni, helgarferð til Uppsala, Íslandsferðir, önnur um sumar, ógleymanleg ferð með góðu fólki, nokkrar helgarferðir niður til Köben og svo það hin ferðin sem stendur uppúr, þegar stórfjölskyldan hittist í Danmörku.
Skemmtanalífið:
Mjög líflegt þetta árið (eins og venjulega) :-) Fór á tvenna tónleika, Winnerbäck og Sálina, geggjaðir báðir.
Ástarmál:
Maður fer nú ekki að gerast of persónulegur þó svo að það sé áramótauppgjör ;-)
Gangið hægt um gleðinnar dyr
Anna Dóra
Sunday, December 25, 2005
Ég hef það ekkert smá fínt hérna hjá m+p. Kom þeim svo skemmtilega á óvart þegar ég kom, þau áttu ekki von á mér fyrr en á Þorlák en ég birtist hérna í dyrunum seint þann 22. des. Helga Dís sem var að koma heim á sama tíma stóð gargandi í hlaðinu og tárin runnu (af gleði vona ég) og mamma og pabbi sátu sem steingerð og þegar þau loksins fengu málið aftur spurðu þau bara hvaðan ég hefði komið :-) Maggi sem var nú ekki heima fannst ég ekki fyndin þar sem ég skemmdi allt skipulag hjá honum á Þorlák þar sem hann var búinn að skipuleggja daginn samkvæmt Keflavíkurferð. Annars er allt gott að frétta, gaman að hitta fjölskyldu og vini og bara að vera til.
Jólakveðja
Anna Dóra púki
Wednesday, December 21, 2005
Hvað haldiði, ég er átti þátt í því að bjarga jólunum hér í Svíaríki. Ha hvernig tókst henni það hugsið þið náttúrulega. Jú Jóli datt nefnilega og braut á sér mjöðmina og ég var með þegar var gert við hana. Var með sjúkling í gær sem hefði getað verið jólasveinninn, gamall góðlegur kall, með vingjarnleg augu og mikið hvítt skegg. Einn svæfingalæknirinn sagði þegar hann frétti að hann væri minn sjúklingur að fara nú vel með kallinn =)sem ég náttúrulega gerði. Nú getur Jóli allavega farið og heimsótt góðu börnin á aðfangadag, ef hann haltrar þá vitiði af hverju.
Annars er allt gott að frétta, ferðataskan komin niður af loftinu, reikningar greiddir þannig að allt fer að verða tilbúið fyrir jólafrí.
Hlakka til að sjá ykkur
Anna Dóra
Saturday, December 17, 2005
Að vera einhleypur er það sama sem hálf fjölskylda? Viðkomandi sendi nefnilega jólasögu með jólakortinu þar sem var talað um að Íslendingafélagið í Karlskrona væri fimm og hálf fjölskylda (ég er þessi hálfa). Mér finnst sjálfri frekar niðurlægjandi að vera kölluð hálf fjölskylda af því að mín "fjölskylda" samanstendur af mér og engum öðrum.
Hvað finnst ykkur, endilega látið mig vita
Ein niðurlægð
Já nú er farið að styttast óheyrilega í heimferð. Ég er farin að finna fyrir ókyrrð í kroppnum af spenningi yfir væntanlegu ferðalagi. Þó svo að ég sé ekki með heimþrá og líði vel hérna í Svíaríki get ég samt ekki neitað ákveðnum fiðringi sem fer um mig alla þegar kemur annaðhvort að heimferð eða þegar ég á von á gestum að heiman. Mér hlýtur barasta að þykja svona vænt um ykkur öll. Er á leið í bæinn að kaupa síðustu jólagjöfina og setja jólakortin í póst og ætla svo að skella mér í afródans. Hlakka til að prófa það. Svo veit maður aldrei hvað kvöldið hefur í för með sér, hver veit nema ég skelli mér út á lífið =)
Jæja bið að heilsa ykkur í bili, hlakka til að hitta ykkur öll um jólin. Það næst í mig hjá m+p
Kveðja
Ein í jólaskapi
Thursday, December 08, 2005
Vildi bara deila með ykkur skemmtilegu símhringingunni sem ég fékk í dag. Það var hringt í mig úr vinnunni og mér var tilkynnt að það væri búið að framlengja ráðningasamninginn minn út maí 2006 ef ég vildi. Já takk sagði ég og er ég varla búin að lenda eftir þetta. Þið getið ekki trúað hversu stóru fargi er af mér létt. Mér fannst ég léttast um 10 kg af áhyggjum og tárin bara runnu. Er ég svona hrikalega mikil tilfinningavera? En eins og deildarstjórinn sagði að í lok maí er komið að sumarfríum og þá fara hjólin aftur að rúlla vantar fólk í sumarafleysingar. Jæja nóg komið af babli
tilfinningaveran kveður
Anna Dóra
Jólaundirbúningurinn hafinn á fullu hér í Karlskrona. Ég er að verða búin að kaupa allar jólagjafirnar, bara pínu lítið eftir, búin að skreyta aðeins heima hjá mér (vantar reyndar ennþá jólatré) og er á leiðinni á jólaskemmtun á morgun. Bráðamóttakan bauð okkur með sér á jólaskemmtun og ég held að það verði dúndurstuð. Ég ætla að nota tækifærið og klæða mig upp svona einu sinni. Rúna sendi mér kínakjólinn minn og er ég að hugsa um að mæta í honum og sína þessum Svíum að maður eigi að nota tækifærið þegar maður fer á skemmtun á fínasta hótelið í bænum og klæða sig upp=) Er að fara í jólaklippinguna á morgun, ekki enn búin að ákveða hvernig strípur ég eigi að fá mér, allar hugmyndir vel þegnar.
Er að hugsa um að hætta þessu, hringja í vinnuna og láta vita að ég komi á morgun, búin að vera heima með magapínu í 2 daga og öll að koma til.
jólakveðja
Anna Dóra
Thursday, December 01, 2005
Afi á afmæli í dag og það þýðir opna fyrsta gluggann á jóladagatalinu, fékk sent súkkulaðidagatal að heiman. Held ég verði alltaf "litla" dóttir foreldra minna.
Bið að heilsa í bili
Anna Dóra
P.s til hamingju með afmælið Hrafnhildur
Thursday, November 24, 2005
Partítröll
Þú ert nýjungagjörn, tilfinningarík félagsvera.
Partítröllið fylgist vel með nýjustu straumum og stefnum hvort sem um er að ræða föt, tónlist eða græjur. Það eru 74.5% líkur á því að það eigi iPod, 61% líkur á því að það eigi Fred Perry póló bol og 96% líkur á því að það eigi Adidas skó. Partítröllinu finnst The OC vera skemmtilegur þáttur.
Partítröllið er vinsælt - eða telur sig að minnsta kosti vera það. Þótt margir laðist að því eins og flugur að mykjuhaug eru aðrir sem eru ónæmir fyrir þokka þess og enn aðrir sem hafa jafnvel ofnæmi fyrir því. Það eru þeir sem eru í eldhúspartíinu á meðan partítröllið hristir rassinn og baðar út öngum á dansgólfinu.
Þegar gamaninu slotar er partígríman þó fljótt tekin niður og undan henni kemur viðkvæma blómið sem partítröllið raunverulega er.
Hvaða tröll ert þú?
Kannið hvaða tröll þið eruð og látið mig vita
Partýtröllið kveður
Tuesday, November 22, 2005
Mamma og pabbi eiga 30 ára brúðkaupsafmæli í dag og ákváðu að skella sér til Kúbu og halda uppá það. Ég sendi þeim að sjálfsögðu kveðju í dag (alltaf góða barnið=)) óskaði þeim til hamingju og vonaði að þau gætu nú notið dagsins. Hvað fæ ég tilbaka, Jú þau voru að koma úr nuddi og voru á leiðinni í sólbað..... ekki alveg það sem ég vildi heyra, nýkomin inn úr kuldanum. Nei mér finnst gott hjá þeim að skoða heiminn, ég lagði þeim reyndar línurnar áður en þau fóru, bara að forðast Castro og fellibyli þá fer allt vel!
Bið að heilsa í bili
Anna Dóra
Monday, November 14, 2005
Mér finnst það allavega var semsagt að keppa í sundi í dag og lenti í 3ja sæti og fékk mína fyrstu medalíu á mínu fyrsta sundmóti takk fyrir það. Það var önnur af sundnámskeiðinu sem ætlaði að koma en kom ekki, þannig að ég keppti á móti 2 stelpum 10 árum yngri en ég sem hafa báðar æft sund í mörg ár áður en eru svo sem hættar núna. Þjálfarinn minn var frekar ánægð með mig fannst ég halda ótrúlega í við þær miðað við hvað væri mikill munur á milli okkar þannig ef maður horfir á það sem maður hefur með sér. Ég er STOLT af mér, tíminn minn var 1 min en sú sem vann synti á 40 sek só er það ekki ungmennafélagsandinn sem er ríkjandi, aðalmálið er ekki að vinna heldur að vera með.
Jæja hetjan kveður, kominn háttatími
Knús og kram
Sunday, November 13, 2005
En að öðru "skemmtilegu" sundmótið er á morgun þannig að um það bil um kvöldmatarleytið á morgun langar mig að biðja ykkur að hugsa fallega til mín og senda mér sundstrauma. Er að fara í sund á eftir og vona að ég fái að vita meira um mótið á morgun. Ekki laust við að núna sé svolítill svona "ertu biluð manneskja að ætla að keppa í sundi" fiðringur í manni, ég er greinilega meiri keppnismanneskja en ég hélt. Held ég sé líka að fatta hvað það er sem ég geri vitlaust þegar ég er að synda skriðsund, mér finnst ég drekka hálfa laugina og á erfitt með öndunina. Málið er að ég er alltaf að flýta mér (já ég veit Anna Dóra að flýta sér hahahahaha) því þegar ég hef tekið því rólega þá gengur mikið betur og ég syndi barasta ágætis skriðsund. Jamm þarf svona aðeins að athuga þetta betur.
