Sunday, December 31, 2006

GLEÐILEGT ÁR
Farið varlega í flugeldana í kvöld, ég er með fólk sem sér um þá fyrir mig=) Hafið það sem allra best á nýja árinu, ég veit að ég ætla að gera það.
Sprengikveðja
Anna Dóra

Sunday, December 24, 2006

GLEÐILEG JÓL

Þá er aðfangadagur runninn upp, sólin skín hér í Karlskrona, ekki eitt einasta snjókorn í sjónmáli. Þið ættuð bara að vita hvað það er yndislegur ilmur hérna hjá mér, er að laga kvöldmatinn því ég ætla að eyða fyrstu sænsku jólunum mínum í faðmi vinnufélaganna=) Fer í hádeginu til Hrafnhildar í jólagraut áður en ég mæti í vinnuna kl 14. Haldiði ekki að hann Kertasníkir hafi fundið mig og fært mér eftirrétti Hagkaupa í skóinn, þessir jólasveinar eru ótrúlegir. Nei nú heyri ég að pottarnir kalla.
Hafið það gott um jólin, ég veit að ég ætla að gera það. Við ætlum að hittast Íslendingarnir hérna á annan í jólum og snæða hangikjöt, ég fæ vatn í munninn bara við tilhugsunina.
Jólakveðja
Anna Dóra




Thursday, December 14, 2006

Vá hvað ég er fegin að ég bý ekki í einhverjum "klám"stað hér í Svíaríki. Í blaðinu í morgun var frétt um að íbúar margra staða séu orðnir þreyttir á að fá klámfengin svör þegar þeir segjast hvar þeir búa og vilja að staðurinn/bærinn skipti um nafn. Þeir völdu nú að búa þarna só.... viljiði fá smá prufur og lauslega þýðingu!!

Hvernig þætti ykkur að búa í:
Onansbygd: sjálfsfróunarbæ
Bögholmen: hommahólma
Sextorp: þýðing óþörf
Snopptorp: typpaþorp
Trekanten: já.....
Porris: klammari
Klitten: snípur

Eða synda í:
Kåtaträsket: graðamýrin
Rumpsjön: rassavatn

Eða klífa
Snålkuk: nískt typpi
Liggaberget: já þið fattið...

Eða fara og skoða
Runkesten: held þið skiljið.....
Stjärtnäs: rassnef

Fyrst ég er byrjuð í klámbransanum vitiði hvað klámnafnið ykkar er? Þið takið nafnið á fyrsta gæludýrinu ykkar og föðurnafn mömmu ykkar. Ég hugsa að ég myndi ná langt í klámbransanum bara út frá nafninu MIMI OLAFS eða hvað haldið þið. Endilega deilið klámnafninu ykkar með mér, veit reyndar ekki hvað maður gerir ef maður hefur aldrei átt gæludýr.

10 dagar til jóla og 15 dagar þar til ég kem heim
puss o kram

Thursday, December 07, 2006

Hvernig viðheldurðu léttleika lífsins?

1. Notaðu hádegishléið þitt vel, sittu í bílnum með sólgleraugu. Bentu með hárblásara á bílana sem keyra hjá og athugaðu hvort einhver hægi á sér.

2. Hringdu í skiptiborðið í vinnunni og biddu þau um að láta kalla þig upp. Ekki reyna að breyta röddinni.

3. Þegar einhver biður þig um hjálp. Svaraðu: það er ég sem bið þig um hlutina.

