Sunday, August 15, 2004

Tjeisemester....... við ætlum í sumarfrí, ég er búin að ákveða mig, ætla að skella mér með stelpunum í vikuferð í sólina núna í byrjun september, hvert við ætlum er ekki ákveðið, erum að spá í Króatíu en ekkert er ákveðið bara að það sé sól þá erum við ánægðar. Ég á þetta líka skilið, er búin að vinna næstum allt sumarið, ég missi reyndar þrjá daga úr skólanum en vona að Guðrún taki fyrir mig glósur. Við ætlum að fara á morgun eftir vinnu niður í bæ og kíkja á ferðaskrifstofur og sjá hvað er í boði. Þetta verður frábært, ég hef ekki farið áður í svona stelpuferð, þó svo að Spánn '99 hafi verið vinaferð þá var það öðruvísi, núna erum við 5 gellur sem ætlum að leggja land undir fót og njóta þess að vera til.
Annað skemmtilegt sem gerist á morgun eftir vinnu er að mamma, pabbi og Helga Dís koma til mín og verða fram á laugardag, ég er svo sjálfselsk að um leið og ég vissi að þau voru lent í Köben þá vildi ég bara að þau kæmu beint til mín og slepptu því að kíkja á Röggu syss, allt í einu voru þau svo nálægt en samt svo langt í burtu, ég finn alltaf þegar einhver er á leiðinni hversu mikið ég sakna þeirra (sjá allir duldu skilaboðin- ég vil fá ykkur í heimsókn) svona þykir mér ofboðslega vænt um ykkur. Hjálp ég held ég fari að hætta þessarri væmni áður en flóðgáttirnar opnast.
Bið að heilsa í bili
Anna Dóra

Friday, August 13, 2004

Hef verið að velta einu fyrir mér undanfarna daga, hvort þetta sé eitthvað sem er innbyggt í okkur Íslendinga eða hvað. Ef það er gott veður þá fæ ég samviskubit yfir að sitja inni þó svo að ég viti að ég þurfi að vera inni og gera eitthvað, mér finnst bara eins og ég eigi að vera úti í góða veðrinu, sænskar vinkonur mínar virðast ekki eiga við sama vandamál að stríða=)
Ætli þetta sé ekki eitthvað í okkur Íslendingum, ég heyri bara í mömmu minni segja ekki hanga inni í góða veðrinu c",)
Kveðja frá Karlskrona,
Anna Dóra með samviskubit að bíða eftir þvottavélinni í góða veðrinu
P.s Til hamingju með daginn Eiríkur, góða skemmtun í sveitinni
Kræst var næstum búin að gleyma að segja ykkur frá því að ég hélt ég myndi deyja í gærkvöldi og ég er ekki að ýkja. Sá þessa líka flennistóru köngurló sem minnti mig bara á skrímslin í arachnachphobia myndinni (ok smá ýkt kannski en hún var eins og þessar minni sem voru út um allt eins og þessi í poppskálinni), ég er ekki að grínast en ég kaldsvitnaði og gólfið fór á hreyfingu en sem betur fer bjargaði Eiríkur mér þetta var skelfileg lífsreynsla, ég vona að ég sjái svona ekki aftur nema kannski í sjónvarpinu =(

Wednesday, August 11, 2004

Hæ hæ lífið gengur sinn vanagang hér í Karlskrona, stelpurnar úr vinnunni eru að koma til mín á eftir í smá saumó eða að "fika" eins og það kallast hérna og þar sem það er smá íslenskur stíll yfir þessu hjá mér (nema hvað) þá vona ég að þær séu svangar....
Annars er ég að fara í bólusetningu á morgun, datt allt í einu í hug að láta athuga hjá mér mótefnavaka gegn lifrarbólgu B því ég fékk mína bólusetningu '98 og hvað kom í ljós, jú ég hef enga vörn gegn lifrarbólgu B þannig að ég mæli með því að þið sem eruð með "gamla" bólusetningu látið athuga ykkur, þetta er jú ekkert sem maður vill taka sénsinn á.
Jæja þá er að fara og leggja lokahönd á herlegheitin áður en gellurnar láta sjá sig
Bless í bili
Anna Dóra

Sunday, August 08, 2004

Sól sól skín á mig................ það er búið að vera alveg geggjað veður um helgina, sól sól og aftur sól. Keyrði á föstudagsmorguninn niður til Köben að sækja Guðrúnu, Eirík og Guðfinnu Ósk, 27°C og ég sem var bara í stuttbuxum og hlýrabol hélt ég myndi gjörsamlega andast í bílnum og var svo límd við sætin þegar ég kom loks til Köben að það var ógeðslegt... Anyhow við áttum góða 2 daga í Danaveldi, kíktum með Guðfinnu í dýragarðinn, ég veit ekki hvort það var ég eða hún sem skemmti sér betur=) og dóluðum okkur svo á strikinu í gær áður en við lögðum á stað heim. Eins og þið vitið er fullt af götulistafólki og bara almennt skrýtnu fólki á strikinu. Við sáum m.a. það sem spaugstofan kallaði nýaldarfólk, lítill hópur fólks í hálfgerðum munkakuflum, rakað höfuð (sumir skildu eftir nokkur strá í hnakkanum) með munkahljóðfæri, hoppandi, skoppandi og syngjandi hare krishna hare krishna............. sama línan aftur og aftur, líklega leiðigjarnt til lengdar. Maður hefði kannski dottið inn í svona nýaldar fíling ef ekki hefði verið fyrir glæsilegan skóbúnað þeirra, ýmist flottir strigaskór eða glænýir eccosandalar=) passaði ekki alveg við restina af ímyndinni.
Anyhow þá komumst við að lokum heim (augljóslega), sveitt, þreytt en ánægð með lífið. Svo er bara að drífa sig aftur út í sólina og svo ætla ég út að grilla, spila Kubb(einhver sænskur leikur) og jafnvel minigolf í kvöld.
Sólarkveðjur frá Karlskrona
Anna Dóra

Thursday, August 05, 2004

Eins og þið vitið er fullt af rugluðu fólki sem gengur laust......
Ég leit við í sjoppu um daginn til að kaupa frímerki og bað eins og venjulega um frímerki til Evrópu og sjoppukonan lítur grafalvarleg á mig og segir það er ekkert til lengur sem heitir Evrópa, ég sem varð eins og spurningarmerki því eftir því sem ég best vissi var búið að handsama Saddam og ekkert í fréttum um heimsyfirráð Bush ennþá. Nei nú selur pósturinn bara frímerki innanlands eða utanlands og það var það sem konugreyið átti við, engu að síður skemmtilegt orðaval hjá henni.
Kveðja
Anna Dóra, Karlskrona, Svíþjóð, Evrópu

Tuesday, August 03, 2004


Í dag er stór dagur Posted by Hello
2 mikilvægustu mennirnir í mínu lífi eiga afmæli í dag, Pabbi minn og Óskar "bróðir" aldurinn skiptir engu máli. Hafið það sem allra best í dag og ég vona að ég sjái ykkur í kvöld í veislunni hjá Óskari.
Knús. kossar og stór afmæliskveðja
Anna Dóra
P.s. til hamingju með daginn Maggi

Sunday, August 01, 2004


Eins og þið sjáið er mikið um að ske Posted by Hello
Anna Dóra
P.S. Til hamingju með daginn Guðrún

Svona lítur höfnin út meðan að á Sailinu stendur, fullt af skútum og hellingur af lífi, sölubásum, tónleikum og tívolí á hafnarbakkanum. Posted by Hello

Saturday, July 31, 2004

Nú stendur Sailið sem hæst, allt á fullu. Gettu hvað Maggi, ég sá orrustuþotu flugsýninguna í dag sem við heyrðum bara í í fyrra. Frekar magnað hvað þeir geta gert á þessum þotum, mér fannst barasta eins og ég væri að horfa á Tom Cruise í Top Gun eða Charlie Sheen í Hot Shots........ það hefði kannski ekki verið verra ef þetta hefðu verið þeir c",)
Annars er allt gott að frétta, kæfandi hiti núna dag eftir dag en eins og Gloria Gaynor orðaði það svo eftirminnilega I will Survive.
Jæja ætla að skella mér aftur út í sólina
Sólarkveðjur
Anna Dóra

Wednesday, July 28, 2004

Í sól og sumaryl
Já nú hef ég á tilfinningunni að sumarið sé loksins að koma, það er alla vega sól og 25°C og kannski ríflega það í skjóli, og ég í fríi á morgun, erum að spá í að skella okkur á ströndina og fá okkur eins og eina smá dýfu í Eystrasaltið ef veður leyfir, ég ætla alla vega að sjá til hversu langt ég fer en mér heyrðist á Carro að hún verði að dýfa sér almennilega. Sailið byrjar líka á morgun, það er árlegur viðburður hérna, þá flykkist að fólk á seglsútum bæði alls staðar frá Svíþjóð og utan úr heimi og mikið líf á hafnarbakkanum, við  vorum reyndar búnar að lofa okkur í smá partý með kellum úr vinnunni á morgun því þær fara alltaf á hafnarbakkan fyrsta kvöldið og dansa við Black Jack alveg æðislegt dansband (við erum að tala um gömlu dansana eða þaðanaf verra, þetta er eins og í verstu B-myndunum þegar konurnar stilla sér upp og bíða eftir að verða boðið upp) en það verður gaman að fylgjast með þeim höstla einhverja gamla gubba upp á dansgólfið eða ragga eins og það heitir á sænskunni.
Jæja löngu kominn háttatími
Góða nótt, Anna Dóra