Styttist í jólafrí
Karlskrona kveður í bili
Anna Dóra
Thursday, November 10, 2005
Við á Sálartónleikunum, erum þarna fremstar undir hljómborðinu
Þokkalega fínt að fá mynd af sér í málgagni þjóðarinnar þó svo að lítil sé. ef þið finnið okkur eruð þið snillingar, ég og Hrafnhildur stöndum beint upp við sviðið og Bimma á bakvið okkur, við erum algjörlega í kantinum á myndinni=) en hei við komum í mogganum;-)
Kveð í bili
Anna Dóra
Monday, November 07, 2005
Ég á bara til eitt orð til að lýsa tónleikunum VÁ. Ég verð nú líka að segja að ég dáist að þeim Sálarmeðlimum hvað þeir eru í góðu formi, hoppandi og gargandi svona í marga klst þetta hlýtur að reyna á þá (þeir eru ekki alveg 20 lengur). Ótrúlega gaman að vera með hinum 1200 Íslendingunum sem fengu miða þvílíkur stemmari og allir sungu með. Hélt að þakið myndi rifna af húsinu þegar þeir sungu sódóma. Skemmtilegast var þó að rekast á fólk sem ég hef ekki séð ógeðslega lengi barasta í mörg ár. Eftir tónleikana keyrði ég og Hrafnhildur svo heim og það var ekki auðvelt, báðar hundþreyttar enda var talað og sungið alla leiðina heim. Við vorum komnar heim um 7 leytið þannig að ég fékk nokkrar klst svefn áður en ég mætti í vinnuna kl 14 en þreytan var gjörsamlega þess virði.
Er að hugsa um að skella nýja Sálardisknum mínum í tækið og halda áfram að taka til hérna.
bless í bili
Anna Dóra, undir sálar áhrifum
Friday, November 04, 2005
Hver man ekki eftir bókunum um Ísfólkið sem "allar" íslenskar konur hafa lesið. Jæja ég er að detta inn í þann hóp, er byrjuð á fyrstu bókinni á sænsku reyndar. Jessica á allar bækurnar og átti barasta ekki til orð yfir því að Íslendingurinn hafi ekki lesið þessar bækur og hálfpartinn skipaði mér að byrja. Ég sem er svo hlýðin gerði það og viti menn þetta er ekki svo vitlaust eftir allt saman (það held ég að mamma og Edda séu ánægðar núna).
Sólarhringur í að gullna hliðið á Vega opnist og Sálin hans Jóns míns komist inn
pussiluss
Anna Dóra
Saturday, October 29, 2005
Ég er að fara á Sálartónleikana í Köben næstu helgi JIBBÝ, ég hlakka ekkert smá til.
Er að spá í að gera smá tilraun í nótt. Í nótt á semsagt að skella klukkunni aftur um eina klukkustund til að komast yfir á vetrartíma. Ég var að spá ef maður fer út á lífið hvort maður græði þá eina klst á barnum? Hvort þeir hafi opið lengur?
Best að bjarga kjúllanum út úr ofninum áður en hann ofsteikis
puss puss
Anna Dóra
Friday, October 28, 2005
Takk kærlega fyrir allar gjafirnar og kveðjurnar, held svo sem að frumlegasta gjöfin hafi verið frá honum elskulegum bróðir mínum sem þykir svo vænt um hana systir sína að hann lét sérhanna handa henni lyklakippu með mynd AF SJÁLFUM SÉR!!! Fékk annars margar skemmtilegar gjafir, stelpurnar gáfu mér 6 skotglös með mynd af hauskúpu, upplagt fyrir íslenskt brennivín, heitir það ekki svarti dauði=) fékk líka skemmtilega spúkí kertastjaka frá þeim, á honum erum beinagrindur og þegar loginn flöktir þá dansa þær, auðvelt að verða sjóveikur ef maður starir of lengi á þær.
Jæja hugsa að ég hafi þetta ekki lengra í bili
bið að heilsa
Anna Dóra
Saturday, October 22, 2005
Anna Dora og Josefin
Það var ekkert smá gaman hjá okkur í gær. Við í skemmtinefndinni vorum semsagt gleðidömur og tókum okkur bara frekar vel út þó ég segi sjálf frá=)Partýið heppnaðist stórkostlega. Við ákváðum að hafa smá fimmþraut milli borða þar sem keppnisgreinarnar (að sjálfsögðu í anda vilta vestursins) voru spurningakeppni, pílukast, kasta skeifum(af tillitsemi við veitingastaðinn notuðum við plast í staðinn), kasta reipi og loftreið (þykjast vera á hestbaki) og fengu keppendur hest á priki til að styðjast við (get ómögulega munað hvað svona hestur kallast) þetta tókst alla vega brilljant. Svo var dansað frameftir nóttu og sumir héldu svo áfram og skelltu sér í bæinn. Við vorum nú einu sinni 2 að halda uppá afmælið okkar=)
gleðikveðja
Anna Dóra
Friday, October 21, 2005
Risapartý í kvöld og búningurinn minn orðinn klár þökk sé mömmu og Rúnu. Fékk smá pakka að heiman í dag. Nóa og Siríus súkkulaði- er hægt að fá betri afmælisgjöf þegar maður býr erlendis I don't think so=)
Best að koma sér í gírinn, skella sér í sturtu og svo af stað í djammið, við ætlum að hittast á undan skemmtinefndin og koma öllu í stand, segi ykkur svo síðar frá því hvernig til tókst og aldrei að vita nema einhverjar myndir fylgji.
Kveðja
Anna Dóra afmælisbarn
Tuesday, October 18, 2005
Styttist óðum í partýið góða, síðasti fundur skemmtinefndar á morgun það verður spennandi að sjá hvað verður.......
Þá er komið að hamingjuóskunum: Til hamingju með litla prinsinn Ásdís, og svo má nú ekki gleyma henni Ninnu Rós en hún varð 7 ára síðasta föstudag, stóra stelpan í vinahópnum.
bið að heilsa í bili
Anna Dóra
Friday, October 14, 2005
Var að lesa aftonbladet nú í vikunni og þar var einmitt grein um áttunda áratuginn og hvernig allt sé að koma aftur. Ég ætla að telja upp nokkur atriði og endilega látið mig vita hvort þið munið eftir þessu og ef ykkur dettur eitthvað meira skemmtilegt í hug:-)
Sjónvarpsefni: Dallas, Miami Vice, Cosby. Tónlistin: Michael Jackson með Billy Jean og Thriller, Madonna með Like a virgin. Bíó: Fatal attraction, ET, A fish called Wanda. Föt: Legghlífar, steinþvegnar gallabuxur, axlapúðar, neon litir. Accessories: Sítt að aftan, vafflað hár, varasalvar með bragði, túberað hár og tonn af hársprayi, og síðast en ekki síst Jane Hellen sjampó og hárnæring, í þríhyrndum flöskum og hálft andlit á hvoru, málið var að eiga bæði til að leggja þau saman=)
Já stundum er ótrúlega gaman að lesa blöðin. Ég fékk þetta líka deja vú með Jane Hellen, flash back í skólasund og leikfimi ég held barasta að við höfum flestar verið með þetta.
Annars er allt gott hér, svo mikil þoka í dag að rétt sér á milli herbergja, vona bara að ég rati í vinnuna á eftir.
En nóg masað, deigið að klára að hefast, best að skella sér í brauðbaksturinn og súpugerðina, ekki vill maður svelta í dag frekar en aðra daga.
puss puss
Anna Dóra
Thursday, October 06, 2005
Ætla að skella mér til köben um helgina með Guðrúnu, Eiríki, Guðfinnu og Jessicu. Við ætlum bara að taka lífinu rólega, borða góðan mat, kíkja í nokkrar búðir og bara almennt skemmmta okkur vel.
Lilta leikþættinum er lokið, við lékum þetta litla stykki okkar ekki sjaldnar en 15 sinnum á 3 dögum og skemmtum okkur alltaf jafn vel. Þessi hópur sem var að leika náði einstaklega vel saman og varð niðurstaðan ólík útkoma leikritsins í hvert skipti. Hverjum öðrðum en okkur hefði dottið í hug að pakka pylsubút inn í plastfilmu og láta sem það væri botnlanginn sem við vorum að skera upp og fleygja því svo í áhorfendurna =) Við fengum alla vega góðar viðtökur og lendum á topp 5 af því sem var boðið uppá. Mér finnst þetta í raun sniðugra en starfsdagurinn sem við fengum í 10unda bekk, fara einn dag á vinnustað og skoða. Þarna voru fulltrúar frá 5 starfsstéttum, iðnaðarmenn, við og fleiri að kynna sig og gefa unglingunum innsýn í atvinnumarkaðinn. Mæli með þessu. Þó svo að mér hafi þótt gaman að þessu er ég samt að hugsa um að eftirláta leiklistina öðrum=)
Ég hef verið "KLUKKUÐ" er þetta það nýjasta í bloggheiminum? Helga Dís klukkaði mig sem þýðir að ég á að segja ykkur 5 staðreyndir um sjálfa mig.
1. Ég ELSKA súkkulaði, er súkkulaðifíkill á háu stigi
2. Mér finnst ofboðslega gaman í vinnunni minni, er svo ánægð með að hafa farið í framhaldsnámið
3. Mér finnst gaman að ferðast, New York næsta, hver veit hvað tekur við þaðan
4. Ég er með einsdæmum óheppin, þið sem þekkið mig vitið hvað ég meina
5. Ég er vinur vina minna, ég á alveg frábæran vinahóp
Ég var að hugsa um að klukka ykkur öll barasta, endilega verðið við áskorun minni og skellið inn nokkrum kommentum
Púff hvað þetta varð langt
Puss og kram í stugan
Anna Dóra
Saturday, October 01, 2005
Fékk pakka að heiman nú í vikunni og hvað haldiði að hafi verið í honum Jú bók með 200 suduko þrautum I'm loving it, ég er svo þokkalega húkkt á þessum þrautum að ég takmarka þær við hámark 2-3 þrautir á dag.
Ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða barasta kominn október og bráðum komin jól.
Ætla að nota tækifærið að óska afmælisbörnum mánudagsins til hamingju með daginn þar sem ég verð upptekin við að laða unga Svía í heilbrigðisgeirann :-) Þau eru Lilja Rós til hamingju með daginn, stórafmæli á þeim bænum. Villi frændi og Íris Björg litla skottan að verða 3ja ára.
Jæja ætli það sé ekki best að kíkja á handritið og æfa mig fyrir debutið á fjölunum, segi ykkur svo frá því hvernig gekk.
Hollywood beware
Anna Dóra, actress
Saturday, September 24, 2005
Haustið virðist vera byrjað að skríða inn, dimmmt á morgnana þegar ég vakna, bara 10°C þegar ég labba í vinnuna á morgnana og lokaðir skór og sokkar komnir í stað sandalanna. Engu að síður hlýjar sólin okkur ennþá yfir miðjan daginn, hitastigið nær allt að 20°C ekki slæmt miðað við kuldakastið sem virðist skekja Íslendinga í augnablikinu.
Af mér er það helst að frétta að ég er að skipuleggja vinnupartý fyrir okkur á skurðstofunni og gjörgæslunni. Þemað verður vilta vestrið. Við sem erum í skemmtinefndinni ætlum allar að vera eins klæddar og þori ég ekki að uppljóstra klæðnaðnum eins og stendur vegna tryggra lesenda úr hópi vinnufélaganna:-)en það er aldrei að vita nema ég setji inn mynd af sjálfri mér eftir partýið, fylgist spennt með, djammið verður aðaldag ársins 21. október =)Mamma og Rúna eru einmitt í dag að vinna í búningamálum fyrir mig, thank you girls
Ætla einnig að leyfa ungum Svíum (níunda og tíunda bekk) að njóta leikhæfileika minna 3-5. okt. Það er einhvers konar kynning á atvinnulífinu og við verðum nokkur spítalafólk sem setjum á svið leikþátt um konu sem veikist svona aðeins til að kynna okkur og gefa þeim innsýn í lífið á spítalanum, held að þetta geti verið gaman. Lét vinkonu mína sem er PR-hjúkka plata mig í þetta.
Ef einhvern langar svo á nostalgíu fortíðartripp get ég bent ykkur á að skoða gamlar íslenskar auglýsingar á kvikmynd.is hver man ekki eftir Hófí þegar hún gengur um götur Reykjavíkur og safnar með sér fólki í REYKLAUSA LIÐIÐ (var ekki málið reyklaust Ísland árið 2000!!) og Jón Páll að hvetja krakka til að drekka Svala svo fá dæmi séu nefnd. Versta er eiginlega að ég man vel eftir þessum auglýsingum og fannst þær ábyggilega ekkert smá flottar á sínum tíma=)
Jæja þetta er orðið ansi langt hjá mér
Bless í bili
Anna Dóra skemmtanaglaða
Monday, September 19, 2005
Ég skráði mig á sundnámskeið, skriðsund fyrir fullorðna, ég er ekkert smá ánægð með mig, búin að langa lengi að ná upp færni í skriðsundi og læra rétta tækni (vona nú að eitthvað sitji eftir síðan á sundnámskeiðunum úr skólanum)þannig að ég ákvað bara að drífa mig í þessu fyrst ég heyrði af þessu. Þetta verður einu sinni í viku, seinnipart á sunnudögum, fylgist spennt með árangri mínum hér=)
Þetta er svona það nýjasta af mér að frétta, eitthvað nýtt hjá ykkur?
Kram
Anna Dóra
Sunday, September 18, 2005
Á fimmtudagskvöldið var party á hæðinni fyrir ofan mig sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema ég sem var hrikalega þreytt var alveg viss um að ég myndi aldrei sofna. Svo er allt í einu hringt dyrabjöllunni og fyrir utan stendur gaur með vínflösku og spyr hvort ég eigi tappatogara. Ég játaði því og opnaði flöskuna fyrir hann og sendi hann svo aftur í partýið. Fór svo í innflutningspartý til Caroline og Patricks í gær þar sem gjöfin sló í gegn. Keyptum gestabók og vinabók eins og maður átti þegar maður var í skólanum í gamla daga og svo svona ýmsa smáhluti eins og teninga sem lýsa í myrkri, eitthvað til að leika sér að í svefnherberginu.
Er svo að fara í afmæli til Hákonar, fínt að fara í kökur svona eftir djamm gærdagsins.
Bið heilsa í bili
Anna Dóra
Sunday, September 11, 2005
Þannig líður mér akkúrat núna. Allir farnir og ég orðin aftur ein í kotinu. Það er nefnilega smá læti sem fylgja svona ormum. Rúna, Ágústa og mamma eru semsagt búnar að vera hjá mér með ormana sína síðan á miðvikudag og er búið að vera óvenju mikið líf í húsinu þessa daga, ætli nágrannarnir séu ekki mest fegnir að þau séu farin þó svo að mín vegna hefðu þau mátt vera mikið lengur=) Ragga og Óli kíktu til okkar á föstudaginn og eyddu deginum með okkur. Annars erum við búin að vera svo heppin með veður sól og 20°C þannig að við höfum svosem getað verið mikið úti og leikið okkur á milli þess sem við höfum kíkt í búðir. Ég gat nú aðeins verslað líka og keypti mér hrikalega flotta mokkakápu, verð ábyggilega aðalskvísan í bænum í haust=)
Bið að heilsa í bili
Takk fyrir komuna
Anna Dóra
Wednesday, August 31, 2005
Monday, August 29, 2005
Kveðja í bili
Anna Dóra
Saturday, August 27, 2005
Jú Jessica vinkona mín var að komast inn í framhaldsnám í gjörgæsluhjúkrun, Caroline var að trúlofa sig (skil reyndar ekki alveg hvað þeim liggur svona rosalega á, kynntust í mars, fluttu saman í ágúst nú bíð ég bara eftir brúðkaupi og barni=)) og Óli og Linda eignuðust strák, allt gerðist þetta síðasta fimmtudag what a day.
Annað sem gerðist hér á fimmtudaginn er að ég held að nú séu nágrannarnir endanlega búnir að stimpla mig bilaða jú crazy lady með arachnacphobia fór að ryksuga kl 22:30 af hverju það var könguló dinglandi í ljósinu fyrir ofan rúmið mitt og ég hefði ekki sofið annars alla nóttina vitandi af henni þarna. Crazy lady var svo næstum búin að banka hjá einhverjum nágrannanum á leiðinni í vinnuna í gærmorgun því á veggnum í stigaganginum var þetta líka risa köngulóarflykki crazy lady var ekki viss um að komast út en þar sem skyldan kallaði dró hún andann djúpt og stökk framhjá flykkinu og óskaði af öllu hjarta að það yrði horfið þegar hún kæmi tilbaka seinna um daginn.
Hef einmitt hugsað aðeins út í hræðslu mína við köngulær síðustu daga þar sem Caroline er flutt í köngulóarnet, ég hef aldrei séð eins mikið af köngulóm og heima hjá henni og fer þar af leiðandi ekki í heimsókn til hennar á kvöldin í bili=( en þetta er ákveðin fötlun að gjörsamlega lamast þegar þessi kvikindi birtast.
Bið að heilsa í bili
Anna Dóra
Tuesday, August 23, 2005
Maggi bróðir átti afmæli síðasta laugardag- til hamingju með það- græjaði sig upp með veiðidóti í boði fjölskyldunnar í tilefni dagsins.
Var svo að fá þær skemmtilegu fréttir að beststu bestu vinkonur mínar í heiminum eru að koma í heimsókn til mín. Já Rúna og Ágústa ætla að koma til mín 7-11. sept og taka gormana sína og mömmu með sér (einhver verður nú að passa ef okkur skildi detta í hug að kíkja á schlagerbarinn =)). Þetta voru æðislegustu fréttir dagsins.
Annars er barasta svona same old same old að frétta af mér semsagt bara gott. Bíð líka spennt eftir fréttum að heiman hvort María vinkona sé búin að eiga. Þessa dagana virðast bara góðir hlutir gerast í kringum mig.
Gleðikveðja
Anna Dóra
Friday, August 12, 2005
Þar til næst
kram kram
Anna Dóra
Monday, July 25, 2005
Sunday, July 24, 2005
Maggi bróðir búin að vera hjá mér alla vikuna, ég reyndar unnið mikið en hann er svo duglegur að bjarga sér. Reyndar rosa næs að hafa einhvern svona heima hjá sér sem er búinn að vaska upp og svoleiðis þegar maður kemur þreyttur heim úr vinnunni (hmmmm spurning hvort þetta sé eitthvað sem maður ætti að vinna í.....).
Gerði hin undarlegustu kaup í gær.. hvað jú ég keypti nýjan gemsa sem er ekkert óeðlilegt svosem en hann var á tilboði maður borgaði ekkert út og svo er visst mánaðargjald mér leið eins og ég væri að stela, labbaði inn í búð benti á það sem mig langaði í og gekk svo út með það án þess að borga krónu =)
Svo þegar við vorum í strætó á leiðinni heim gerðist svolítið sniðugt (já ég veit þið hugsið Anna Dóra og strætó hvað gerði hún núna!!) að þessu sinni var ég ekki valdur að skemmtiatriðinu heldur miðaldra kona sem brölti inn í vagninn með lága hillusamstæðu já I kid you not ég fór reyndar út á undan kellu en Maggi sá hana brölta út með hilluna og svo stóð hún ein eftir á biðstöðinni, ég vona bara að einhver hafi komið til að sækja hana og hilluna:-S
HVAÐ haldiði Maggi keypti Die hard myndirnar og við horfðum á fyrstu myndina saman og við höfum barasta aldrei séð verri íslenska þýðingu, hér koma nokkur dæmi úr myndinni: hólí sjitt, fokking sjitt, djíses kræst, keyra mig niður = drive me crazy og svona mætti lengi telja. Hvað segið þið, hvað viljið þið gefa þýðandanum í einkun, við ákvaðum að fella hann c",)
Kram
Anna Dóra sem kveður Magga á morgun til þess að geta tekið á móti honum aftur á föstudagskvöld.