4. Í hvert skipti sem einhver biður þig um að gera eitthvað, spurðu hvort hann vilji franskar með því

5. Settu ruslafötuna upp á borð og settu miða á hana: Inbox

6. Skelltu koffeinlausu kaffi í kaffisjálfsalann í vinnunni. 3 vikum síðar þegar allir eru komnir yfir koffeinfíknina skiptu þá yfir í expresso

7. Skrifaðu Fyrir kynlífsgreiða sem útskýringu þegar þú borgar reikningana þína.

8. Endaðu allar setningar á Samkvæmt spádóminum

9. Ekki nota punkt

10. Hoppaðu í staðinn fyrir að ganga, eins oft og tækifæri gefst.

11. Spurðu fólk hvers kyns það er, hlæðu þig máttlausan þegar þau svara

12. Taktu fram þegar þú pantar í bílalúgu að þú ætlar að taka það með þér

13. Syngdu með óperunni

14. Skelltu þér á ljóðakvöld og spurðu svo af hverju það sé enginn taktur í ljóðinu.

15. Hengdu upp mýflugnanet kringum skrifborðið þitt og spilaðu frumskógatónlist allann daginn.

16. Láttu vini þína vita með 5 daga fyrirvara að þú komist ekki í partý til þeirra þar sem þú sért með höfuðverk.

17. Biddu vinnufélagana að kalla þig Gladiatornafninu þínu Rock hard

18. Þegar þú tekur út peninga úr hraðbankanaum hrópaðu: Ég vann, ég vann þetta er í þriðja skiptið í vikunni

Verið hress, ekkert stress og bless bless
Anna Dóra

Friday, December 01, 2006

Ótrúlegt þetta veður. Það er 1. des og það er um 10°C. Er í fríi í dag, loksins, búin að vera á kvöldvöktum alla vikuna. Ætla að skella mér upp til Kalmar, kíkja í uppáhaldsbúðina mína IKEA og vonandi á jólamarkaði sem er haldinn í kastalanum. Mig hefur langað á þennan jólamarkað síðan ég flutti hingað en það hefur aldrei orðið neitt úr því.

Afi á afmæli í dag, 90 ára ég hringdi í gær í m+p og bað þau að skila kveðju frá mér. Ég verð bara knúsa hann þegar ég kem heim.
Hrafnhildur á líka afmæli í dag, til hamingju með daginn=)

Býð spennt eftir jóladagatalinu sem mamma sendi mér í póstinum, súkkulaði að sjálfsögðu.
Afmæliskveðja
Anna Dóra

Monday, November 20, 2006

Biðst afsökunar á því hversu sjaldan ég blogga núorðið, ekki svo mikið um að ske hjá mér.
Nema núna, ég er búin að fá fastráðningu við spítalann =) ekkert smá ánægð með það.
Fór á jólamarkað um síðustu helgi, keypti reyndar ekki mikið en smakkaði þeim mun meira af brauði, osti, pylsum og glænýjum brjóstsykri. Fór með 2 pæjum úr vinnunni, gaman að hittast fyrir utan vinnuna. Síðasta föstudag fór ég svo með vinnunni á hyttsill, þá borðar maður jólahlaðborð í húsinu sem þar sem þeir blása gler. Ótrúlegt hvað það lítur út fyrir að vera auðvelt en það er greinilega heilmikil vísindi á bakvið glerblástur. Á laugardaginn var ég svo boðin heim til Josefin og við borðuðum krabbakjöt. Þetta er sænsk hefð sem er venjulega snemma á haustin en þar sem ég var ekki heima í september og svo höfum við ekki átt helgarfrí samtímis fyrr en núna ákváðum við að slá til. Ég hef ekki borðað þetta áður, en vá hvað þetta var gott. Krabbinn (kräftan) er fyrst soðin og síðan látin liggja í dill og saltlegi áður en það er borið fram. Þarna sat ég, reif halann af þeim og át og smjattaði svo á klónum.
Kem heim um áramótin, verð heima í 10 daga. Reyndar ekki búin að kaupa miða, er enn að bíða eftir vinnuskýrslunni minni=(
Bið að heilsa í bili
Hugs
Anna Dóra

Friday, November 03, 2006

Íslenskt overload....