Monday, July 26, 2004


Þreytt en mjög ánægð eftir velheppnaða tónleika Posted by Hello
Já þá er velheppnaðri helgarferð lokið og ég komin heim aftur.  Ferðin byrjaði mjög vel á föstudeginum, Linda byrjaði á að sýna fram á hversu mikil ljóska hún er strax í flugrútunni á leiðinni fráArlanda þegar sessunautur hennar, erlendur karlmaður spurði hvaðan hún væri og hún sagðist vera sænsk og from the south, já frá Malmö spurði hann þá, "No the other South" svaraði Linda og ég og Carro grétum í sætinu fyrir aftan þau. Ekki nóg með þetta  því svo þegar við ætlum að taka lestina er ég spurð hvert ég ætli og ég heyrði ekki hvað hann sagði fyrir utan að vita ekki hvað það hét þar sem við vorum að fara þannig að ég lít á Carro til að fá að vita hvert við ætlum nú, jú jú þetta gekk og svo kom greyið Linda síðust og segir bara það sama og er þá spurð komið þið utan af LANDI, ég veit ekki hvað kom upp um okkur en við vorum greinilega dreifbýlistúttur á ferð um höfuðborgina. Tónleikarnir á laugardeginum voru meiriháttar, meira að segja fyrir mig sem er ekki sænsk, þessi hljómsveit Gyllende tider er greinilega fyrir þeim eins og Stuðmenn eru fyrir mig. Þetta voru 25 ára afmælistónleikar og voru hvorki fleiri en færri en 32.700 manns sem voru í Stadion með okkur. Versta var að maður fékk ekki að taka með sér vatnsflöskur inn á svæðið og svo vildi maður ekki vera að flakka og eiga á hættu á að týna stelpunum meðan að á tónleikunum stóð þannig að eftir 4 klst þegar við vorum að niðurlotum komnar af þreytuverk í fótum, og að líða yfir okkur af vökvaskorti en samt ánægðar með tónleikana var ákveðið að kaupa sér að drekka og kaupa miða í sæti á næstu tónleikum sem við förum á hvenær sem það verður. Á sunnudagskvöldinu fórum við svo í Gröna Lund tívolíið og skemmtum okkur stórkostlega vel, skellihlógum í rússíbananaum og vorum við það að pissa niður af hræðslu í draugahúsinu, hugsið einmitt hvað maður er vitlaus, maður borgar fyrir að láta hræða sig.......
Nóg í bili
Anna Dóra

Monday, July 19, 2004

Er ekki tæknin frábær
Fjárfesti fyrir helgina í vefmyndavél og er búin að vera að spjalla við fjölskylduna heima þvílík SNILLD segi ég bara þó svo að ég sé svona langt í burtu er ég samt svo nálægt þeim.
Annars er allt það besta að frétta héðan, er í fríi á morgun og þá er einmitt besta spáin fyrir vikuna heiðskýrt og 25° það er bara að vona að það haldi.
Fer svo með Caroline og Lindu A að hitta Söndru uppí Stokkhólmi um helgina, þar sem við fáum fría gistingu ákváðum við að leggja meira í ferðina og ætlum að fljúga en það var að opna lággjaldaflugfélag sem flýgur héðan upp til Stokkhólms (er reyndar að fara yfirum af stressi sá mynd af rellunni í blaðinu um daginn en það hlýtur að reddast) Við förum á föstudagskvöldi og komum tilbaka á mánudagskvöldi, ætlum á tónleika á laugardeginum og í Gröna Lund tívolíið á sunnudagskvöldinu, þess á milli ætlum við bara að leika okkur og sjá hvað við finnum okkur til skemmtunar.
Bið að heilsa í bili
Anna Dóra

Friday, July 16, 2004

Sumir dagar eru þannig að maður vildi eiginlega hafa sleppt því að fara á fætur. T.d. eins og dagurinn í dag. Við ákváðum semsagt stelpurnar að gera eitthvað annað í dag en að sitja heima og glápa á tærnar á okkur. Við pökkuðum niður  einnota grilli, kjöti og meðlæti og keyrðum út í eyjar. Allt í lagi með það, svo kveikjum við upp í grillinu og pappírinn bara fuðrar upp og ekkert meira gerist nei og meðan við erum að baksa við grillið kemur fullt af fólki og fer að fylgjast með okkur þannig að við bara helltum vatni yfir þetta ónýta grill, hentum því og keyrðum á næsta matsölustað, svo þegar ég átti að borga þá var ég ekki með nógan pening og ekki tóku þeir við korti og ég þurfti að leita uppi vinkonur mínar og fá lánaðan pening. Eins og þetta væri ekki nóg á einum degi, nei svo þegar ég kom heim ákvað ég að fara og kaupa mér vefmyndavél og þurrkgrind og vökva og tæma póstkassann fyrir Guðrúnu í leiðinni og fá lánaðan bíl til að koma græjunum heim, þar sem ég keyri í búðina sé ég að það fer að vanta bensín á bílinn og ákveð því að redda því og vill ekki betur en svo að dælan sem var frekar treg frussar allt í einu út bensíninu þannig að það skvettist á mig, fyrst ég var fyrir utan búðina ákveð ég bara að drífa mig inn og versla  og svo þegar ég stend við kassan (angandi eins og ég væri tilbúin að kveikja í sjálfri mér ef ég fengi ekki það sem ég vildi) spyr afgreiðsludaman "afsakið en finnurðu bensínlykt" ég sem vissi uppá mig skömmina varð nú að játa að bensínlyktin væri af mér, afgreiðsludömunni sem var nú frekar mikið skemmt en um leið létt því nú vissi hún að það var ekkert mikið um að ske og ekki þurfti að rýma búðina brosti bara til mín og rukkaði fyrir það sem ég var að kaupa.
Eins og ég segi sumir dagar eru þannig að maður hefði alveg eins getað sleppt því að fara á fætur.
Ein frekar niðurlægð
Anna Dóra

Wednesday, July 14, 2004

Spáið í því að vera opinber "eign", í dag á Viktoría krónprinsessa afmæli, er 27 ára (þvílíkt góð árgerð c",) og það er haldið upp á afmælið hennar opinberlega með risa tónleikum (sem væri í sjálfu sér ekki leiðinlegt) allt í lagi að halda upp á afmælið svona opinberlega þegar hún er 20, 25 o.s.frv. en á hverju ári hljómar svolítið mikið.
Annars er allt gott að frétta héðan, sólin lætur enn bíða eftir sér en vitur maður sagði að á sunnudag er fullt tungl og þá breytist þetta og viti menn að samkvæmt veðurfréttum kvöldsins þá er spáð batnandi veðri frá og með næsta sunnudegi=)
Bið að heilsa í bili
Anna Dóra

Saturday, July 10, 2004

Skellti mér með Caroline á markað í Ronneby í dag, og við örkuðum um markaðinn og eyddum peningum þrátt fyrir hellidembu sem kom inná milli. Það er einhvern veginn gaman að rölta svona um markaði, það er ákveðin stemmning sem myndast og allir voða glaðir.
Besta fannst okkur eiginlega að labba á milli bása sem seldu stuttermaboli með hinum ýmsu áletrunum, þar gátum við staðið og grenjað úr hlátri. Rákumst m.a. á þessa "Að tala áður en maður hugsar er eins og að skeina sér áður en maður skítur" getið þið ímyndað ykkur að ganga um í svona bol.
Annars er planið bara að taka því rólega um helgina og hlaða batteríin fyrir komandi ferðalög, við erum að spá í að fara upp á Öland í næstu viku og svo ætlum við í helgarferð til Stokkhólms 23-26. júlí.
Munið að hugsa áður en þið talið
Anna Dóra

Thursday, July 08, 2004

Varð óþægilega vör við það í gærkvöldi að ég er að eldast.
Ég kíkti aðeins út á lífið með stelpunum, við vorum að sýna einni sem býr i Stokkhólmi allt lífið sem er hér í Karlskrona en hvað er opið á miðvikudagskvöldum? Við byrjuðum nú bara svona eins og gengur rólega í heimahúsi og síðan var haldið niður í bæ. Flestir staðir voru nú reyndar hálftómir alla vega þeir með dansgólfi. Við leiddumst að lokum inn á stað sem heitir Piraten því þar átti að vera opið frameftir og svo ég vitni nú í vini Oh my God...... þeir sem ekki voru að nálgast tvítugt voru 40+ og það voru kannski 4, mér leið eins og ég væri gamalmenni (kannski ekki nógu drukkin en mér fannst þetta minna mig á diskóin sem ég sótti á Spáni'99 svona eitthvað týpískt til að halda opnu fyrir unga fólkið sem er í sumarfríi) þannig að ég hefði fílað þennan stað í ræmur ef ég hefði verið nokkrum árum yngri og það sem var verst var að þeir spiluðu alveg geggjaða tónlist svona ekta til að dansa við. Þó svo að maður sjái að maður eldist þegar vinir eignast börn,gifta sig, litlu frændsystkin og litla systir séu að fá bílpróf þá er það einhvern veginn eðlilegra en að vera með þeim elstu á skemmtistað það er eitthvað sem ég hef ekki lent í áður og vona að sé langt í að það gerist aftur.
Nei þá segi ég bara Lifi Schlagerbarinn...........
Kveðja
Anna Dóra



Monday, July 05, 2004


Svona á ég erfiða fjölskyldu Posted by Hello

Er hægt að vera kvikindislegri en að senda manneskju sem býr erlendis mynd af íslensku lambakjöti á grillinu =(
Annars er allt gott að frétta, er að skipuleggja ferðalag með stelpunum hvort sem það verður Stokkhólmur, Malmö eða Köben kemur allt í ljós.
Kveðja í bili
Anna Dóra

Sunday, July 04, 2004


Hér er svo eg og Linda A Posted by Hello

Við kíktum aðeins út á lífið í gær, skemmtum okkur að sjálfsögðu mjög vel og fórum hvert annað en á Schlagerbarinn. Ákvað að prófa photobloggið með því að skella inn myndum af okkur frá því í gærkvöldi.
Kveðja
Anna Dóra

Þetta er Caroline vinkona mín nú getið þið tengt andlit við nafnið Posted by Hello

Thursday, July 01, 2004

Smá hugleiðing
Í vinnunni í gær vorum við að flétta gömlu séð og heyrt blaði þar sem sænski kylfingurinn Jesper Parnevik bauð lesendum heim sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að húsið hans er á 3 hæðum og hver hæð 600 m2, bara rúmið hans er 10 m2 og vegna þess hve hann ferðast mikið er lyfta fyrir ferðatöskur úr svefnherberginu niður í anddyrið. Ég fór einmitt að hugsa hvort ég hefði valið mér rangan starfsferil, hefði maður frekar átt að reyna við eitthvað annað, nei ég held ekki ég er svo ánægð með það sem ég hef, himinlifandi á mínum 50m2, finnst gaman að mæta í vinnuna, hvað annað þarf maður. Þessi aumingja maður þarf viku til að ganga um allt húsið sitt og gps-staðsetningartæki til að finna frúna í rúminu.
Hvð finnst ykkur?
Anna Dóra í skrýtnum hugleiðingum