Saturday, July 16, 2005
Hjóluðu pabbi og Maggi með Eggerti síðasta áfangann í hringferð hans um landið... Ég er STOLT af þeim
Komu nokkrir langþráðir rigningardropar í Karlskrona
Brutu þrumur himininn og hreinsuðu loftið
Blésu kaldari vindar hér
Í dag.....
Er ég úthvíld eftir að hafa sofið heila nótt án þess að vakna kafnandi úr hita, fyrsta skiptið í 3 vikur
Er ennþá skýjað og gott loft úti
Eru 2 dagar þangað til Maggi kemur
Annars er allt gott að frétta héðan, keyrði til Köben á fimmtudaginn og sótti Guðrúnu, Eirík og Guðfinnu. Ákvað að skella mér í matvöruverslun og kaupa smá vín meðan ég beið eftir þeim og villtist endalaust um götur Kaupmannahafnar, þetta gerði mig ennþá ákveðnari í því að vilja ekki keyra í þar þegar ég gisti eina nótt þegar ég fer að hitta fjölskylduna, NEI það verður fundið bílastæði og bíllinn geymdur þar í öruggri fjarlægð frá einstefnugötum og akgreinum ætluðum strætisvögnum ekki utangátta ferðamönnum.
Bið að heilsa í bili
Anna Dóra sem á einstaklega auðvelt með að villast og keyra vitlaust í Köben
c",)
Saturday, July 09, 2005
Lífið er ljúft, eyddi gærdeginum með Jessicu á ströndinni, legið í sólbaði, kælt sig í vatninu. Rúna við förum pottþétt á þessa strönd þegar þið komið til mín, hún er svo vel búin að þar eru stór tré þannig að maður getur setið í skugga með litla pottorma ef maður vill=) Fórum svo í gærkvöldi með Caroline inn til Ronneby á Tosia Bonndager dæmigerður markaður en gaman engu að síður. Ég og Jessica skelltum okkur í tvö tívolítæki og ég veit ekki hvort þetta sé aldurinn eða eitthvað annað en maginn fór ansi skemmtilega á hvolf og manni var hálf óglatt og leið eins og eftir nokkra bjóra að ferðunum loknum- þið getið rétt ímyndað ykkur hvað það var "gaman" að vita að maður ætti eftir að keyra svo heim!! Stefnan er tekin á Ronneby aftur annaðkvöld í þetta skipti á tónleika Lars Winnerbäck held hann sé nokkurs konar Bubbi hér í Svíþjóð hann er alla vega góður, stendur einn á sviðinu með gítarinn sinn.
Jæja spurning um að skella sér út í góða veðrið, klukkan er 11 og ekki nema 25°C í skugganum I love it
Kram
Anna Dóra I'm loving it
Thursday, July 07, 2005
Annars er allt gott að frétta héðan, hitabylgja í gangi sem er náttúrulega ekki slæmt, verst að þurfa að vinna og geta ekki bara verið úti. Reyndar er gott að hvíla sólbrennda húðina í vinnunni öðru hvoru og til að leyfa henni að jafna sig=)
Var í fríi í gær og eyddi deginum á ströndinni, er í fríi á morgun og ætla að reyna að kaupa mér skó og svo eyða deginum á ströndinni er svo í fríi um helgina þannig að það er aldrei að vita nema maður kíki á ströndina ;-Þ
Bið að heilsa héðan úr sólinni
Anna Dóra
Saturday, July 02, 2005
Svíar og hraðbankar = ekkert nema fyndið
Þegar þið leitið eftir hraðbanka leitið þið þá eftir hraðbanka frá ykkar banka eða takið þið bara næsta sem þið sjáið- ykkur vantaði hvort sem er peninginn? Þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta bara hraðbanki!! Var í búð í dag þegar ég var spurð um hraðbanka (bankomat) og benti manninnum vingjarnlega á að hann hefði nú barasta gengið fram hjá einum slíkum en nei það var minuten- hraðbanki frá öðrum banka. Svíar geta ruglað mann endalaust með mörgum heitum yfir sama hlutinn=)
Til hamingju með daginn Jónas Ásgeir og til hamingju með morgundaginn Ásdís, hlakka til að hitta ykkur ásamt öllum hinum núna í lok júlí ótrúlegt mánuður til stefnu.
Hamingjukveðjur
Anna Dóra
Wednesday, June 29, 2005
Sólskinskveðjur
Anna Dóra
Monday, June 27, 2005
Er maður óheppinn eða? Vorum að grínast með skurðprógrammið í morgun, einn sjúklingur, það sem við ætluðum að hafa það náðugt í dag, nei það bara bættust við sjúklingar og við unnum eins og mofo's í allan dag. Maður á ekki að bjóða örlögunum byrginn, maður fær það margfalt tilbaka. Annars er allt gott að frétta af mér, same old same old vinna, borða og sofa, djamma þess á milli =) Mamma á afmæli í dag, til hamingju með daginn mútter Jæja best að borga reikninga og hringja svo í þá gömlu kram Anna Dóra |
Friday, June 24, 2005
Þar sem ég er að vinna núna um helgina þegar Svíar fagna Jónsmessunni/Midsommar ákváðu stelpurnar (Caroline og Jessica) að koma mér á óvart síðasta miðvikudag með Midsommarpartý. Ég hélt að við værum að fara út að labba og var því frekar hissa þegar þær stóðu með síld, ferskar kartöflur, ís, jarðaber og vodkabokkuna fyrir utan dyrnar hjá mér. Þetta voru þær víst búnar að ákveða heima á Íslandi að þær yrðu nú að gera eitthvað skemmtilegt fyrir mig til að þakka fyrir ferðina. Þetta tókst alla vega hrikalega vel hjá þeim. Þær færðu mér meira að segja pakka Hrafninn flýgur og í Skugga hrafnsins. Kvöldið var alla vega hrikalega vel heppnað eftir nokkuð mörg vodkaskot fór ég og Jessica út á lífið kíktum á Piraten og skemmtum okkur alveg konunglega (eins og alltaf) við áttum dansgólfið því karlmennirnir voru eins og bísveipur í kringum blómvönd í kringum okkur. Ekki leiðinlegt.
Kíktum svo frekar tuskulegar á hinn árlega laufmarkað í gær og aldrei þessu vant keypti Anna Dóra ekki neitt á markaðnum, var einhvern veginn ekki í stuði til að versla- jú ég var nú hálflasin
:-S kannski þess vegna sem ég gleymdi líka að bera á mig sólarvörnina og þannig að ég roðnaði ansi duglega á höndum og bringu í sólinni í gær =(
Bið að heilsa í bili spennandi vinna sem bíður alla helgina
kram kram
Anna Dóra sólbrennda
Sunday, June 19, 2005
Doris er mjög svo vel meðvituð um að 17. júní er frídagur heima á Íslandi en þar sem Doris er með mjög gott en stutt minni ákvað hún að slá á þráðinn til móðir sinnar áður en hún skellti sér út úr bænum á 17. júní. Þar sem Doris hafði hringt eitt samtal milli þess sem hún sveif um af þjóðernisstolti og samtalinu við móðir sína hvarf úr undirmeðvitundinni vitneskjan um að sá möguleiki væri fyrir hendi að móðir hennar lægi heima sofandi=) Maggi minn hefði getað hringt mikið fyrr en að hringja klukkan 9 er nú ekkert svaðalega snemma um morgun þó svo að maður sé í fríi!!!
Mínum 17. júní eyddi ég með Jessicu, við fórum heim til hennar í sveitina fyrir utan Växjö, ég er nefnilega með bíl í láni frá Guðrúnu og Eiríki, dæmigerður 17. júní rigndi á mig ég veit að það var besti 17. júní síðan 1700 og súrkál heima en ég skemmti mér engu að síður vel, svo fórum við í Picknic í gær og síðan í afmæli til bróðir hennar áður en við keyrðum svo heim.
Jæja ætla að henda mér aftur út í góða veðrið sól og fínt
Doris
P.s Maggi var að velta fyrir mér þegar ég sæki ykkur til Köben eftir rúman mánuð hvort ykkur sé ekki sama um að geyma barasta bílinn á Kastrup, Doris er ekkert alltof spennt fyrir því að keyra inni í Stórborginni og týnast ;-) Bara smá hugmynd!!
kram kram
Thursday, June 16, 2005
Í Ástralíu er bannað að stunda kynlíf með kengúrum auk þess sem bannað er að eiga rúm á ákveðnum stöðum án tilskilinna leyfa. Almennir borgarar mega heldur ekki skipta um ljósaperur. Löggiltir rafvirkjar mega einir gera slíkt. Það fáránlegasta af þessu öllu saman er kannski það að í bænum Victoria er bannað að vera í bleikum stuttbuxum eftir hádegi á sunnudögum.
Í bænum Santa Cruz í Bólivíu er bannað að stunda kynlíf með móður og dóttur á sama tíma.
Kanada íbúum er bannað að stíga um borð í flugvél eftir að hún er farin á loft. Það er líka ólöglegt að fjarlægja plástur og önnur sárabindi opinberlega. Í bæ einum segja lögin enn fremur til um að þegar fangi losnar úr fangelsi skal honum afhent hlaðin byssa ásamt hesti svo hann geti riðið út úr bænum sem fyrst.