Eiríkur er að læra að kafa, í gær var hann að kafa hérna í Karlskrona inni á herstöðinni. Þar sem það er alltaf svæfingahjúkka með þegar þeir æfa svona frítt uppstig, bað ég um að fá að vera með, og fékk það. Mér fannst þetta ekkert smá gaman, ímyndið ykkar bara að horfa á unga menn á sundskýlunni í 5 klst og fá borgað fyrir það=) Við erum nú þar af öryggisástæðum ef eitthvað skyldi koma uppá. Þegar þeir voru svo farnir fylgdist ég með þegar það var verið að meðhöndla einn sjúkling í háþrýstiklefanum, mjög spennandi og lærdómsríkur dagur. Hvað haldiði svo, mamma og pabbi ætla að koma í stutta og mjög óvænta heimsókn, koma á morgun og fara á þriðjudagsmorgun. Ég er náttúrulega búin að senda óskalista heim. Eiríkur kom nefnilega með jólaöl/appelsín og harðfisk, ég fór út að borða með strákunum á miðvikudagskvöldið og svo þegar ég kom heim var lyktin af harðfisknum svo ómótstæðileg að ég sat og smjattaði á harðfisk og sötraði jólaöl með. UMMMMMMM.... ég fæ gæsahúð þegar ég hugsa um það, hrikalega gott. Ég bað mömmu um að koma með meira jólaöl/appelsín.
Jæja ætla að fara að hringja og panta tíma fyrir dekkjaskipti, reyna að nota pabba meðan hann er hérna.
Kveðja úr frostinu í Karlskrona
Anna Dóra

Sunday, October 29, 2006

Vá hvað ég er stirð í dag, prófaði pilatesleikfimi í gær, ef ég get hreyft mig á morgun verð ég mjög glöð. Annars var þetta ekkert smá góð leikfimi, get alveg mælt með því að prófa hana.
Var í Malmö á föstudaginn á vinnutengdum fyrirlestrum, ekkert smá gaman og áhugavert. Dagurinn endaði á fyrirlestri þar sem nokkrir læknar voru að segja frá reynslu sinni að vinna í Ástralíu, og USA. Ég verð nú að viðurkenna að ég var alveg til í að fara til Oz og vinna en eftir að hafa hlustað á þá og fengið staðfest að það eru engar svæfingahjúkkur þar, læknaðist þessi baktería mín. Er reyndar að hugsa um að reyna að fara í heimsókn á svæfinguna heima þegar ég kem heim um áramótin og sjá hvernig er unnið þar, er pínu forvitin. Reyni kannski að fá að hanga á henni Maríu minni. Mér var tilkynnt í síðustu viku að það ætti að framlengja ráðningasamninginn minn og ég held meira að segja að ég sé komin með fastráðningu við spítalann (á að gerast sjálfkrafa þegar maður er búinn að vinna í 3 ár). Einum vinnufélaga mínum finnst að þá eigi ég barasta að drífa í því að kaupa mér íbúð (hann er meira að segja búinn að finna íbúð handa mér, með risahornbaðkari). Ein í vinnunni tilkynnti mér á föstudaginn að næst þegar ég færi til Íslands að sumarlagi vildi hún koma með, hana hafi alltaf langað til Íslands og ekki væri nú verra að hafa leiðsögumanninn með sér.
Jæja held að þetta sé orðið frekar langt hjá mér.
Þar til næst
Farið varlega og hugsið vel um ykkur í kuldanum
Hugs
Anna Dóra

Saturday, October 14, 2006

Vá, vorum með vinnupartý í gærkvöldi (ég í skemmtinefndinni) sem heppnaðist svona líka glimrandi vel. Vorum að halda uppá að deildin er búin að vera í 20 ár þar sem hún er núna. Skemmtiatriðið vel lukkað og allir glaðir. Það var alla vega svo gaman að við vorum 10-15 manns sem komu í eftirpartý hingað þar sem var boðið uppá Tópas og Ísl. brennivín. Sem féll vel í svíann, veit reyndar ekki hvernig þeim líður í dag........
Jæja, ætla að skella mér í sturtu, borða og svo er tímabært að skella sér í vinnuna.
pussiluss