Monday, June 28, 2004

Heyrði einn ansi góðan um helgina sem ég ætla að deila með ykkur.
Tvær vinkonur voru að ganga heim af djamminu og styttu sér leið í gegnum kirkjugarðinn. En svo var eins og oft vill verða að þeim varð ansi brátt í brók og engin leið að bíða þar til heim væri komið þannig að þær ákveða að pissa á bakvið næsta legstein. Þegar þær svo eru að pissa segir önnur: "Við höfum ekkert til að þurrka okkur með" hin sem var frekar frökk sagði "ahh ég þarf ekkert brókina" og með því reif hún sig úr brókinni þurrkaði sér og henti svo brókinni bak við næsta tré. Sú fyrri vildi nú ekki fara úr brókinni og greip því borðann af kransinum á næsta leiði og þurrkaði sér. Svo héldu þær áfram heim. Daginn eftir hittast svo eiginmenn þessarra kvenna áhyggjufullir og annar segir "ég veit nú ekki hvað gekk á þarna í gærkvöldi því konan mín kom brókarlaus heim" þá segir hinn "ert þú með áhyggjur konan mín var að vísu í brókinni en það stóð prentað á botninn á henni TAKK FYRIR ALLT, KVEÐJA STRÁKARNIR Í VINNUNNI"
Vona að hann missi ekki marks svona á netinu.
Annars er planið hjá mér að koma upp myndabloggi, þannig að þið getið fylgst með mér bæði í máli og myndum. Að vísu ekkert komið þarna inn ennþá en þið verðið fyrst til að fá að vita þegar það gerist.
Bið að heilsa í bili
Anna Dóra

Sunday, June 27, 2004

Leiðinlegt að Svíarnir komust ekki áfram, þetta er í fyrsta skipti sem ég hef getað haldið með landsliðinu í svona stórri keppni og eigt smá von um að komast áfram (hvenær hefur það gerst með íslenska landsliðið- ekki illa meint) þannig að nú verður maður að snúa sér að næstu norðulandaþjóð og segja Áfram Danmörk.....
Annars hef ég nú oft sagt ykkur frá því hvað Svíarnir eru fyndnir og ég held að þetta komist ofarlega á listann minn yfir topp tíu. Í síðustu viku var ég semsagt að skrifa undir pappíra í vinnunni þar sem er verið að úthluta mér að ég í vissum tilfellum megi gefa ýmis lyf án þess að læknir hafi gefið fyrirmæli um það, stuða við hjartastopp og taka blóðgös (það er allt skriflegt hérna, sem er bara ágætt) nema hvað svo fæ ég eitt blað einn til að kvitta á og hvað jú ég fékk úthlutun á það að mér sé treyst fyrir því að geta sett armband á sjúklingana með nafninu þeirra og að það sé réttur sjúklingur, ég veit ekki hvort deildarstjórinn hafi heyrt kaldhæðnina þegar ég spurði hvort ég væri að kvitta fyrir því að geta merkt sjúklinga en engu að síður er þetta eitt af því sem þeir treysta mér til að gera. Semsagt Svíar eru fyndnir=)
Kveðja
Anna Dóra full af sænsku trausti
P.s Til hamingju með daginn Mamma

Wednesday, June 23, 2004

Ég er megapæja, fór í dag og keypti mér nýja fartölvu og finnst hún vera huge við hliðina á þessarri litlu og sætu sem ég er með núna. Núna líður að Jónsmessunni eða Midsommar eins og hún kallast hérna og byrja hátíðarhöldin hér á morgun með markaði niðri í bæ og svo verður reist maístöng á laugardaginn og væntanlega dansað og sungið í kringum hana og svo fara allir heim og borða síld og nýjar kartöflur sem eru soðnar með dilli og salti (einhver hérlenskur siður). Ég hef svosem ekki ákveðið hvað ég ætla að gera, vill svo skemmtilega til að ég er í fríi en það er leiðindaspá fyrir helgina eins og mér heyrist reyndar heima líka. Annars finnst Svíunum (sérstaklega karlmönnuum) svolítið skemmtileg íslenska hefðin (þ.e. þessi gamla) að velta sér nakinn upp úr dögginni á Jónsmessunótt, það hljómi skemmtilegra heldur en að syngja og dansa kringum blómum skreytta stöng.
Munið eftir hefðinni
Anna Dóra

Monday, June 21, 2004

Þá er ég komin heim aftur eftir tæplega 3ja vikna dvöl heima á Íslandi, ótrúlegt hvað tíminn var fljótur að líða ég hafði það engu að síður alveg hrikalega gott, það var dekrað svo hrikalega við mig að það liggur við að maður kvíði hversdagsleiknum sem tekur við núna. Mér finnst reyndar svolítið öfugsnúið að segjast hafa verið í sumarfríi á Íslandi þetta á eiginlega að vera á hinn bóginn, venjan er að maður fari frá Íslandi í sumarfríinu sínu. Ég virðist þó hafa sett eitthvað af góðu veðri ofaní ferðatöskuna mína því í dag er búið að vera betra veður en hefur verið í marga daga þannig að núna er bara að krossa fingurna og vona að þetta haldi.
Bið að heilsa í bili
Anna Dóra

Thursday, June 17, 2004

Hæ hó jibbý jei og jibbý jei það er kominn 17. júní.........
Gleðilegan þjóðhátíðardag hvar sem þið eruð stödd
Anna Dóra

Tuesday, June 15, 2004

Halló halló
Var á vafri á vefnum um daginn þegar ég rakst á þennan. Reynið við hann og látið vita hvernig ykkur gekk, það tók mig dágóða stund að komast að lausninni, hversu klár eruð þið.
Reyndu á heilasellurnar
Góða skemmtun
Anna Dóra svaka klára

Sunday, June 13, 2004

Meiri lásí bloggarinn sem ég er, eða kannski bara að njóta þess að vera í sumarfríi? Annars er ég búin að hafa það mjög gott hérna heima, dreg mömmu greyið út að labba og í sund næstum því á hverjum degi þar sem ég er vöknuð eldsnemma því ég á svo erfitt með að sofa í allri þessari birtu. Átti reyndar my moment of glory síðastliðinn miðvikudag þegar það birtist við mig viðtal í kvöldfréttum stöðvar 2 því ég og mín fjölskylda erum ein af fáum sem eiga allt Andrésar Andar safnið á íslensku og þar sem ég er svo heppin að vera skráð fyrir áskriftinni vildu þeir tala við MIG í tilefni þess að Andrés kallin varð sjötugur. Þið sem sáuð okkur systur vitið hvað ég meina og þið hin, sorry þarna misstuð þið af mikilli skemmtun c",)
Ætla að drífa mig í sund, nýta tímann meðan ég hef tækifæri til þess að synda
þar til næst.......
Anna Dóra sund- og göngugarpur

Monday, June 07, 2004

Komin heim aftur, skellti mér með foreldraeiningunni í sumarbústað um helgina, þau svaka sæt að hringja í mig út og spyrja hvort ég vilji koma með þeim í Munaðarnesið eina helgi það séu komnir pottar og læti, ég sem er búin að sjá svona ferðir í hillingum var að sjálfsögðu fljót að þakka gott boð ég kæmi með. Þá kom það... við erum sko að fara að þrífa bústaðina og koma þeim í stand fyrir sumarið.... Þetta var létt verk og löðurmannlegt fyrir mig sem fékk að þrífa en grey pabbi og Maggi fengu að vera úti og tyrfa, ekki alveg jafn létt en löðurmannlegt. Annars var helgin fín, bongóblíða og glæsilegur pottur við bústaðinn, Munaðarnes er greinilega að reyna að koma sér aftur á kortið hjá kröfuhörðum íslenskum sumarbústaðadýrkendum.
Kveðja
Anna Dóra í íslenskum fíling

Friday, June 04, 2004

Hæ hæ ég heiti Phoebe viltu vera VINUR minn?

Find out which Friend you are at www.kidzworld.com!

Thursday, June 03, 2004

Hvaða Harry Potter persóna ert þú? Ég var Hermione Granger, ég veit ég á líka bágt með að trúa þessu.
Endilega prófaðu og láttu mig vita hver þú ert
Kveðja Anna Dóra

Wednesday, June 02, 2004

Þá er ég komin heim sem er alltaf jafn ljúft, meira að segja tekið á móti mér með ágætis veðri hálfskýjað og 13°C. Var einmitt að klára við að sporðrenna steiktum kjötbollum með brúnni sósu ala mamma (svona er sko ekki til í Svíþjóð). Annars gekk ferðin ágætlega þrátt fyrir yfirfulla lest milli Malmö og Kastrup þar sem 3 lestar höfðu verið stöðvaðar í Malmö var fullt af fólki sem var að bíða eftir að komast yfir sundið en það hófst að lokum og ég komst heilu á höldnu heim.
Núna er planið bara að slappa af og njóta þess að vera til í sumarfríi.
Hafið það gott, hvar sem þið eruð.
Anna Dóra

Tuesday, June 01, 2004

Það styttist óðfluga í sumarfríið, fyrstu merki þess voru í dag, síðasti skóladagurinn. Honum lauk reyndar vel og mjög sænskt, við ákváðum semsagt að borða saman í hádeginu og færðum svo kennaranum eina rauða til að þakka fyrir samveruna (er víst mjög oft gert hér, annað er að það er farið að styttast ískyggilega í heimkomuna en ég er farin að hlakka mikið til, lendi á því ástkæra ylhýra eftir rúman sólarhring og hlakka til að hitta alla.
Reykjavik här kommer jag............
Anna-Dora

Saturday, May 29, 2004

Jæja þá er ég komin frá höfuðstaðnum, ferðin hófst eldsnemma á fimmtudagsmorgni og eftir stutt flug og enn styttri lestarferð komum við (ég og Guðrún) á áætlaðan lendingarstað Huddinge. Þegar þangað var komið tók þessi líka svaðalega kú á móti okkur og gaf okkur drykkjarjógúrt sem hún var kynna, ylvolgt úr spenanum, við sem búum í skútubænum Karlskrona áttum nú ekki von á svona móttökum og rákum því upp frekar stór augu þegar við sáum þetta fyrirbæri. Við vorum nú frekar sáttar eftir kynninguna og sáum að við vorum greinilega komin í stórborg, því gjörgæslan sem við skoðuðum (er reyndar nýuppgerð) tekur á móti 16 sjúklingum og hefur hver sjúklingur 25 fermetra til umráða- við vorum frekar impaðar yfir því hversu fínt og flott allt var og erum verulega farnar að íhuga að bæta gjörgæslunáminu við okkar svæfingarnám. Þegar við vorum búnar að fá nóg af Huddinge héldum við yfir til Uppsala og fengum að gista 2 nætur hjá Jóu, Gísla og gaurunum og hér með þakka ég þeim enn og aftur fyrir góðar móttökur. Við erum alla vega búnar að hafa það rosalega gott, verst hvað Guðrún telur mig hafa slæm áhrif á sig því hún hafi verslað svo mikið=( en ég var nú fljót að snúa því við og segja henni að þetta þyrftum við nú bara að gera oftar, yfirgefa skútubæinn og fara í eitthvert stærra þorp og eyða aðeins peningum það væri bara hollt fyrir okkur.
Annars eru bara 4 dagar þar til ég kem heim í sumarfrí
Hlakka til að sjá sem flesta
Anna Dóra