Íbúum Calgary er bannað að kasta snjóboltum án þess að hafa sérstakt leyfi frá bæjarstjóra og í Nova Scotia er bannað að vökva garða þegar það rignir. Þar er jafnframt bannað að prumpa á meðan maður reykir en í bænum Oxbridge er bannað að hafa internettengingu sem er öflugri en 56k.
Í Kólumbíska bænum Cali mega konur aðeins stunda kynlíf með eiginmanni sínum og þegar það gerist í fyrsta skipti skal móðir konunnar vera viðstödd.
Enskum konum er bannað að borða súkkulaði í almenningssamgöngutækjum, s.s. lestum og strætisvögnum. Það er líka bannað að borða bökur á jóladag og svo mega eiginmenn alls ekki lemja konur sínar eftir kl. 21 á kvöldin.
Í Frakklandi er bannað að kyssast á járnbrautastöðvum og þarlendir svínabændur mega ekki undir neinum kringumstæðum kalla svínið sitt Napóleon.
Í Indónesíu liggur dauðarefsing við sjálfsfróun.
Ítalskir karlmenn mega ekki ganga um í kjólum. Ef þeir gera það eiga þeir á hættu að verða handteknir. Það er líka bannað að blóta opinberlega og í vissum héröðum mega konur sem heita María ekki stunda vændi.
Í Líbanon mega menn stunda kynlíf með dýrum svo framarlega sem dýrið er kvenkyns. Ef það er karlkyns liggur dauðarefsing við brotinu.
Í Sádí-Arabíu mega karlkyns læknar ekki meðhöndla konur. Lögin segja jafnframt að konur megi ekki gerast læknar. (eiga konurnar þá bara að drepast eða hvað?)
Sviss mega menn ekki pissa standandi eftir kl. 22 og heldur ekki hengja upp þvott utandyra, þvo bíla eða slá gras á sunnudögum. Þá liggja sektir við því að gleyma lyklum í ólæstum bílum.
Í Singapore eru munnmök með öllu ólögleg auk þess sem samkynhneigð er alls ekki leyfð. Ennfremur er allt klám bannað og fólk má ekki ganga um nakið heima hjá sér þar sem það er talið til kláms.
Í Skotlandi segja lögin að ef einhver bankar upp á og biður um að fá að nota klósett þá skal hann fá að gera það ella hljóti húsráðandi sektir.
Í Tælandi er ólöglegt að fara út úr húsi án þess að vera í nærfötum.
Í Alabama er bannað að keyra með bundið fyrir augun og það má heldur ekki sigla bátum á götunum. Það furðulegasta er samt að fólk má ekki vera með vöffluís í rassvasanum!
Íbúum Alaska er mjög umhugað um elgina sína og þar af leiðandi stendur það í lögum að ekki megi láta þá hanga úr flugvél. Það má heldur ekki henda þeim út úr flugvélum eða gefa þeim áfengi.
Asnar mega ekki sofa í baðkörum í Arizona og þar að auki er ólöglegt að hafa fleiri en tvö kynlífshjálpartæki á einu og sama heimilinu.
Í Maricoba County mega svo ekki fleiri en 6 stúlkur búa í sama húsinu.
Í Arkansas eru munnmök bönnuð og ekki má geyma krókódíla í baðkörum. Þar að auki er ólöglegt að bera nafn ríkisins vitlaust fram.
Til að setja upp músagildrur þurfa menn að hafa veiðileyfi í Kaliforníu. Þar hafa páfuglar líka forgang í umferðinni, nema þeir séu á vappi í innkeyrslum fólks.
Í Baldwin Park er bannað að hjóla í sundfötum og sums staðar verða menn að eiga minnst tvær kýr ef þeir ætla að ganga um í kúrekastígvélum.
Þá liggur allt að 500$ sekt við því að nota kjarnorkuvopn innan bæjarmarka Chico og í Los Angeles er bannað að þvo tvö ungbörn í sama baðkarinu. Einnig er bannað að eiga flóðhesta en ef menn ætla út að labba með fílinn sinn verður hann að vera í bandi. Að lokum er bannað að þvo bílinn sinn með nærfötum.
Florida íbúar mega ekki stunda kynlíf með broddgöltum og alls ekki reka við opinberlega eftir kl. 18 á kvöldin. Þá mega ógiftar konur ekki stunda fallhlífarstökk á sunnudögum og það er bannað að fara í sturtu nakinn. Eiginmenn mega heldur ekki kyssa brjóst konu sinnar og þar er líka bannað að syngja á meðan maður er í sundfötum.
Lögreglumenn í connecticut hafa leyfi til að stöðva hjólreiðamenn ef þeir fara yfir 100 km hraða og í bænum Devon er bannað að labba aftur á bak eftir myrkur.
Þegar fólk fer í messu á sunnudögum í Georgiu skal bera hlaðinn rifill á sér og allir íbúar þar skulu minnst eiga eina grashrífu á mann. Þar má heldur ekki binda gíraffann sinn við ljósastaur.
Í bænum Marietta var bannað að hrækja út úr fólksbílum og strætó en það má hrækja ef maður er á vörubíl.
Enn eru lög í gildi í Illinois sem banna fólki að tala ensku og þar liggja líka sektir við að pissa upp í munn nágranna síns.
Chicagobúar hafa heldur ekki leyfi til að veiða í náttfötunum eða gefa hundinum sínum viskí. Hins vegar má fólk undir 17 ára aldri mótmæla nakið fyrir framan ráðhúsið, svo framarlega sem það hefur leyfi foreldra sinna, og dýr geta fengið fangelsisvist eins og fólk. T.d. var api dæmdur í 5 daga fangelsi fyrir búðarhnupl.
Í bænum Oblong er svo stranglega bannað að stunda kynlíf á meðan maður er að veiða á brúðkaupsdaginn sinn og þar eru skrímsli heldur ekki leyfð innan bæjarmarkanna.
Talan Pí er venjulega um 3,14 nema í Indianaríki þar sem hún er skv. lögum 4. Þar er öpum líka bannað að reykja og svörtum köttum er skylt að vera með klukku um hálsinn ef það er föstudagurinn 13.
Í Lowa mega kossar ekki vara lengur en 5 mínútur í senn og einhentir píanóleikarar mega ekki krefjast greiðslu fyrir vinnu sína. Jafnframt er slökkviliðsmönnum skylt að æfa sig í minnst 15 mínútur áður en þeir leggja af stað í brunaútkall og að auki mega hestar ekki borða brunahana.
Hænsnaþjþofar mega ekki stunda ,,vinnu" sína á nóttunni í Kansas en þar er líka bannað að veiða fisk með berum höndum.
Lög í Kentucky segja að maður teljist edrú uns hann stendur ekki lengur í lappirnar og þar er líka skylda að fara í bað einu sinni á ári. Konur mega heldur ekki kaupa hatta án samþykkis eiginmanns síns og ólöglegt er að þiggja endaþarmssamfarir. Þar má heldur ekki binda krókódíla við brunahana.
Í Massachusetts er bannað að borða meira en 3 samlokur í jarðarför og ljón mega ekki fara með eigendum sínum í bíó. Górillur mega heldur ekki sitja í aftursæti bíla.
Hvað dettur þeim í hug næst=)
kramiz
Anna Dóra
Saturday, June 11, 2005
Þar til næst
Anna Dóra
P.s. að sjálfsögðu gengum við bakvið Seljalandsfoss fyrir Eyjafjallaskvísuna hana Jóu mína.
Wednesday, May 25, 2005
Ótrúlegt en satt þá er ferðin að bresta á, við erum búnar að tala um þessa ferð frá því í janúar og á morgun er hún orðin að raunveruleika. Það verður svo gaman, er að hugsa um að gefa ykkur forskot á sæluna með smá preview af því sem við ætlum að gera
- Bláa lónið
- Djamm í Reykjavík
- Hvalaskoðun, líklegast frá Reykjavíkurhöfn
- Snjósleðaferð á Snæfellsjökli
- Riverrafting niður Hvítá
Sjáumst á morgun
Anna Dóra
Sunday, May 22, 2005
Viljiði svarið við gátunni? Í raun er ekkert svar til, þetta er spurning sem meðal annars FBI leggur þegar þeir eru að yfirheyra geðsjúka einstaklinga grunaða um morð eða jafnvel fjöldamorð til að sjá hversu sjúkir þeir eru í höfðinu. Þeir sem svara eins og Maggi að fyrst maðurinn kom í jarðaför móðurinnar hljóti að vera einhver tengsl og því allar líkur á að hún hitti hann aftur í jarðaför systur sinnar lenda mjög hátt á lista yfir grunaða.
Maggi minn heldurðu að það sé loksins kominn tími til að leita sér aðstoðar?
4 dagar í innrásina
Anna Dóra
Friday, May 20, 2005
Hér er smá gáta!!
Ung kona er við jarðarför móðir sinnar og sér þar myndarlegan mann, augu þeirra mætast og hún finnur fyrir einhverjum straumum. Áður en hún fær tækifæri til þess að gefa sig á tal við manninn er hann horfinn. 2 dögum síðar myrðir þessi sama kona systir sína. Hver var ástæða morðsins?
Jæja skellið nú fram morðástæðu ég skal svo segja ykkur svarið í næstu færslu.
Heja Sverige
Anna Dóra
Saturday, May 14, 2005
Hérna kemur smá hugleiðing.
Hvað er þetta með óléttar konur og vorin? Þær virðast barasta springa út eins og blómin. Alveg sama hvert ég lít mér finnst ég ofsótt af óléttum konum. Eða eru þær bara sýnilegri á sumrin?
Hvað haldið þið?