Saturday, October 07, 2006

Komin heim :-(
Allt var svo æðislegt og ég er búin að skemmta mér svo vel síðasta mánuðinn að ég vildi ekki fara heim. Hlýtt, sól, sandur, vingjarnlegt fólk og ein besta vinkona mín. Við skildum við hvor aðra í tárum á flugvellinum í Sydney á fimmtudaginn, kannski ekki skrýtið eftir að hafa verið svo nánar í heilan mánuð. Ætla nú ekki að telja upp allt sem við gerðum hérna, það yrði allt of langt get bara sagt ykkur að ég á eftir að fara aftur til Ástralíu, myndi gjarnan vilja búa þar ef það væri ekki svo langt til Íslands. Annars er fólkið sem ég kynntist í þessarri ferð með ofurtrú á Íslandi núna, enginn trúði því að ég væri að verða 29 ára, meðalaldur minn í þessarri ferð var 23-24 ár, allir segja að það hljóti að vera allur fiskurinn sem við borðum á Íslandi:-) Svo þegar ég sagðist vera Íslendingur fékk ég svör eins og vá ég hef aldrei hitt neinn frá Íslandi áður eða vá ert þú þessi sérstaka...... já hvað á maður að gera við svona útlendinga annað en grín að þeim. Það mesta af ferðasögunni er á resedagboken, svo er ég með um 1000 myndir þannig að ég efast stórlega um að ég setji þær á netið, kem með þær heim næst þegar ég kem. Strax farin að vorkenna ykkur sem eigið eftir að hlusta á mig segja frá öllu og sýna allar myndirnar en þið verðið bara að þola það.
hugs
Anna Dóra

Sunday, September 03, 2006


Þreytt en ánægð eftir 10 km Posted by Picasa
Já svona leit stelpan út að loknum 10 km og Rúna ég skil vel brosið á Eiríki eftir 42 km, maður er svo ógissla ánægður með sjálfan sig og svo er svo gaman að koma í mark þar sem fullt af fólki stendur og hvetur mann áfram síðustu metrana.
Ótrúlegt en satt þá eru bara 3 dagar þar til ég held af stað í stóra ferðalagið mitt, haldiði að ég sé eirðarlaus eða? Ég er strax farin að hugsa um hvert ég eigi að fara í næsta stóra ferðalag, hvort það verði um S-Ameríku eða safarí í Afríku er ég ekki búin að ákveða en langar bæði. Ég ætla að reyna að blogga eitthvað á meðan ég er í Ástralíu, við verðum líka með ferðadagbók á sænsku reyndar á www.resedagboken.se þar fer maður svo í sök resenär og skrifar jessica-24 og þá kemur upp síðan okkar, veit að Jessica hefur sett inn myndir þar þannig að maður veit aldrei hvort við getum það líka. Stelpan sem seldi okkur ferðina sagði að við hefðum engan tíma til að vorkenna okkur í þynnku því við þurfum að hlaupa í rútu, lest eða flug næstum því á hverjum morgni=) En það er ekki eins og við séum að fara í fylliríisferð til Spánar eða hvað.......
Jæja best að halda áfram að gera lista yfir það sem ég þarf að taka með mér (passinn er kominn á listann=))
Peace out
Doris

Tuesday, August 29, 2006

Þá er maður kominn heim frá höfuðstaðnum. Við fórum til Stokkhólms sl. laugardag og tókum því rólega fyrir hlaupið. Á sunnudeginum var svo sjálft hlaupið, ég var með nettan fiðring í maganum ekki nema 22. þús spriklandi kellur allt í kringum mann. Ég var eitthvað svo niðursokkin í eigin hugarheimi (eins og oft áður) að áður en ég vissi var ég farin að tala íslensku við Josefin, þetta er í fyrsta skipti sem ég ruglast svona=) Alla vega svo hófst hlaupið og ég hljóp á 81 mín og er hrikalega ánægð með sjálfa mig, er varla kominn niður á jörðina. Eftir hlaupið fórum við svo að sjá Mamma Mia, abbashow sem er bara snilld. Á meðan flestir hlupu svo á milli búða á mánudeginum (til að geta keypt sem mest áður en haldið yrði heim um kl 15) vorum ég og Josefin bara menningarlegar. Við fórum á Östermalm, fíkuðum (sátum á kaffihúsi og horfðum á mannlífið), löbbuðum að konungshöllinni og sáum lífvarðaskiptin og kíktum á sýningu af þeim kjólum sem drottningin hefur notað við afhendingu nóbelsverðlaunanna. Röltum svo aðeins í Gamla stan áður en við hittum hinar skvísurnar.
Best að reyna að komast niður á jörðina
puss o kram
Anna Dóra