Monday, May 24, 2004

Hæ hæ gleymi aðalfréttunum, Ágústa og Kosta eignuðust strák síðastliðinn föstudag sem heitir Nikulás Árni TIL HAMINGJU. Þetta er gallinn við að búa í útlöndum, maður vill vera alls staðar í einu en átti annars mjög skemmtilegt kvöld með vinkonum mínum, við elduðum saman og horfðum svo á Love Actually klassamynd fyrir klassadömur.
Jæja er að hugsa um að skella mér í háttinn, á að mæta í skólann í fyrramálið, næst síðasti skóladagurinn.
B.B.Í.B. (bless bless í bili)
Anna Dóra

Sunday, May 23, 2004

Þá er maður kominn heim eftir Parísarferðina sem var bara frábær í alla staði. Gott veður, fjölskyldan saman, gæti ekki verið mikið betra. Ótrúlegt en satt var ekkert verslað í þessarri ferð, við nutum þess bara að vera túrhestar og skoðuðum það sem París hafði uppá að bjóða. Ég er meira að segja með strengi í kálfunum eftir að hafa gengið upp í Eiffelturninn í gær en hetjurnar Anna Dóra, Rúna, Maggi og Eiríkur gengu upp fyrstu 2 hæðirnar rúmlega 600 þrep og tóku svo lyftu eins og hinir upp á topp og eins og þið sjáið þá lifði ég þetta af, þó svo að maður sé haldinn svona nettri lofthræðslu þá var þetta algerlega þess virði, þvílíkt útsýni.
Annars var mér frekar brugðið þegar ég kom heim og sá í fréttum að þak í flugstöðvarbyggingu í París hefði hrunið í morgun um sjöleytið, terminal 2E, ég flaug frá terminal 2D kl 7:15 í morgun terminalinum við hliðina á.
Kveðja Anna Dóra sem er örlítið shaky í dag og feeling a little bit lucky c",)

Monday, May 17, 2004

Ég er þokkalega eftirsótt þessa dagana og er frekar leið á þessrri athygli. Ég fer varla út úr húsi án þess að fá nýtt flugnabit, haldiði að það sé munur að vera svona desirable, væri reyndar mun betra ef athyglin kæmi frá einhverjum öðrum ;-) þið vitið hvað ég meina.....
Annars er allt það besta að frétta héðan, skemmti mér hrikalega vel í eurovisionpartýinu (reyndar ekki jafnvel daginn eftir)og sænsku stelpurnar urðu alveg hrikalega skotnar í Jónsa, ég reyndi að kjósa Ísland en náði ekki í gegn =(
Það bara gengur betur næst
Anna Dóra, doppótta c",)

Saturday, May 15, 2004

Til hamingju með daginn Halldór Óskar, tíminn er ekkert smá fljótur að líða og litli púkinn er 2ja ára í dag.
Annars er ég á leiðinni í sænskt schlager EM partý (eurovisionpartý) og til að slá út vinkonu mína sem ætlar að mæta í tre kronor bolnum sínum (sænska hokkílandsliðstreyjan) mæti ég að sjálfsögðu í stuttermabolnum með íslenska skjáldarmerkinu =)
Svo er það stóra spurningin verður það Heaven í kvöld eða does it hurt?
Schlagerkveðjur frá SchlagerSverige
Anna Dóra c",)

Friday, May 14, 2004

Ég á afmæli í dag, ég á afmæli í dag tralalalalalal lalalallaaaa.
Jú ég á eins árs sjálfstæðisbúaeiníútlöndum afmæli í dag. Ótrúlegt að það sé heilt ár liðið frá því að ég kom hingað út, tíminn er ekkert smá fljótur að líða.
Nú styttist í öll ferðalögin mín, bara 5 dagar þar til ég fer til Parísar að hitta fjölskylduna, ég er nú barasta farin að hlakka þokkalega til. Eina sem er ákveðið að eigi að gera í ferðinni er að pabbi ætlar með Halldór Óskar í Eurodisney og við fylgjum sjálfsagt með, annars ef ég þekki okkur rétt verður bara ákveðið hvað á að gera hverju sinni á staðnum, ekkert vera að skipuleggja of mikið.
Þar til næst.....
Anna Dóra

Tuesday, May 11, 2004

Ég hélt ég yrði vitlaus í nótt, mýið er farið að gera vart við sig og farið að bíta. Vaknaði í nótt við það að ég var að klóra mér í höfðinu og viti menn, ég uppgötvaði mýbit ekki eitt heldur 3 stk. Nú verð ég að fara og kaupa flugnanet í gluggana hjá mér, gengur ekki að sofa við opinn glugga lengur. Ætla að deila með ykkur smá vísu sem mér finnst viðeigandi við þetta tækifæri:
He came to me one night...
explored me body.....
licked, sucked, swallowed & had his fill....
satisfied he left....
I was hurt....
F~~~ing mosquito
Anna Dóra, í sárum
P.s. Til hamingju með daginn Ásdís

Sunday, May 09, 2004

Ótrúlegt en satt. Í dag var algert dúndurveður, heiðskýrt og 25°C, það er 10. maí og ég er sólbrennd eftir daginn, þarf greinilega að fara að fjárfesta í sólarvörn =) og ekki nóg með það en þá var ég boðin í grill í kvöld og í eftirrétt var rabbabarapaj með glænýjum rabbabara úr garðinum, can you belief it!! Ég er ekkert smá fegin að þurfa ekki að fara í próf því ef manni fannst alltaf dúndur veður heima í maí meðan maður sat í próflestri þá var maður ekki búinn að reyna þetta.
Sólbrenndar kveðjur
Anna Dóra

Saturday, May 08, 2004

Hæ hæ, sá kynninguna á framlagi Íslendinga til Eurovision í gærkvöldi, er reyndar ekki búin að gera upp við mig hvað mér fannst en finnst þó Jónsi mun betri en mörg lög sem ég hef séð verð ég að segja. Það var búið að safna þarna einhverjum eurovisionspekúlöntum (einn frá hverju norðurlandi, Eiki Hauks þar fremstur í flokki, gæti svo sem verið að þetta hafi verið sýnt heima þar sem þetta var eitthvað samstarfsverkefni sjónvarpsstöðvanna) Any how voru þau frekar hrifin af honum Jónsa okkar (verða ekki allir sem taka þátt í einhverjum keppnum okkar eign? Strákarnir okkar, Birgitta okkar......) Svo er bara að sjá hvernig strákurinn stendur sig á sviðinu í Istanbúl.
Heja Jónsi
Anna Dóra

Wednesday, May 05, 2004

Getur þetta verið betra. Samkvæmt nýjustu fréttum er sumarið komið, sól blíða og hiti millil 15-20°C framyfir helgi. Veit svosem að þetta er ekkert sem þið heima viljið vita en ég verð nú bara að deila þessu með ykkur eins og öllu öðru.
Sólarkveðjur frá Karlskrona
Anna Dóra sólarsystir

Tuesday, May 04, 2004

Þá er allt að skríða saman, ég er búin með eina önn í náminu. Nýbúin að fá tölvupóst um að ég hafi náð fyrri kúrsinum (sem ég vissi svo sem en alltaf gaman að fá staðfestingu á því) og svo fengum við að vita í dag að allt væri frágengið með lífeðlisfræðina og við fáum hana metna, sem betur fer því ég efast um að ég myndi treysta mér í prófið, þar sem kennarinn er svolítið hér og þar, samt aðallega þar.
Þar til næst.....
Anna Dóra =)

Sunday, May 02, 2004

Hrikalega er ég sammála henni Ingu Rós um hvað það virðist alltaf vera gott veður þegar maður er í prófum. Ég þarf nú reyndar ekki að fara í próf en les nú engu að síður fyrir tímana svona aðeins til að undirbúa sjálfa mig og það er svo gott veður að það liggur við að manni langi til að vera 10 ára, áhyggjulaus úti að leika sér.
Annars er allt gott héðan að frétta, Valborgarmessan fór að mestu friðsamlega fram, það var dúndur veður og rosalega notalegt að sitja úti og grilla (AHJ, fréttaritari mbl í Karlskrona). Hélt reyndar að ég yrði ekki eldri nú í vikunni, var úti að labba þegar lítill hópur af litlum hermönnum í grænum frumskógarfelugöllum, málaðir grænir í framan, með alvæpni þrömmuðu framhjá mér í einhverri æfingu. Þeir fóru náttúrulega EKKI framhjá neinum þannig að felubúningurinn virkaði ekki alveg, minnti mig bara á eitthvað boot camp úr amerískri bíómynd en dugði ágætlega sem brandari dagsins.
Kveðjur úr herbænum Karlskrona
Anna Dóra

Friday, April 30, 2004

Vädret idag:
11° 5 m/s
Efterhand ökad molnighet men uppehåll.