Kveðja
Anna Dóra, sem ætlar að hafa það blixterkul í kvöld
Wednesday, May 11, 2005
Varð fyrir því "skemmtilega" óhappi í morgun að sofa yfir mig, vaknaði 10 mín í sjö í morgun og á að vera mætt í vinnunna kl 7:30. Í stresskasti henti ég mér inn í sturtuna, og svo í föt og út. Þar sem ég var nú á frekar mikilli hraðferð greip ég veskið mitt og svo út á hjólið. Hugsaði svo þegar ég hjólaði á milljón í vinnuna hvað ég hlyti að líta skemmtilega út svona á fjallahjóli með handveski!!! Þegar kom svo að hádegismatnum uppgötvaði ég að peningaveskið varð eftir heima á stofuborðinu, en ég var nú svo heppin að Caroline var að vinna og gat bjargað mér um aur fyrir hádegismat.
Jæja er að fara í endurlífgun barna á morgun þannig að best að fara að kíkja aðeins í bók.
Kveðja
Anna Dóra
P.s. Til hamingju með daginn Ásdís
Friday, May 06, 2005
Styttist óðfluga í að við komum og gerum innrás á Íslandi, erum farnar að hlakka ekkert smá mikið til og varla talað um annað en djamm í Reykjavík og hversu ótrúlega skemmtileg þessi ferð eigi eftir að vera.
Fór að hugsa í gær hvort við gætum ekki grætt á túristum eins og Svíarnir gera, ekki það að við græðum ekki á þeim eins og er. Var að frétta af því að Þjóðverjar eru vitlausir í skartgripi unna úr elghægðum jú góðir vinir þið lásuð rétt elghægðum. Spurning um að fara að nýta aðrar afurðir íslenska hestsins sem allir eru svo hrifnir af =) Nei takk ojbjakk, ég hélt það væri verið að gera grín að mér en raunin er að þetta er staðreynd, getiði ímyndað ykkur að vera með hálsmen unnið úr hægðum flaksandi um hálsinn.......
Er annars bara að njóta þess að vera í fríi, 4 daga lúxuslíf á minni.
Bið að heilsa í bili
Anna Dóra
Sunday, May 01, 2005
Í gær var komu vorsins fagnað að sænskum sið. Á Valborgarmessu hittast Svíar, grilla og fara síðan á brennu. Ég grillaði með Huldu, Steina, Guðrúnu og gormunun þeirra í gær og svo löbbuðum við á brennu og hittum Hrafnhildi með sína gorma. Mér finnst þetta svolítið skemmtilegur siður að fagna vorinu. Við "misstum" reyndar af ræðunni og kórnum en bálið var fínt engu að síður. Kíktum svo aðeins til Hrafnhildar á eftir.
Vann í dag fyrstu helgarvaktina mína á svæfingunni og það var barasta ekkert að gera og tíminn þar með frekar lengi að líða en það leið nú samt.
Ætla að fara og kíkja á ræmu, framlag Svía til Óskarsverðlaunanna í fyrra
Síðar
Anna Dóra
Monday, April 25, 2005
Wednesday, April 20, 2005
Eins og þið vitið er ég með einsdæmum forvitin og finnst einstaklega gaman að renna yfir einkamáladálkinn í helgarblaðinu, ekki það að ég sé að leita bara að lesa. Það er svo fyndið sem mikið af fólki skrifar. Hvaða konu með einhvern snefil af sjálfsvirðingu myndi til dæmis detta í hug að svara svohljóðandi auglýsingu: Notuð kona óskast, opin, lítur vel út fyrir minn aldur, átt börn og dýr.... Halló hvað er að fólki?
Ef ykkur fannst þessi slæmur hvað finnst ykkur þá um Þennan
Er annars á leiðinni til Uppsala um helgina í afmæli til Óla og Snorra þeir verða 5 ára á mánudaginn, það verður ekkert smá gaman.
Jæja bið að heilsa í bili, best að fara snemma í háttinn svona einu sinni til tilbreytingar safna kröftum fyrir helgina.
Góða nótt
Anna Dóra
Saturday, April 16, 2005
Held það sé kominn tími til að sinna hinum ýmsu vorverkum eins og að fara að taka út hjólið, smyrja á því keðjuna og dæla lofti í dekkin á því og fara að spænast um stræti og torg á ofurfarti, notast ennþá við fótaflið þar til hestöflin koma til sögunnar, er nefnilega að leita mér að bíl ekki vegna minnar þekktu ofurleti heldur þægindanna vegna.
Hvar annars staðar en hér eru dýraverndunarsamtökin ofvirk? Frétt á textavarpinu í morgun um að dýr í búðum sem eru ekki til sölu heldur bara til sýnis eins og gullfiskur einn sem syndir um í skál í gleraugnabúð í Borås eigi að hafa minnst 40 lítra af vatni til að svamla í, einn dökkann vegg á búrinu svo enginn geti horft yfir öxlina á honum og stað til að geta falið sig á. Eigandi viðkomandi búðar var að vonum frekar mikið hissa og sagði að það væri verið að bera búðina hans saman við dýragarð. Halló who cares, grey kallinn sem hefur vorkennt gullfisknum sínum að vera einn heima á daginn og tekið hann með sér í vinnuna og er barasta kenndur við dýragarð í staðinn =) nei ég veit svo sem ekki hvað liggur þarna á bakvið, finnst þetta bara fáránlegt. Hvað finnst ykkur annars?
kramiz
Anna Dóra
Tuesday, April 12, 2005
Til hamingju með daginn Helga Dís og farðu nú varlega í umferðinni.
Annars á Gísli líka afmæli í dag, til hamingju með kallinn Jóa mín og Kosta átti afmæli síðastliðinn sunnudag, til hamingju með kallinn Ágústa.
Afmæliskveðjur frá Karlskrona
Anna Dóra
Sunday, April 10, 2005
Skellti mér aðeins út á lífið með Huldu í gær, við kíktum nema hvað á Schlagerbaren og ég komst að því að ég er engu skárri en Svíarnir þegar kemur að Eurovision, ég alveg tryllist þegar Carola verður Fångad av en storvind eða þegar Herreys byrja með sitt diggiloo diggiley ég verð víst bara að horfast í augu við það að ég er Eurovisionfan best að ræða þetta við stelpurnar á eftir og heyra hvernig þeim lítist á eins og eitt stykki Eurovisionpartý þann 21. maí og hvetja hinn sykursæta Martin Stenmark (held hann sé ekki tengdur skíðakappanum þannig að ekkert ojojojojojojoj þegar hann stígur á svið í Kænugarði).
Er með lamb í ofninum og lyktin er að gera mig brjálaða, ég get ekki beðið eftir að fá að borða á eftir, vona bara að stelpunum finnist þetta gott.
Jæja er að hugsa um að búa til súkkulaðimús handa þeim í eftirrétt, þá verður alla vega eitthvað smáræði sem þær geta borðað ef þær falla ekki fyrir lambinu. =)
Hej då
Anna Dóra ofurkokkur c",)
Friday, April 08, 2005
Jú búin að vera svo þreytt þegar ég kem úr vinnunni að ég hef rétt meikað það á sófann og varla uppúr honum aftur fyrr en það er kominn háttatími. Annars er allt gott af frétta, gengur vel í vinnunni. Ætlum að hittast íslensku stelpurnar í brunch á morgun heima hjá Guðrúnu og svo ætla ég að bjóða Caroline og Jessicu í íslenskan sunnudagsmat, íslenskt lambalæri með tilheyrandi og við ætlum að skipuleggja aðeins fyrir Íslandsferðina sem er farið að styttast í.
Bið að heilsa í bili
Anna Dóra
Sunday, April 03, 2005
Þannig var það að Magnús sem var eins og svo oft áður að bíða eftir okkur hinum sem vorum að skoða stjörnurnar á Madam tussaud og stendur alveg grafkyrr (þið sem þekkið hann kannist örugglega við þetta) og svo þegar hann lítur skyndilega til hliðar standa þar tveir menn sem höfðu verið að dást að honum og greinilega að spá í hver hann væri. Nú það þarf nú varla að segja frá því að þegar Maggi leit á þá misstu þeir sig og voru fljótir að láta sig hverfa, ætluðu ekki að láta alla sjá að þeir hefðu ruglast á vaxdúkku og lifandi manni. Ef ég hefði tekið eftir þessum mönnum starandi á bróðir minn hefði ég líklegast stillt mér upp við hliðina á honum og látið taka mynd af okkur saman aldrei að vita nema maður hefði soðið saman einhverja lygasögu um að hann væri frækinn fótboltakappi eða eitthvað þaðan af betra :-)
Þið báðuð um skýringu og hér fenguð þið hana, persónulega fannst mér þetta eitt af því besta sem gerðist í London ég er þvílíkt búin að hlæja að þessu.
Heilsur
Anna Dóra
Tuesday, March 29, 2005
Londonarferðin var æðisleg gott veður, yndislegt bara að vera léttklæddur úti og ekkert stress. Hér fáiði smá innsýn í það sem við gerðum
* Skoðuðum Kensington höllina þar sem Díana bjó
* Löbbuðum að Stanford Bridge heimavelli Chelsa
* Fórum í rútuferð með leiðsögumanni um London- mæli með því
* Fórum í smá siglingu á Thames ánni, ekkert nema frábært
*Fórum í London eye- risa parísarhjól á bökkum Thamesárannir og sáum yfir stóran hluta borgarinnar, var reyndar að spá hvort Bretar væru making mockery af Frökkum með því að vera með svona risaparísarhjól í London?
* Fórum á markað í Campden sem mér fannst gaman en Maggi og pabbi voru á því að ég væri að draga þá inn á sögusvið Olivers Tvist þ.e. vasaþjófar útum allt.
* Fórum á Lion King söngleikinn sem var barasta æðislegur
* Fórum á Madam Tussaud og þar var Maggi tekinn í misgripum fyrir vaxdúkku, annaðhvort er hann svona gervilegur eða dúkkurnar svona raunverulegar
Annars hefðuð þið átt sjá hótelherbergið mitt, eina herbergið á hæðinni, inngangurinn að hurðinni var eins og frímerki þannig að ég þakkaði nú fyrir að vera ekki mikið stærri en ég er!!!