Sunday, August 20, 2006

Ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða bara vika í hlaupið og rúmar 2 vikur til Ástralíu. Helga Dís var hjá mér núna í nokkra daga og ef sölumenn hafa eitthvað þurft að kvarta yfir lélegri sölu í sumar þá bætti hún það upp á nokkrum klst. Þó svo að ég hafi verið mikið að vinna á meðan hún var hérna þá nýttum við tímann sem ég var í fríi betur, vorum úti, spiluðum og hún eignaðist nýjar vinkonur já Helga Dís kynntist Carrie og co í Sex and the City.
Ég er búin að vera svolítið löt síðustu 2 vikurnar, bara farið út að labba með Helgu þannig að í gær eftir vinnu hjólaði ég upp til Rosenholm og hljóp 6 km, hélt reyndar að ég myndi ekki hafa það af en harkaði af mér og hljóp áfram og það gekk bara ágætlega. Ég skal hlaupa alla 10 km næsta sunnudag.
Afmælisprik dagsins fær Maggi bróðir, hann er 25 ára í dag. Til hamingju með daginn. Hver veit nema ég skelli í eina skúffuköku þér til heiðurs í dag.
Saknaðarprik vikunnar fá Guðrún, Eiríkur, Guðfinna og lilla skutt sem flytja til Uppsala í næstu viku. Ætli ég verði ekki að líta á það með jákvæðum augum, núna eru fleiri að heimsækja í Uppsala, ég veit Jóa mín það er langt síðan við hófum hist, vona að við getum hist í smástund næstu helgi í Stokkhólmi.

PUSS O KRAM
Anna Dóra

Monday, August 07, 2006

Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Eins og það var langt þangað til að ég færi í sumarfrí þá fer barasta að koma að því. Fyrst kemur Helga Dís til mín, núna á laugardaginn og verður í nokkra daga. Aldrei að vita nema ég keyri hana niður til Kaupmannahafnar á miðvikudeginum og við eyðum deginum saman við að gera það sem við erum ansi duglegar við AÐ VERSLA og svo kannski bara út að borða áður en ég fer heim aftur. Er nefnilega á kvöldvakt daginn eftir. Svo eftir það er það að hlaupa í Stokkhólmi og svo bara viku síðar er það ÁSTRALÍA. Er búin að fá ferðaáætlun frá Jessicu, við töluðum við fyrirtæki sem vinnur við það að setja saman ferðir fyrir bakpokaferðalanga og þar sem við höfum bara 4 vikur er ágætt að láta aðra sjá um skipulagið og við getum séð um skemmtunina.
Svona lítur ferðaáætlunin út
7 - 9/9 Sydney
10 Flug frá Sydney till Melbourne.
10 - 13 Melbourne
14 - 16 Melbourne till Adeleide 3ja daga ferð með rútu.
17-18 (natt) Adelaide till Alice Springs, lestarferð
19 - 21 Uluru och Outback tour, fattiði hvað þetta verður gaman, ferð með frumbyggjum.
22 Alica Springs till Cairns, flug
23 River rafting, heill dagur
24 - 25 Cape tribulation go wild tour, í regnskóginum
25 - 26 Cairns till Airlie (natt)
28 - 30 Whitsunday sailing, á lúxussnekkju, 2 nætur og 3 dagar, heitur pottur um borð, hægt að hoppa frá borði og snorkla og bara almennt að njóta lífsins
30 - 1/10 Airlie till Fraiser (natt)
1 - 3 Fraiser Island tour, þetta er hálfeyja úr sandi, þarna verður leigður jeppi og keyrt um eyjuna, og bara leikið sér.
4 flug till Sydney
5 ég flýg heim til Karlskrona
Finnst ykkur þetta ekki hljóma spennandi og skemmtilegt, ég á alla vega erfitt með að hemja mig:-)
Þið getið kíkt nánar á þessa staði á http://www.australienguiden.se
Love
Ein sem iðar í skinninu eftir að komast í sumarfrí.