05:19 20:36
Í dag er Valborgarmessa og í kvöld munu Svíar safnast saman við brennur, syngja vorsöngva, grilla og fagna komu vorsins. Ætli þetta sé ekki svona svipað og sumardagurinn fyrsti hjá okkur, annars fannst Svíunum frekar fyndið að það væri fyrirfram ákveðið þetta með sumardaginn fyrsta......
Vaknaði upp við áminningu um hvað tíminn er fljótur að líða, í dag er ár síðan ég hætti að vinna á LSH, frekar ótrúlegt mér finnst næstum því eins og þetta hafi verið í gær og ég er næstum búin að vera hér í HEILT ÁR.
Eldheitar kveðjur frá Karlskrona
Anna Dóra
P.s. Til hamingju með afmælið Kalli kóngur, aldrei að vita að maður heyri þegar hleypt verði af 21 byssuskoti þér til heiðurs í hádeginu

Wednesday, April 28, 2004

Halló allir saman, það er aldeilis að ég verð á faraldsfæti núna í maí mánuði, ég byrja á að fara til Parísar með fjölskyldunni 19. maí, svo fer ég og Guðrún 27. maí upp til Huddinge (sem er nálægt Stokkhólmi) að kíkja á aðstæður hjá þeim, maður verður nefnilega að halda öllum möguleikum varðandi atvinnu opnum að námi loknu, í leiðinni ætlum við að kíkja til Jóhönnu og Gísla í Uppsala og hver veit nema við kíkjum aðeins á höfuðstaðinn í leiðinni. Svo er komið að sumarfríinu mínu sem ég eyði nema hvar annars staðar en á því ástkæra ylhýra þannig að ég verð frekar mikið uppi í skýjunum næsta mánuðinn.
Loftbornar kveðjur frá Karlskrona
Anna Dóra

Friday, April 23, 2004

Halló öllsömul og GLEÐILEGT SUMAR, ég held það sé óhætt að segja að ég hafi sofið þennan dag af mér. Ég hafði semsagt unnið næturvakt aðfaranótt fimmtudags og vaknað á hádegi. Svo kom Guðrún og sótti mig og við skelltum okkur í sumarkaffi til Huldu og Hákonar og svo man ég nú bara ekki mikið meira eftir deginum því ég var sofnuð kl 7 á sófanum hjá mér.
Annars er allt gott af mér að frétta, ég og Guðrún erum þvílíkar pæjur farnar að fara út að hlaupa í góða veðrinu og vitiði hvað það var ekki jafn erfitt að koma sér af stað og við héldum, við erum að fylgja hlaupaáætlum sem við fundum á hlaup.is og mælum með henni.
Heilsukveðjur frá Karlskrona

Monday, April 19, 2004

Ég keypti blaðið í dag vegna fréttar á forsíðunni sem sló mig, Kona lamaðist eftir að hafa borðað grillmat. Full forvitni flétti ég uppá fréttinni meðan ég hugsaði með mér hvaða djö... óþverra hefur hún verið að grilla. En viti menn, hún hafði bara grillað venjulegan mat en einhverjar fluguskammir höfðu valtað yfir hann og skilið eftir stykkin sín sem urðu til þess að konugreyið veiktist. Frekar mikið skelfilegt. Ég hef svosem alltaf sagt að flugur séu stórhættulegar og það er þess vegna sem ég forðast þær, hræðsla við þær koma málinu ekkert við c".)
PASSIÐ YKKUR Á FLUGUNUM
Anna Dóra

Saturday, April 17, 2004

Ég kann aldeilis að velja dagana til að vera slöpp, er búin að vera frekar tuskuleg í dag með höfuðverk og magapínu og að sjálfsögðu er dúndur veður. Skellti mér í labbitúr áðan til að reyna að hrista af mér slenið (virkaði ekki) og uppgötvaði að það er sunfewer sem skekur íbúa Karlskrona í dag. Hvert sem var litið mátti sjá fólk í stuttbuxum eða stuttum pilsum, fjölskyldur í hjólaferð saman og ef eitthvað má marka það sem ég sá í innkaupakerrunum þá ætla margir að grilla í kvöld.
Ég ætla hinsvegar að nýta daginn til að læra og sjá hvort ég hressist ekki eitthvað, það er nefnilega ákveðinn kostur að hafa svalir, þá hef ég ekki jafn mikið samviskubit yfir að vera slöpp heima því ég get þá alltaf sest út á svalir með bækurnar.
Sólarkveðjur, Anna Dóra

Thursday, April 15, 2004

Afsakið mig, ég hélt bara að þeir sem þekktu mig væru fljótir að sjá hvaða strumpur ég er. Ég er lítil STRYMPA sem strumpar um allt hér í Strumpalandi. Leigði alveg strumpugóða ræmu í kvöld með vinkonu minni, calander girls, hágæða breskur húmor byggður á sannsögulegum atburðum. Við leigðum reyndar líka símamstvíburamyndina stuck on you sem var ágæt, ég verð þó að viðurkenna að þó svo að við systur séum mjög nánar þá finnst mér samt ágætt að eiga mitt space ef þið skiljið hvað ég meina.
Kærar kveðjur frá Strumpalandi
Strympa

Wednesday, April 14, 2004

Uppgötvaðu þinn innri strump c";)

Find your inner Smurf!

Anna Dóra

Monday, April 12, 2004

Í dag á Helga Dís afmæli, ótrúlegt en satt þá er hún sweet sixteen í dag. Hér er allt við það sama, sól og gott veður og ég kynnti litlu fjölskyldunni fyrir ísbúð bæjarins í gær, sem er alveg hrikaleg, við stóðum í hálftímaröð eftir ísnum, minnir á álfheimaröðina bara ísinn mun betri :-) Auk þess sem við skoðuðum bæinn.
Afmæliskveðjur frá Karlskrona
Anna Dóra og Co

Sunday, April 11, 2004

Gleðilega páska allir saman.
Hér er sól og heiðskýrt og dúndur veður, enda höfum við verið úti meirihluta dagsins. Það verður reyndar ekkert páskalamb hér á bæ heldur páskadádýr !!!
Gular og glaðar páskakveðjur frá Karlskrona
Anna Dóra og Co

Saturday, April 10, 2004

Þá eru Rúna og fjölskylda mætt á svæðið. Við höfum aðeins verið að taka púlsinn á vinum og ættingjum hér í kring og komum svo til Karlskrona í gærdag. Það er sól og blíða og Halldór Óskar er hæstánægður með að fá að vera úti að leika sér og hefur varla tíma til að leggja sig. Annars líst þeim bara vel á staðinn og ekki verra að sólin skíni.
Biðjum að heilsa í bili
Anna og Co

Tuesday, April 06, 2004

Nú styttist í það að Rúna og fjölskylda komi, bara nokkarar klukkustundir í þau. Ótrúlegt hvað allt virðist gerast í einu. T.d. keypti madam Anna Dóra Le Jónasdóttir sér ferð til Parísar í gær og ætlar að fara og hitta stórfjölskylduna sem einnig er búin að fjárfesta í slíkri ferð í boði flugleiða. Helgina áður verður Rúna kannski í Helsingör að keppa á handboltamóti með löggunni og þá er náttúrulega skylda mín sem systir og nágranni að fara og styðja við bakið á þeim. Annars er allt gott að frétta, fer inn til Köben í fyrramálið að taka á móti Rúnu og þar er planið að fara í dýragarðinn og kíkja svo á Guggu og fjölskyldu áður en við höldum yfir til Svíaríkis á ný þar sem stefnan verður tekin til Röggu frænku og nýja húsið tekið út áður en við höldum svo áfram til Karlskrona og slöppum af yfir páskana.
Anna Dóra

Monday, April 05, 2004

Verð að segja ykkur aðeins frá djamminu. Var semsagt í 80's partýi á laugardag og það var ákveðið að við færum svo allar eins og við komum á schalgerbarinn, þegar á hólminn var komið vorum við svo bara tvær sem þorðum því. Við fengum nú ekki jafn mikla athygli og við bjuggumst við þó svo að við höfum vakið mikla athygli. Annars eru þessar sænsku vinkonur mínar svo íhaldssamar að þær þora varla að hreyfa sig á dansgólfinu og fara allar í kæfu og byrja bara að hlæja ef maður ætlar að vera frumlegur og vera öðruvísi en hinir.
Kveðja frá Snapphaneväg sem er skriðinn aftur inn á 21. öldina

Saturday, April 03, 2004

Hæ hæ nú er það áttundi áratugurinn sem er inni. Er að fara í 80's partý í kvöld og keypti í gær svona smá aukahluti til að skreyta mig með, æðislegt netahárband, þykka hringi í eyrun og svitabönd á úlnliðina allt blátt og ég held ég verði langflottust í kvöld (thí hí) c",)
Annars er allt það besta að frétta héðan, ég fékk lífeðlisfræðina metna þannig að núna er ég hálfnuð með námið Jibbý jei ætla samt að sitja í tímunum bæði vegna þess að mér finnst þetta svo gaman og svo er alltaf gott að rifja upp svona nauðsynlega hluti.
Final countdown frá Karlskrona
Anna Dóra

Wednesday, March 31, 2004

Verð að segja ykkur hvað við fengum frábæra landkynningu í kvöld. Ég var semsagt að horfa á hið sænska innlit-útlit þar sem smiður, málari og designer fara heim til fólks og endurinnrétta herbergi. Í kvöld voru þeir á Íslandi og endurgerðu stofu fyrir íslenskar stelpur, létu m.a. sauma saman 4 hreindýraskinn og gerðu gólfmottu og skrúfuðu hreindýrshorn á loftljós, þetta kom svo sem ágætlega út en það var ekki aðalmálið. Þeir heimsóttu þekkta íslenska staði eins og bláa lónið, gullfoss og geysi fengu frábært veður, fóru í réttir og margt fleira. Það besta var samt lúxushestaferðin sem þeir fóru í, þeir voru klæddir eins og víkingar og riðu um í íslensku landslagi og fóru svo á spretti niður hlíð gargandi "tungur knívur" eina setningin sem flestir svíar kunna þar sem þeir hafa séð Hrafninn flýgur. Ég hélt ég yrði ekki eldri ég hló svo mikið. Að sjálfsögðu buðu svo stelpurnar þeim á djammið og drógu þá á Sálarball á Nasa, ég verð nú að viðurkenna að ég fékk smá svona heimþrárfiðring sem var reyndar fljótur að hverfa þegar ég hugsaði um snjóinn sem er þar núna meðan ég hef verið að njóta sólarinnar.
Sólarkveðjur frá Karlskrona, sem veit aðeins meira um Ísland
Anna Dóra

Tuesday, March 30, 2004

Byrjaði í nýjum kúrs í morgun, nú er maður komin á fullt í lífeðlisfræðina, gaman að vera að læra eitthvað áþreifanlegt aftur ekki endalausar háfleygar heimspekilegar hugsanir um vårdande miljö (kann bara ekki að þýða þetta) og aðferðafræði. Er mjög ánægð með kennarann sem greinilega virðist vita hvernig hann á að koma efninu frá sér á skemmtilegan og skilningsríkan hátt (geri aðrir betur). Ég ætla nú samt að reyna að fá metna lífefðlisfræðina að heiman og fá að sleppa við prófið, ætla nú samt að mæta í tímana þeir eru nú bara einu sinni í viku þannig að það verður bara skemmtilegt.
Anna Dóra c".)