Þannig að ég skildi betur af hverju galdraskólinn í Harry Potter er svona skrýtinn eins og hann er.
Annars er Maggi hetja ferðarinnar, við fórum á Pakistanskan veitingastað og Maggi sem aldrei þessu vant var ekki mjög svangur pantaði sér þessa líka girnilegu grænmetissúpu sem var hrikalega græn og full af baunum og vitiði hvað hann kláraði hana- vel upp alinn drengur þar á ferð.
Jæja vona að ég hafi ekki gleymt miklu bið að heilsa í bili
Desperate housewifes að byrja
Anna Dóra
Monday, March 21, 2005
Annars er allt gott að frétta af mér, ég held að vorið sé að reyna að brjótast fram, snjórinn er byrjaður að bráðna, íkornarnir að skoppa og svo er sól og ágætisveður á daginn, reyndar morgunfrost ennþá en það fer hlýnandi.
Bið að heilsa í bili
Anna Dóra
Thursday, March 17, 2005
Á forsíðu BLT í morgun var skrifað um konu sem var að keyra drukkin, ekki nóg með að hún var með 3,11 prómill í blóði þá var hún með eina svona 3ja lítra belju milli fótanna og drakk meðan hún keyrði. Lögreglan þurfti víst að styðja konugreyið út úr bílnum sem ber við minnisleysi um atburðinn.
Þetta er ekki brandari heldur satt, ég hélt ég yrði ekki eldri en þetta gerðist víst.
Annars allt í góðu, sófinn ekkert smá þægilegur og ég er svo ánægð.
Kramiz
Anna Dóra
Tuesday, March 15, 2005
Sunday, March 13, 2005
Jú 2 frændur mínir voru að komast í fullorðinna manna tölu eins og það var nú kallað og er kannski enn, þeir voru fermdir í morgun. Ég bakaði meira að segja köku í tilefni dagsins. Guðrún og Eiríkur komu og sóttu nýju svefnsófana sína í dag og ég bauð þeim svo í kaffi á eftir. Það bergmálar aðeins í stofunni minni núna en nýji sófinn kemur á morgun JIBBÝ vona bara að ég fái að fara aðeins fyrr heim úr vinnunni til þess að geta tekið á móti honum en annars ætlar hún Carro vinkona mín að hleypa mönnunum inn þannig að sófann fæ ég hvort sem það er ég eða hún sem tekur á móti honum.
Bið að heilsa í bili
Anna Dóra
Wednesday, March 09, 2005
Skrýtið þetta með stress. Þó svo að hafi unnið sjálfstætt síðustu 7 vikur þá vissi ég alltaf að það var einhver vanur sem stóð á bakvið mig. Núna er einhvern veginn bara að hringja á svæfingalækninn ef það er eitthvað vesen og treysta á sjálfan sig. Get sagt ykkur það svona í trúnaði að aðfaranótt mánudags svaf ég frekar illa og var alltaf að vakna upp gæti verið að ég hafi verið farin að kvíða fyrir mánudeginum?
Að öðru leyti er allt gott að frétta, ég er farin að hlakka til páskanna, helgarferð til London ekki bagalegt, mér finnst ég þurfa á smá tilbreytingu að halda þessa dagana.
Bið að heilsa í bili
kramiz
Anna Dóra
Saturday, March 05, 2005
Þegar ég var í verknáminu fyrir jól kom mogginn og var að fylgjast með aðgerð þar sem ég var að aðstoða við að svæfa og í morgun birtist þessi hérna í mogganum.
Svo maður vitni nú aðeins í félaga sína Stuðmenn:
Já hún er engin venjuleg kona og hún býr í litla Karlskrona og hún er alveg ofboðslega frægur hún fékk myndina af sér í BLT ...........
Þessi hálf-þekkta í Karlskrona
Anna Dóra semi-kändis
Friday, March 04, 2005
Jú þið lásuð rétt, stelpan er á leiðinni til London og ætlar að vera flott á því. Fer á skírdag eftir vinnu niður til Köben og gisti eina nótt og tek svo flugið snemma á föstudagsmorgninum til London þar sem ég ætla að hitta mömmu, pabba, Magga og Helgu Dís og vera með þeim yfir helgina og fljúga svo heim á annan í páskum. Ekki bagalegir páskar þetta eller hur.
Í dag var síðasti dagurinn í aðlögun í vinnunni þannig að á mánudaginn er það Anna Dóra sem ræður, handleiðarinn minn var nú svo sæt og hringdi í mig áðan (hún var úti með sjúkrabílnum þegar ég fór heim) og var bara að spá hvernig þetta legðist nú í mig og aðeins að gefa mér góð ráð- það væri ég sem stjórnaði ekki sjúkraliðarnir en hún sagðist hafa verið svipuð þegar hún byrjaði að þegar svæfingalæknirinn sér um að svæfa þá eigi ég ekki að bakka og hleypa sjúkraliðunum framfyrir mig en vissar hafa þann leiða óvana að halda að þær séu barasta svæfingalæknar held ég því þær hafa unnið í 30 ár á svæfingunni. Nei nú er bara að standa föst fyrir og sýna þeim að núna er það víkingurinn sem ræður.
kram, kram
Anna Dóra
Sunday, February 27, 2005
- Ef að ristað brauð með smjöri lendir alltaf með smjörhliðina niður og kettir lenda alltaf á fótunum, hvað ætli myndi gerast ef maður festir ristað brauð með smjöri á bakið á ketti og sleppir honum svo?
- Nonni litli fékk sögubók í gjöf frá ömmu sinni. Þakka þér kærlega fyrir amma mín, segir hann og er svakalega kurteis. O það var ekkert svarar amma. Þá snéri Nonni sér að mömmu sinni og sagði, hvað var það sem ég sagði, maður þarf ekki að þakka fyrir svona drasl.........
Annars allt í góðu
Anna Dóra
Saturday, February 26, 2005
Hvað er það besta við að fá útborgað- jú mikið rétt að eyða peningunum. Fór í dag með Huldu og Guðrúnu í MIO sem er húsgagnaverslun hérna rétt hjá og viti menn mér tókst að eyða nokkrum þúsundköllum, keypti mér nýjan sófa, svaðalega fínan hornsófa sem er blásvartur, set kannski mynd af honum hérna þegar ég verð búin að fá hann.
Annars er allt það besta að frétta héðan úr snjónum í Karlskrona, Svíarnir eru nú reyndar alveg að gefast upp á snjónum og farnir að lengja eftir vorinu- eins og við öll held ég barasta. Annars eru bókaútsölur í fullum gangi núna og ég keypti 2 bækur sem heita því skemmtilega nafni dassboken, salernisbókin á góðri íslensku, þetta eru svona litlar bækur með stuttum skemmtisögum gerðar til að hafa á salerninu svo fólk geti stytt sér stundir við að gera stykkin sín =) Maggi minn ég er semsagt búin að kaupa lestrarefni svo þú getir æft þig í sænskunni næst þegar þú kemur í heimsókn c",)
Jæja best að fara og elda mér mat svo ég verði búin að borða þegar melodifestivalen byrjar í kvöld, 3ja undankeppni fyrir evróvisíón
Det gör ont .........
Anna Dóra
Thursday, February 24, 2005
Jú jú tók ekki nema viku að hrista af sér flensuna, mætti tvíefld í vinnuna í morgun þ.e. ef þið kallið löðursveitt eftir 10 mín göngu tvíefld. Nei nei annars gekk dagurinn barasta mjög vel, bara 2 sjúklingar og svo námskeið eftir hádegið er hægt að biðja um betri fyrsta dag eftir flensu, nei ég held barasta ekki.
Annars er allt á kafi í snjó hérna hjá okkur, ótrúlegt en satt þá er snjórinn búinn að sitja í rúmar 2 vikur, gerist ekki oft hérna enda Svíarnir alveg í vandræðum með að keyra bílana sína í svona ófærð =)
Á í vandræðum með msn-ið hjá mér, þeir barasta vilja ekki skrá mig inn þannig að ég hef ekki verið online síðan ég veit ekki hvenær, vona að mér verði fyrirgefið, smá tæknileg vandræði sem ég er að reyna að yfirstíga.
Gerði annars hrikalega uppgötvun í dag, hef bara næstu viku með handleiðaranum mínum og svo er barasta vesgú og spís að standa á eigin fótum engar hækjur eða hjálpargögn nei nei auðvitað er maður aldrei einn það er bara eitt stórt skref sem skilur mig frá hinum svæfingahjúkkunum.
Kramiz
Anna Dóra
Monday, February 21, 2005
Glæsilegur titill en um þetta hefur líf mitt snúist frá því á föstudag, jú flensan hefur slegið fæti sínum niður á Snapphaneväg og fyrst að Anna Dóra hefur ekki fengið flensuna síðan hún man ekki hvenær ákvað flensan að gera sig heimakæra. Ef ég er ekki að deyja úr hita eða svita þá eru það kölduköst sem ráðast á mig, þetta er skelfilegt ástand. Ennþá verra fannst mér þegar ég kláraði panodilið mitt að þurfa að hringja í Caroline í vinnuna og biðja hana að koma við í apótekinu á leiðinni heim =( En svo fór ég að hugsa hversu gott það er að eiga góða vini sem hugsa um mann þegar maður er lasinn, það er til fullt af fólki sem á engan að. Reyndar sakna ég þess að hafa ekki mömmu til að stjana í kringum mig, það svona einhvern veginn tilheyrir í veikindum.