Wednesday, August 02, 2006

Ég er ógissla ánægð með mig, fór út að hlaupa áðan og hljóp takk fyrir 8 km, ég hef aldrei áður hlaupið svona langt. Tíminn var nú kannski ekki sá besti 67 mín, þannig að ég var rúmar 8 mín/km. það eru hrikalegar brekkur þar sem ég hljóp og ég hljóp þær allar=). Fór samanlagt 9,5 km í kvöld, bara 2 km eftir í að ég nái takmarkinu mínu hlaupa að 10 km. Ég ætla að vera búin að hlaupa 10 km a.m.k. einu sinni áður en ég fer til Stokkhólms, það er ákveðið búst fyrir egóið að vita að maður geti hlaupið 10 km.

Vildi bara segja ykkur hvað ég er ánægð með mig=)
Anna Dóra "hlaupari"

Sunday, July 30, 2006

Er þetta óheppni eða eitthvað dæmigert?
Fór á tónleikana í gær, þeir voru frábærir eins og ég bjóst við. Var boðin heim til Caroline og Patricks í grill áður og svo þegar við erum að leggja í hann heyrum við í þrumum og það fór að þykkna all verulega upp. Ég með mitt jákvæða hugarfar segi að þetta geri ekkert. Svo komum við á staðinn og alltaf aukast þrumurnar og svo féllu nokkrir dropar en ekkert meir þannig að við frekar ánægð hugsum að við kannski sleppum. Nei svo gott var það ekki haldiði ekki að það hafi gert þetta líka úrhellið, ég sem var að sjálfsögðu ekki með jakka (þau aðeins fyrirsjáanlegri en ég) hljóp í tjald þar sem var verið að selja merkta boli og keypti mér regnjakka svo ég yrði nú ekki alveg holdvot. Jæja skúrinn varð nú ekki langur, hætti um leið og upphitunarhljómsveitin byrjaði og hefur haldið sér frá okkur síðan. Í dag er sól og blíða. Það fyndna við þetta allt saman er að það hefur ekki rignt hér í fleiri fleiri daga, kom einn stuttur skúr aðfaranótt mánudags en annars ekkert í rúman mánuð.
Er maður óheppinn eða?

Thursday, July 27, 2006

Hæ hæ bara mánuður í að snigillinn sýni sína snilldartakta og hlaupi 10 km í Stokkhólmi. Snigillinn er nú ágætlega duglegur að æfa sig fyrir þetta. Hleypur úti 2-3x í viku. Held að hringurinn sem ég hleyp heimanfrá mér þessa dagana sé um 5 km þannig að ef ég get hlaupið hann 2x þá meika ég tjejmilen. Snigillinn kom meira að segja næstum því of seint í vinnuna í gær vegna hlaupanna. Ok svo ég segi ykkur frá því þá átti ég að byrja að vinna 9:45 fór út að hlaupa um morguninn og var komin heim um 9, teygði á og skellti mér í sturtu. Síðan barasta ætlaði ég ekki að hætta að svitna, það er svo heitt úti (samt bara um 23°C þegar ég hljóp í gær, fór uppí 31°C þegar það var heitast) þannig að maður svitnar líka ágætlega eftir hlaupin. Eftir sturtuna bara rann af mér og ég stóð fyrir framan viftuna til að reyna að þorna svo ég kæmist í föt=) Annars er svo heitt að maður svitnar bara við að gera einföldustu hluti eins og að vaska upp eða ryksuga og það er ekki eins og maður sé að reyna á sig.
Hvenær veistu að þú ofnotar loftkælinguna? Jú þú ert með kvef í 30°C
Maður er með loftkælinguna á í bílnum, viftu heima hjá sér, ég hef reyndar sloppið við kvefið en margir í vinnunni eru með ágætiskvef þessa dagana. Ég nota bara viftuna á kvöldin þegar ég er að fara að sofa og þvílíkur munur er farin að sofa heilu næturnar, rétt rumska til að slökkva á viftunni þegar mér finnst farið að kólna of mikið.
Sólarkveðjur frá Karlskrona
Anna Dóra