Monday, March 29, 2004

Nú er vorið komið opinberlega, aðfaranótt sunnudags var skipt yfir á sumartíma þannig að núna er ég tveim tímum á undan ykkur. Annars finnst mér nú ekkert hrikalega vorlegt eins og er, skýjað og frekar grátt en samt betra en snjórinn heima. Nú styttist í að Rúna og fjölskylda komi í heimsókn, þau ætla að vera hjá mér yfir páskana og ég er farin að hlakka mikið til. Aldrei að vita hvað gæti leynst í pokahorni hjá þeim, og hver veit nema páskahérinn heimsæki okkur.
Bið að heilsa
Anna Dóra

Friday, March 26, 2004

Jæja, það hafðist og ég er á lífi til að segja frá því. Það var mjög gaman í gær, ferðin tafðist reyndar um 2 klst þannig að ég var ekki komin heim fyrr en um 01:00, búin að vera vakandi í næstum sólarhring og rútan farin að minna meir á hóp af uppvakningum heldur en fólk. Annars var nú bara hlægilegt verðið á áfengi þarna niðurfrá, við getum sagt að það sé langt þar til við verðum edrú hér á Snapphaneväg. Við verðum þó ekki jafn slæm og alkatrashið sem var í sömu rútu og við, þau byrjuðu að drekka whisky um 06:00, drukku stíft allan daginn (held þau hafi ekki verið með í glasi akkúrat meðan þau versluðu) og voru ennþá uppistandandi og drekkandi þegar þau yfirgáfu okkur um miðnættið.
SKÁL
Anna Dóra

Wednesday, March 24, 2004

Ég er að fara í ferðalag í nótt, er semsagt að fara í "verslunarferð" til Rostock í þýskalandi með vinnufélögum mínum og við leggjum af stað kl 04:00 og komum til baka einhvern tíma fyrir miðnætti. Þetta verður svaðalega gaman. Ég fór einmitt í banka í dag til að taka út evrur, byrjaði á að fara í hraðbankann og taka út pening og svo þegar ég kem til gjaldkerans byrjar hún á að spyrja hvort ég sé búin að panta pening, ég sem kom af fjöllum neitaði því en þegar ég sagði hvaða gjaldmiðil mig vantaði þá var hún nú viss um að eiga hann til. Ég rétti henni því peninginn og þá segist hún ekki taka við honum, hún dragi þetta beint útaf reikningnum hjá mér, ég hef nú sjaldan orðið jafn forviða en fékk engu að síður evrur og ætla að skemmta mér konunglega á morgun.
Auf wiedersehen
Anna Dóra

Monday, March 22, 2004

Þá er ég búin að kynna verkefnið mitt og fékk eiginlega bara jákvæða gagnrýni, þannig að núna næstu daga fer ég yfir verkefnið og breyti aðeins og bæti það áður en ég skila því endanlega, samt er mín tilfinning sú að allir fái staðið fyrir verkefnið sitt- sem er bara besta mál-
Er að fara á eftir að "fika" með stelpum úr vinnunni sem er eitt mjög sænskt hugtak, að "fika" er semsagt notað t.d. þegar maður hittist yfir kaffi, held ég eins og við lítum á okkar saumó, en mér finnst það eiginlega heilagt hugtak í vinnunni að fara og "fika" sérstaklega á morgnana þegar allir verða að fá morgunkaffið sitt.
Með "FIKA" kveðju, Anna Dóra

Sunday, March 21, 2004

Jæja þá er það komið í ljós hver mun verða fulltrúi Svía í Istanbúl, ég hélt nú reyndar ekki með sigurvegaranum og fannst eiginlega ótrúlegt að Svíarnir skildu velja atriði sem var hálfgerður súludans C",) Mér fannst nú Dolche vita ansi flottir en það voru klæðskiptingar sem sungu ansi hresst og skemmtilegt lag og voru langflottastir á sviðinu en það hefur kannski farið fyrir brjóstið á mörgum svíanum. Hvað um það þá er þetta ansi hresst lag, þið getið hlustað eða downloadað því af www.telia.se og dæmt sjálf.
Höldum okkur í schlagergírnum- det är så ont......
Anna Dóra

Saturday, March 20, 2004

Í kvöld er komið að því, lokabaráttan um hver fái að stíga á svið fyrir hönd Svía í Istanbúl í maí. Sorglegt að það er ekki lengur svona forkeppni fyrir eurovision á Íslandi, bara ákveðið hver á að fara og hvað hann á að syngja!!Ég spái pottþéttu kvöldi framundan, búið að bjóða mér í fyrsta grill ársins (get ekki beðið, sérstaklega þar sem ég má ekki grilla á eigin svölum), og svo verður fylgst með keppninni, smá æfing fyrir Eurovision. Las annars á mbl að íslenska lagið verði kynnt í kvöld, það er bara að vona að Jónsi standi sig.
Schlagerkveðjur frá SchlagerSverige
Anna Dóra

Friday, March 19, 2004

Adam var ekki lengi í paradís. Eftir einstaklega gott veður undanfarna daga ákváðu veðurguðirnir að nú þyrfti að vökva aðeins gróðurinn svo hann spretti betur. Alveg var þetta dæmigert þar sem við stelpurnar erum allar í fríi í dag og vorum búnar að plana að fara út og njóta góða veðursins, jafnvel að grilla pylsur og fagna vorinu, það verður bara að bíða betri tíma.
Hvað haldiði annars að þeim á leigumiðluninni hafi dottið í hug að gera í dag, á föstudagsmorgni kl 07:00 jú að senda menn til að hreinsa vifturnar í öllum íbúðunum, þetta hefði nú ekki gerst ef ég hefði verið við stjórnvölinn, nei ég hefði látið þá annaðhvort koma einhvern annan dag eða a.m.k byrja seinna.
Kveðja úr hreinu íbúðinni í Karlskrona
Anna Dóra

Tuesday, March 16, 2004

Nú er að byrja að vora fyrir alvöru, samkvæmt veðurfregnum á hitastigið að fara að aukast um allt land- gott mál- brumin reyndar byrjuð að springa út fyrir löngu. Ég er eins og hinir Svíarnir aðeins farin að huga að vorverkunum, mín vorverk liggja reyndar ekki í því að róta í mold og gera garðinn fínan fyrir vorið eins og flestra, ég er búin að taka út hjólið mitt og láta pumpa í dekkin og farin að viðra það. Þvílíkur munur, kemst núna mun hraðar yfir og fer mun lengra en ég myndi gera fótgangandi.
Bestu kveðjur á fullum farti úr vorinu
Anna Dóra

Saturday, March 13, 2004

Verð að segja ykkur frá einu ansi góðu sem ég sá í dag. Ég skrapp út í búð að versla hjá allaballa félaga mínum (sú búð sem er næst mér er rekin af útlendingum og þar má fá ýmsar vörur sem ég hef ekki hugmynd um hvað er þar sem textinn er á arabísku) alla vega rekst ég á uppstillingu af niðursoðinn mat sem hét DROGAR KVALITETS KJÖTT þar sem drog er eiturlyf á sænsku sá ég fyrir mér auglýsingu niðursoðið gæða dóp:-S sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur, enda veit ég ekki hvað starfsfólkið hélt þegar það sá mig gangandi um búðina með þetta líka sólheimaglottið.
DROGAR FRÍAR KVEÐJUR FRÁ KARLSKRONA
Anna Dóra

Friday, March 12, 2004

Ég er búin að sjá það að ef allt annað bregst, get ég alltaf farið út í bisness hérna og selt lakkrís. Ég hef stundum farið með íslenskan lakkrís í vinnuna þegar ég hef átt svoleiðis góðgæti og samstarfsfólk mitt er alveg vitlaust í lakkrísinn, þau höfðu til dæmis aldrei smakkað áður lakkrís og súkkulaði í sama bitanum og fannst það góð blanda. Ég hef fengið pantanir og er oft spurð hvenær ég fari næst til Íslands því þau myndu nú gjarnan vilja smá þrist eða annað álíka góðgæti.
Með sælgætiskveðju
Anna Dóra :-P

Tuesday, March 09, 2004

Það voru að koma Suður-afríkanskir hjúkrunarfræðingar í skólann sem eru eins og ég í framhaldsnámi og ég og Guðrún ákváðum að verða við bón kennarans um að verða stuðningsaðilar fyrir einhvern þeirra. Við fengum reyndar 2 nema, strák og stelpu. Ég er viss um að þetta geti orðið mjög fróðlegt og skemmtilegt þar sem við komum frá svo rosalega ólíkum menningarheimum, ég man nú ekki hvaða þjóðbálki hann tilheyrir en hún er Zulu kona, og það fyrsta sem mér datt í hug var Chaka Zulu þættirnir sem ég sá á stöð 2 einhvern tíma í den og man að það var mikið gert úr þessum stríðshetjum. Ég er þó viss um að hlutirnir hafi breyst mikið en þetta verður fróðlegt og skemmtilegt
Bið að heilsa í bili, Anna Dóra

Sunday, March 07, 2004

Ég get svarið það, ég er farin að halda að maðurinn á neðri hæðinni sé annaðhvort helgarpabbi eða að kærastan hans og hundurinn komi í heimsókn á hverjum föstudegi. Ég get næstum stillt klukku eftir því að um sjöleytið á föstudögum byrjar hundurinn að gelta og geltir frameftir kvöldi, síðan heyrist ekki meir í hundspottinu alla vikuna :-S
Annars vona ég að veðurguðirnir verði góðir við ykkur þessa vikuna, Caroline vinkona mín er stödd á Íslandi og verður út vikuna og er eins og sannur túrhestur búin að plana ýmsar ferðir innanlands sem eru náttúrulega skemmtilegri ef maður þarf ekki að berjast við suðaustan 10 m/sek og rigningu c",)
Bið að heilsa úr vor"blíðunni" héðan í Karlskrona
Anna Dóra