Jæja kveð í bili úr flensubælinu
Anna Dóra
Wednesday, February 16, 2005
Jú öll vitum við hversu umhverfisvænir (miljövänliga) frændur okkar Svíarnir eru en það sem ég las í blöðunum um helgina slær eiginlega botninn úr tunnunni. Það er ólöglegt að þrífa bílinn sinn heima á planinu, þetta er einhver ný umhverfisstefna þar sem hætta er á að eiturefnin í sápunni og tjöruhreinsinum blandist grunnvatninu besta er að þrífa bílinn á þesstilgerðum þvottaplönum (sem hafa væntanlega eigið afrennsli) eða á bílaþvottastöð. Ef þú endilega vilt þrífa bílinn heima skal það gerast á malar- eða grasbletti þar sem er minni hætta á að óhreina sápublandaða vatnið blandist grunnvatninu!!! Sektir við umhverfisbrotum geta verið frá nokkrum mánuðum til 2 árum í fangelsi. Þeir pólitíkusar sem stóðu á bak við þessa frétt viðurkenndu nú að það væri mjög erfitt að fylgja þessu eftir þar sem það væri nú ekki hægt að fylgjast með öllum í einu (döööö) =)
Jæja bið að heilsa frá þessu umhverfisvæna landi
Anna Dóra, laus við þessar áhyggjur í bili
Thursday, February 10, 2005
Mikið svaðalega finnst mér ég hafa verið dugleg að púsla takið eftir að það er ekki bein umgjörð. Versta var eiginlega að miðað við hvað það tók langan tíma að koma þessu saman þá tók það 2 mínútur að setja það ofaní kassa aftur =( Annars allt í góðu, bauð Guðrúnu og Eiríki í bollukaffi áðan (betra seint en aldrei) þar sem mánudagurinn fór í stórþvott og þetta er alltaf jafn gott get ég sagt ykkur. Jæja bið að heilsa í bili Anna Dóra |
Sjáið hvað ég var dugleg!!!
Tuesday, February 08, 2005
Með hjálp Jóhönnu vinkonu minnar er komið nafn á svona gleymið fólk eins og okkur tvær og hvað er það annað en Doris (skemmtilegi fiskurinn úr Nemó sem skortir skammtímaminni!!) Jú Jóa er algjör Doris en mér finnst eiginlega betra að það sé til nafn yfir okkur. Ef ég deili með ykkur því helsta sem Doris hefur gert síðustu daga:
- Gleymdi húslyklunum hangandi í skáphurðinni í vinnunni og uppgötvaði það þegar hún kom heim 3 klst síðar
- Gleymdi að panta leigubíl á flugvöllinn síðasta föstudag og rétt náði flugrútunni
- Gleymdi dagbókinni sinni hjá hinni Doris
- Gleymdi að panta þvottahúsið og bauð sér því í heimsókn til Guðrúnar og Eiríks í gær með óhreina þvottinn sinn
- Gleymdi næstum því öllu sem hún þurfti að hafa með sér inni á skurðstofunni í dag þannig að greyið sem stóð á bak við hana fékk að stjana aðeins í kringum hana!!
Annars var æðislega gaman hjá mér um helgina þið getið rétt ímyndað ykkur það Doris og Doris saman, getur ekki annað en verið bara frábært.
Núna er svo ný vinnuvika tekin við sem endar á föstudaginn með því að SVÆFINGAMAFÍAN (dídídí dumm) ætlar að skella sér í Laser tag og aldrei að vita hvað áframhaldið verður
Verði ykkur saltkjötið að góðu
Kabúmm frá Karlskrona
Anna Dóra ekki sprengsödd af saltkjöti heldur pasta
Saturday, January 29, 2005
Annars er allt gott að frétta ekki mikið um að ske þessa dagana vinna, borða, sofa.... þið kannist við þetta. Ætla að skella mér til Jóhönnu, Gísla og gormanna næstu helgi og hlakka ekkert smá til að hitta þau, orðið alltof langt síðan síðast. Við keyptum líka ferð heim í sumar í vikunni, núna er þetta ákveðið, ég Caroline og Jessica komum 26. maí til 9. júní og ég ætla að byrja á að sýna þeim íslenskt næturlíf í Reykjavík og svo ætlum við að ferðast hringinn í kringum landið þetta verður ekkert smá skemmtilegt.
Smá afmæliskveðjur í lokin: Harpa og Unnur urðu 6 ára síðasta miðvikudag og á morgun verður Guðfinna Ósk 3ja ára til hamingju skottur
Bið að heilsa í bili
Anna Dóra
Monday, January 24, 2005
Lifði fyrstu vinnuvikuna af og þurfti satt að segja bæði laugardag og sunnudag til þess að jafna mig, ótrúlegt hvað maður er þreyttur þegar maður byrjar að vinna á nýjum stað því það er svo mikið um að ske og að sjálfsögðu tímir maður ekki að missa af neinu!!! En það gengur vel í vinnunni, ég hef reyndar fengið illkvittnisaugnaráð frá barnafólki þegar ég segist vakna hálfsjö en er samt mætt hálfátta, en svona er það þegar maður hefur bara sjálfan sig að hugsa um og ég nýt þess í ræmur =)
Er byrjuð að setja inn myndir frá óvæntu heimsókninni sem ég fékk og hugsa að það taki smá tíma sökum þreytu hjá undirritaðri.
Jæja bið að heilsa í bili
Anna Dóra
Tuesday, January 18, 2005
Þið kannist við orðatiltækið þröngt mega sáttir sitja jæja það átti nú ansi vel við síðastliðna viku, sem betur fer semur fjölskyldunni mjög vel saman því annars hugsa ég að það hefði legið við stórslysi. Mamma, pabbi og Halldór Óskar yfirtóku svefnherbergið mitt og ég, Rúna og Maggi sváfum í stofunni (það hefur nú barasta ekki gerst að við systkinin höfum sofið svona saman síðan við vorum lítil í sumarbústað í Svartagili hjá ömmu og afa). Alla vega gekk þetta hrikalega vel, svo er líka svo gott að fá svona laghentan pabba í heimsókn, pabbi setti upp fyrir mig gardínur, hann og Maggi hjálpuðust svo að við að setja upp nýtt ljós í stofuna hjá mér og Maggi skrúfaði saman hægindastólinn sem ég fékk í útskriftargjöf frá fjölskyldunni.
Ég segi barasta takk fyrir komuna
Anna Dóra, að reyna að venjast þögninni sem varð allt í einu ríkjandi á Snapphaneväg
Wednesday, January 12, 2005
Ein í sjokki
"Getur verið að þú gerir skrýtin innkaup fyrir heimilið. Fjölskyldumeðlimur kemur þér kannski á óvart á einhvern hátt" Ok scary Maggi bróðir kemur í dag í þessum skrifuðu orðum situr hann í flugvélinni. Hann er búinn að vera að tala um útskriftargjöf sem enginn annar veit hvað er hmmmmm hvað finnst ykkur er þetta tilviljun eða hvað?
Kveðja
Anna Dóra stjörnuspekingur
Tuesday, January 11, 2005
Síðasti skóladagurinn og ég get farið að kalla sjálfa mig svæfingahjúkku ótrúlegt en satt þá er árið liðið og ég er nýkomin heim frá síðasta skóladeginum mínum vonandi það sem eftir er!!!
Á morgun förum við svo saman úr að borða hópurinn, mér finnst nú reyndar svolítið sorglegt að hætta í skólanum því við erum öll að fara hvert í sína áttina og ég og Guðrún erum þær einu sem verðum að vinna hér í Karlskrona en svona er víst lífið. Eftir að ég hef kvatt fólkið á morgun kemur Maggi bróðir og við ætlum að slaka á í viku áður en alvara lífsins tekur við, jú ég þarf víst að byrja að vinna fyrir mér eins og svo margur annar. 19. janúar verður fyrsti vinnudagurinn (af mörgum) og ég er bæði spennt að takast á við þennan nýja kafla í lífi mínu sem svæfingahjúkka en einnig liggur pínu ótti þarna á bakvið- nú er að duga eða dr......
Einu langar mig að deila með ykkur; ég var skotin niður í skólanum í dag, ég var nefnilega ósammála kennaranum í umræðum sem við áttum og sagðist vera Egóisti því mér finnst ég svolítið sjálfsmiðuð en þá var bara baulað úr öllum hornum að ég væri nú ein af þeim minnst sjálfsmiðuðu manneskjum sem þau hefðu hitt og öll mín framkoma benti á allt annað en egóista, það er þó eitthvað jákvætt við mig!!!
kveðja
Anna Dóra svæfingarhjúkrunarfræðingur (þvílíkur tungubrjótur)
Friday, January 07, 2005
Var að klára að setja inn myndir frá jólafríinu mínu þannig að ef þið hafið áhuga þá er þar brot af því besta=)
Er boðin í mat til Guðrúnar og Eiríks í kvöld, ætlum að kveðja jólin saman þó svo að það sé einum degi of seint en eins og spekingurinn sagði: "Betra er seint en aldrei"
Annars á Helga frænka mín afmæli í dag, látum aldur liggja milli línanna og jólaboð fjölskyldunnar verður í kvöld, góða skemmtun gott fólk ég hugsa til ykkar.
Jæja ætla að skella saman nokkrum glærum svo ég geti haldið kynningu á verkefninu mínu næsta mánudag
Anna Dóra
Wednesday, January 05, 2005
Annars er allt við það sama hér, allt í góðu gengi, á bara eftir að kynna eitt verkefni búin að ná öllu öðru.
En svo styttist í að Maggi bróðir komi bara vika í kappann. Hann ætlar að vera í viku hjá mér og ég get sagt ykkur það strax að lífinu verður tekið létt, ætlum reyndar að kíkja út á lífið í tilefni skólaslita minna að sjálfsögðu setjum við það mikinn svip á bæinn að um annað verður ekki rætt næstu árin =)
Annars eignaðust Íris og Kalli strák á gamlársdag, innilega til hamingju
Kveðja í bili
Anna Dóra
P.s ætla að setja inn myndir úr jólafríinu mínu við tækifæri, kannski í kvöld, kannski á morgun