Tuesday, July 18, 2006

Hæ hæ var að bæta 2 linkum inn hérna við hliðina. Hulda ég vona að það sé ok að ég hafi sett síðuna hans Hákonar inn, annars tek ég það út aftur. Setti líka Jessicu hérna til hliðar þá getiði kíkt ef þið eruð forvitin um hvernig hún hefur það í Ástralíunni.
Keypti mér miða á tónleika í gær, Lars Winnerbäck hann spilar í Ronneby 29.júlí. Fer með Caroline og Patrick, sá hann líka í fyrra þetta verður geggjað. Er að vinna í að auðvelda mér lífið áður en ég fer til Ástralíu, segja upp blaðinu, redda autogiro þar sem það er hægt svo ég þurfi ekki að hafa áhyggjur af reikningunum mínum þar sem ég er í burtu yfir mánaðarmót.

símakveðja
Anna Dóra

Monday, July 17, 2006

Hvað er að frétta af ykkur heima í kuldanum? Ég elska sumarið, hér er búið að vera 25°C+ í 4 vikur þó svo að það sé stundum einum of heitt þá á maður ekki að kvarta þegar sólin skín. Er þvílíkt búin að njóta lífsins, skellt mér á ströndina, legið og notið sólarinnar og kælt mig í sjónum á milli þess sem ég vinn. Skellti mér reyndar til Kalmar með Hrafnhildi síðasta föstudag og við kíktum í IKEA. Ótrúlegt með IKEA að þó svo að maður ætli ekki að versla neitt endar það alltaf með að maður labbar út með fullan poka=)
Ég sagði nú barasta foreldrum mínum að skella sér hingað í sólina til mín, veit ekki hvort þau láti verða af því en maður veit aldrei. Styttist líka í að Helga Dís komi til mín hún kemur 12. ágúst og verður hjá mér í nokkra daga áður en hún fer til Köben að hitta vinkonur sínar.
Best að skella sér út í góða veðrið, er búin að hvíla mig nóg eftir næturvaktina.
Sólarkveðjur
Anna Dóra

Thursday, July 06, 2006

Tónleikarnir voru bara frábærir. Robbie var svo frábær að það var næstum þannig að maður færi að gráta. Þvílíkur skemmtikraftur, gjörsamlega sá besti sem ég hef séð. Þið getið bókað að ég á eftir að fara á aðra tónleika með honum. Robbie greyið var aðeins að pirra sig á loftbelg sem sveif rólega yfir Ullevi að þarna væri fólk sem vildi sleppa við að borga of ef við værum sammála að segja þeim að Fu... off og þarna snéru 60 þús manns sér við og görguðu á loftbelginn að F...... off og hann gerði það=) Mér fannst ég síðan svaka góð systir hringdi í Rúnu þegar hann tók einn Take That smell og hvað gerir hún, kallar mig Tu..... en hugsa svo sem að ég hefði brugðist svipað við. Stemmarinn þegar hann svo söng Angels, ef það hefði verið þak á Ullevi hefði það lyftst. Við skelltum okkur svo í Liseberg áður en við keyrðum heim á mánudeginum, ógissla gaman, geggjaðir rússibanar, gott veður frábær dagur. Hér er þvílíkt gott veður hátt í 30°C dag eftir dag yndislegt alveg hreint.
Jæja ætli það sé ekki best að drífa sig með pakka í póstinn og halda áfram að njóta góða veðursins.
Sólarkveðjur
Anna Dóra