Friday, March 05, 2004

Það er ekki annað hægt að segja um Svíana en að þeir séu fyndnir. Mottóið er greinilega að styðja sænskan iðnað sem er náttúrulega bara gott mál, ekki mikið af innfluttum vörum í búðahillunum- sérstaklega ekki frá USA þannig ýmsar vörur sem maður þekkir að heiman eru ófánalegar hérna. Svo eru þeir alveg jafn sjálfsmiðaðir þegar kemur að sjónvarpsefni, það verður eitthvað vinsælt úti í heimi þá gera þeir sína eigin sænsku útgáfu. Get bara nefnt dæmi eins og Bachelor, Survivor (Robinsson á sænsku) og svo nú það nýasta, Queer Eye þættirnir um hina frábæru 5 amerísku homma var frumsýndur með sænskum strákum í gær. Þeim tekst svosem ágætlega upp og þetta er kannski hægt þar sem þjóðfélaðið er örlítið stærra en á Íslandi en fyndið engu að síður.
Kveðja frá raunveruleikasjónvarpinu í Svíþjóð
Anna Dóra

Tuesday, March 02, 2004

Garg, á ég að sjá eftir því að hafa valið að taka sumarfrí um leið og skólinn klárar í byrjun júní? Eftir að hafa velt því fyrir mér fram og tilbaka hvenær ég ætti að taka sumarfrí, eftir að skólinn er búinn eða áður en skólinn byrjar ákvað ég loksins að taka sumarfríið í júní- koma heim og spilla nýasta barninu sem verður komið í heiminn- Ágústa mín þið vitið varla hverju þið eigið von á- allavega eftir að þetta er allt komið í gegn, fæ ég tilkynningu á netinu að fyrrum bítillinn PAUL ætli að vera með tónleika í Gautaborg 12. júní, ég held að það væri svona líka þokkalega gaman að fara á tónleikana, Óskar veit alveg hvað ég er að tala um. En þar sem maður getur víst ekki klónað sig og allir búnir að sjá í gegnum mig og Rúnu þá verður Paul víst að bíða eftir öðru tækifæri til að fá að hitta mig c",)
Bítlakveðjur frá Karlskrona

Sunday, February 29, 2004

Hvað er annað hægt að segja en frábært djamm í gær, held reyndar að Magga greyinu hafi ekki fundist jafn gaman og mér þar sem hann skildi ekki jafn mikla útlensku og ég hélt. Við vorum reyndar að hafa áhyggjur af því að við værum að gera útaf við svíana, buðum fyrst upp á bláan ópal með klóróformi og síðan vodkajellos sem fór reyndar betur í mannskapinn enda var flotið héðan út í bókstaflegri merkingu c") Reyndar var mun skemmtilegra í partýinu heldur en í bænum, hér voru teknir ýmsir slagarar bæði á íslensku og sænsku og fólk hóf sig til flugs í fugladansinum.
Bið að heilsa, Anna Dóra- ekki þunna :-D

Saturday, February 28, 2004

Nú er Maggi kominn, við tókum því reyndar rólega í gærkvöldi systkinin, fórum út að borða og svo var slakað á frameftir kvöldi. Í dag er svo aðaldagurinn, við fórum og versluðum aðeins og svo verður djammað í kvöld, ég ætla að vera með innflutningspartý í kvöld og búin að bjóða slatta af fólki, setti reyndar upp auglýsingu í vinnunni sem var með ómeðvitaðri stafsetningarvillu skrifaði óvart "inflytningsfest" í staðinn fyrir inflyttningsfest þannig að fólk heldur að það sé að koma í einhvert fljótandi partý, vona reyndar að það hafi ekki hrætt neinn þar sem allir vita að næturlífið á Íslandi er frekar villt og halda kannski að ég ætli að endurskapa það hér og fólk eigi eftir að fljóta niður í bæ, segi ykkur svo betur frá því á morgun.
Skál, Anna Dóra

Tuesday, February 24, 2004

Hvað er eiginlega um að ske, ég sem hélt að vorið væri að koma, búið að vera svo fallegt vorveður undanfarna daga, sólskin og brumin farin að gægjast út eftir veturinn. Núna er kalt, svolítill vindur og byrjað að snjóa- bara eins og ég sé komin heim. Annars var svo rólegt í verknáminu í dag, engir sjúklingar á kvennadeildinni þar sem læknarnir eru að læra á tölvukerfi fyrir sjúkraskráningu. Ég var því sett í það að taka á móti sjúklingum sem voru að koma í aðgerðir en þeir voru svo fáir að ég vissi varla hvað ég átti að gera af mér. Íhugaði reyndar í einum geispanum hvort ég ætti að geispa mig úr kjálkalið og reyna að skapa eitthvað að gera fyrir starfsfélaga mína og sjá þá í leiðinni svæfinguna frá sjónarhóli sjúklingsins- alltaf að hugsa um verkefnið mitt- en lét það vera og fékk í staðinn að fara heim á hádegi til að fara að læra sem var að sjálfsögðu vel þegið. Jæja best að snúa sér aftur að lærdómnum, kveðja Anna Dóra

Monday, February 23, 2004

Hvernig finnst ykkur ég taka mig út svona í action? Svolítið mislit af stressi!!! Svona hafa síðustu dagar litið út hjá mér, alltaf með fingurna í kokinu á einhverjum c¨) Annars fer að líða að lokum verknámsins, bara 2 dagar eftir og þá tekur stífur bókalestur,ritgerðastúss og stress við. Fékk reyndar að vita í dag að það yrði auðvelt að fá vinnu eftir útskrift þar sem við erum svo fáar í náminu núna þannig að maður kemst strax að til að viðhalda því sem maður hefur lært.
Bið að heilsa í bili, er að hugsa um að kíkja aðeins í lærubækur
Anna Dóra
P.s. Vona að myndin hafi ekki hrætt neinn annan en Magga

Saturday, February 21, 2004

My inner child is ten years old today

My inner child is ten years old!


The adult world is pretty irrelevant to me. Whether
I'm off on my bicycle (or pony) exploring, lost
in a good book, or giggling with my best
friend, I live in a world apart, one full of
adventure and wonder and other stuff adults
don't understand.


How Old is Your Inner Child?
brought to you by Quizilla

Wednesday, February 18, 2004

Stúlkur stúlkur ekki misskilja mig, auðvitað er gaman að fá hrós, og ekki verra að það sé frá karlmanni, stundum fær maður bara of mikið af því góða og verður þreyttur á því. Rúna mín, hann er með hring. Annars er ég að fíla þetta í ræmur, ég sem er svo viðkvæm fyrir öllu sullumbulli treð slöngum ofaní hálsinn á fólki eins og ekkert sé og hef gaman af- ég held ég sé ekki alveg heil. Jæja, ætla að fara og horfa á Philadelfia, eina af uppáhaldsmyndunum mínum, ég græt alltaf jafn mikið í lokin sniff sniff, Anna Dóra

Tuesday, February 17, 2004

Hvað er þetta með karlmenn sem finnst þeim alltaf þurfa að vera hrósa konum. Í verknáminu þessa viku hef ég verið að fylgja meðal annars einum strák sem er alltaf að segja, þetta gengur rosalega vel, það fer þér vel að sitja þarna og passa sjúklinginn, bara eins og þú hafir aldrei gert annað. Garg hvað ég get orðið pirruð á svona fólki. Annars er búið að vera rosalega gaman, það var verið að kenna mér að halda maska/grímu þannig að svæfingargösin færu nú bara ofaní sjúklinginn en ekki í okkur hin á stofunni (haldiði að það væri bærilegt með okkur öll sofandi þarna inni) þetta er frekar þétt sem maður þarf að halda og ef maður er óvanur eins og ég þá uppgötvar maður ýmsa vöðva í lófanum og puttunum sem maður hefur ekki notað svo mikið áður, ég var komin með hálfgerðan krampa í fingurna eftir 30-40 mín svæfingu. Annars er allt gott að frétta, styttist í að Maggi komi í heimsókn en við ætlum að sýna svíunum hvernig maður fer að því að djamma á Íslandi. Bless í bili

Sunday, February 15, 2004

Langar að deila með ykkur ansi góðum brandara sem ég heyrði um daginn. Þannig var að sænskur læknir sem var komin á eftirlaun ákvað að láta loksins verða af því að fara til Íslands, hann hafði kynnst mörgum Íslendingum sem allir höfðu lofsamað landið sitt. Hann fer þarna rúnt um landið og er staddur í sjoppu á Akureyri þegar hann sér mann sem hann kannast við. Svíinn tekur sig því til og gengur upp að manninum og spyr hvort hann sé læknir, já segir maðurinn, og hefurðu verið í Svíþjóð, já segir maðurinn og þannig komast þeir að því að þeir unnu saman fyrir löngu síðan í smástað í Svíþjóð. Svona gengur þetta alla ferðina, Svíinn er alltaf að rekast á fólk sem hann kannast við og svo kemur í ljós að hann hefur kynnst flestum í gegnum starf sitt. Hann er því að skilja ansi ánægður með ferðina og þegar hann er að tékka út af hótelinu fyrir brottför sér hann mann sem hann veit að hann hefur séð áður og þar sem honum hafði ekki skjátlast alla ferðina gengur hann upp að manninum og spyr, hefurðu verið eitthvað í Svíþjóð, já sagði maðurinn, hef svosem komið þar við, ertu kannski læknir? nei reyndar ekki og svona heldur þetta áfram Svíinn spyr og spyr en fær engan botn í hvaðan hann þekki manninn og spyr því að lokum af hverju hann kannist svona við hann? Well my name is Ólafur and I'm the president of Iceland segir hinn þá og bendir á stærðarinnar mynd af sjálfum sér sem hangir í andyri hótelsins :-)
Vona að þið hafið líka húmor fyrir þessu
Anna Dóra

Wednesday, February 11, 2004

Þá er ég búin að skila af mér fyrsta helmingnum í fyrstu ritgerðinni minni á sænsku. Við Íslendingar erum ekki þeir einu sem eigum skemmtileg orð yfir hlutina. Í gær í verknáminu var ég spurð hvort ég væri VUB, ég sem vissi ekki hvort væri verið að gera grín að mér, uppnefna mig eða eitthvað þaðan af verra bað viðkomandi vinsamlegast að sleppa sænsku frösunum þar sem ég hefði ekki hugmynd um hvað hann væri að segja. Síðar fékk ég útskýringu á þessu VUB er skammstöfun fyrir vidare utbildning- framhaldsnám- hann var sem sagt að spyrja hvort ég væri í framhaldsnáminu!!!!! Af hverju getur fólk ekki bara talað skýra og greinagóða íslensku:-) Þetta kemur allt með kalda vatninu, enda hef ég lært alveg helling af nýjum orðum og hugtökum síðan ég byrjaði í skólanum.
Bið að heilsa í bili
Anna Dóra

Monday, February 09, 2004

Í dag byrjaði ég í verknámi á svæfingunni, ég verð næstu 3 vikurnar að fylgjast með svæfingum á kvennadeildinni og er bara þokkalega bjartsýn á að þetta verði mjög skemmtilegt, það er alla vega margt að sjá og læra og ég var algerlega tóm í kollinum þegar ég loksins staulaðist heim í dag. Fékk reyndar hálfgert áfall þegar ég fór að klæða mig, fötin eru í búningsherberginu og ekki til í öllum stærðum þannig að mér fannst ég líta hálfskringilega út í dag. Annars er ég búin að ákveða að spara hárvaxið mitt og nota það við betri tækifæri heldur en þarna, þið getið rétt ímyndað ykkur hvað maður er niðurklesstur og smart eftir að hafa verið með húfu í 8 tíma ég held bara að ég myndi falla kyllifllöt fyrir sjálfri mér:-)
Góða nótt- Anna Dóra

Friday, February 06, 2004

Ég er búin að komast að því að ég er ekki þolinmóðasta manneskja í heimi þegar það kemur að því að bíða. Ég fór í gær og keypti skrifborð og hillusamstæðu sem ég fæ sent heim í dag einhvern tíma milli 15-19. Ætli óþolinmæðin stafi ekki af því hvað ég hlakka til að leggja lokahönd við að innrétta íbúðina mína. Núna vantar mig bara myndir á veggina en áður en ég veit af verður fara veggirnir að hrynja undan myndum. Annars veit ég ekki hvað nágrannarnir halda um mig, alltaf að fá húsgögn og setja þau saman á föstudagskvöldum- þeir fara að halda að ég eigi ekkert líf :-)
Þá er bara að halda áfram að bíða og bíða og bíða
Bið að heilsa í bili, Anna Dóra

Wednesday, February 04, 2004

HJÁLP!!!
Ég er að breytast í það sem ég þoli ekki, íslending sem slettir á útlensku í samtölum á íslensku og þá á ég ekki við slangur- ég hef orðið frekar mikið vör við þessar breytingar eftir að ég byrjaði í skólanum og hef byrjað að hafa mun meiri samskipti við svía fyrir utan vinnuna. Mér finnst þetta hræðilegt ég er farin að svara presis í staðinn fyrir einmitt og ýmislegt svona smálegt sem stendur til að breyta til baka. Þetta er það síðasta sem ég hefði átt von á, miðað við hvað ég er á móti svona löguðu en maður veit greinilega aldrei.
hej so länge, Anna Dóra

Tuesday, February 03, 2004

Hver lak þessum fréttum að ég væri gengin út!!!
Ég auglýsi hér með eftir þessum manni því einhver virðist vita meira en ég:-)
Annars er ég á fullu í skólanum, hrikalega skemmtilegt, mér finnst mér eiginlega komin aftur í lokaverkefnið mitt- Ásdís og María ég þarf á ykkur að halda núna:-)
Þá er að halda áfram að læra
kram
Anna Dóra

Sunday, February 01, 2004

Svíar eru fyndnir, ég kíkti semsagt út á lífið í gærkvöldi og fór á aðalskemmtistaðinn hér í bænum sem heitir Schlagerbaren eða slagarabarinn á því ástkæra ylhýra. Það voru tvö dansgólf, á öðru var spiluð svona venjuleg danstónlist og á hinu voru spilaðir sænskir slagarar, þið getið rétt ímyndað ykkur hvar ég hélt mig :-) Annars var þetta rosalega gaman og stelpurnar eru búnar að setja upp djammprógramm fram á vor, m.a. eightíspartý og ég fann búð niðri í bæ sem selur bara hræðileg eightísföt sem er hrikalega inn núna, það má allt koma aftur frá þessu tímabili bara ekki fötin, mætti meira að segja stelpu um daginn sem var með röndóttar legghlífar-garg... muniði eftir þessu? Spáið í þetta- kveðja Anna Dóra

Friday, January 30, 2004

Gleymdi bara að segja að myndin hér fyrir neðan er lýsandi fyrir hvernig allt lítur út hérna í Karlskrona þessa dagana. Verð líka að segja ykkur frá því að ég ætla að kíkja út á lífið með stelpum úr vinnunni á morgun og mér finnst þær svo fyndnar af því að þær halda að ég sé stöðugt að leita að karlmanni (sem ég er nú ekki) því eins og hver heilbrigð sjáandi kona finnst mér gaman að sjá fallega karlmenn. Við vorum semsagt á útsölurölti í gær og þær bentu mér á hvern dátahópinn á fætur öðrum allt útaf smá misskilningi. Ekki alveg eðlilegir á köflum þessir svíar.
heyrumst síðar, Anna Dóra
Það er fullkomið vetrarveður úti, hitinn við frostmark, logn og sól, gæti það verið betra á þessum árstíma? Ég held ekki. Ég er viss um að ef ég ætti skauta (og þyrfti ekki að vera að læra) þá væri ég úti á skautum núna. Öll vötn hér í kringum mig eru frosin og það er fullkomið skautaveður, það er reyndar frekar þykkt snjólag yfir öllu og fólk er mjög hissa yfir því að snjórinn sé búinn að haldast í rúma viku því hér í Karlskrona er fólk vant því að snjórinn sé farinn nokkrum klst eftir að honum hefur kyngt niður. Ég held að enginn sé ánægðari en ég og kannski börnin, maður verður að hafa svolítinn snjó, hann lýsir líka upp skammdegið.
Kveðja, Anna Dóra

Thursday, January 29, 2004

Halló halló, lenti í ekkert smá neyðarlegu atviki í ríkinu um daginn, hér er ég spurð um skilríki í hvert einasta skipti sem ég ætla að versla eitthvað áfengt og svo var það nú einnig þetta skiptið, ég er greinilega svona ungleg. Svo þegar ég ætla að borga virkar ekki kortið mitt hvorki að draga það né að stimpla inn númerið af því, ég var send út í hraðbankann sem hafnaði kortinu mínu en VÍSA sér um sína og brást mér ekki þarna frekar en fyrri daginn. Bankinn skildi ekki neitt í neinu en ákváðu samt að panta fyrir mig nýtt kort.
Bið að heilsa í bili, Anna Dóra

Monday, January 26, 2004

Úff ég var búin að gleyma hvað það er mikið puð að vera í skóla, ég er gjörsamlega tóm í hausnum þegar ég kem heim en kosturinn við þetta er svosem að mér finnst þá ágætt að fara út labba og tæma hugann áður en ég byrja að læra þannig að það er svosem ágætis heilsurækt sem fylgir náminu. Erfiðast finnst mér þó að sitja svona lengi, þetta er eitthvað sem maður hefur ekki gert lengi en ég vona að það venjast.
Þá er að halda áfram að læra, reyna að byrja að setja saman hugmyndir fyrir ritgerðina mína.
Anna Dóra

Saturday, January 24, 2004

Hæ hó jibbí jei og jibbíkæ jei það eru húsgögn út um allt :-)
Það hlaut að koma að því að ég myndi yfirgefa tyrknesku tjaldbúðirnar og færa mig yfir í menningarlegri híbýli hahahahaaaa, það er hægt að orða það þannig að það sé fólki inn bjóðandi orðið í heimsókn, ég get boðið ykkur sæti, gefið ykkur að borða og svo er meira að segja hægt að gista!!! Annars gekk IKEA-ferðin mjög vel, ég fékk held ég bara meirilhlutann af því sem ég var að leita að og er búin að setja allt saman (náttúrulega ekki að spyrja að smiðsdótturinni) og koma mér barasta þokkalega fyrir. Núna vantar mig bara svona smáhluti sem er hægt að kaupa í rólegheitunum, reyndar ætla ég að kaupa mér skrifborð fljótlega þar sem maður er nú orðinn frekar aktífur námsmaður.
Puss og kram, Anna Dóra

Thursday, January 22, 2004

Manstu ekki eftir mér, mikið líturðu vel út bebí frábært hár...... ég var í starfsmannapartýi í dag og var beðin um að troða upp á íslensku, Stína frænka sendi mér texta við þekkt sænsk lög og svo sungum við á íslensku og sænsku og svo söng ég hið frábæra stuðmannalag manstu ekki eftir mér við undirspil stuðmanna. Þeim leist nú svo vel á lagið að það var ákveðið að ég ætti að kenna þeim þetta lag og við sem vorum þarna myndum troða upp í næsta starfsmannapartýi, þannig að hróður stuðmanna berst víða. Nú ætla ég að fara að sofa því það er stór dagur á morgun IKEAferðin mikla þar sem lagerinn verður tæmdur og fluttur inn á snapphaneväg.
Kveðja, Anna Dóra

Wednesday, January 21, 2004

Halló halló, nú er námið aðeins farið að skýrast og mér líst bara vel á þetta allt saman. Svolítið erfitt að byrja að setjast niður og sitja kyrr í svona langan tíma en ég er yfirleitt í skólanum 3 daga vikunnar frá 9 til 15-16 á alltaf 5 daga helgi!!:-)
Annars er alveg hrikalega kalt í dag, -10°C og höfnin ísilögð. Annars sá ég alveg hrikalega fyndið um daginn, ég var úti að ganga og sé að það er svolítið krap yfir vatninu og fullt af fuglum að spóka sig á ísnum, kemur þá ekki einn svanur og klýfur sig í gegnum ísinn líkt og ísbrjótur, ég hef aldrei séð annað eins.
jæja bið að heilsa í bili
Anna Dóra

Tuesday, January 20, 2004

Halló halló á ekki að hleypa inn, mér var sagt að það væri show, jú jú mér var hleypt inn í skólann og þvílíka showið sem það var fyrsta daginn, ég var farinn að halda að ég skildi varla stakt orð í sænsku það var eitthvað svo flókið sem kennararnir voru að reyna að segja en mér létti töluvert þegar sænsku nemendurnir kvörtuðu undan því sama en allt leit nú mun betur út í dag. Annars er allt gott af mér að frétta, mér finnst náttúrulega mikið gott að vera komin með nettengingu heim aftur þannig að nú verður hægt að byrja að fylgjast með mér. Jæja þá er að snúa sér aftur að heimanáminu sem var sett fyrir morgundaginn,

Friday, January 09, 2004

Halló halló, thad er rólegt í vinnunni og ég ákvad ad segja ykkur adeins hvad hefur gerst í mínu lífi núna sídustu dagana. Ég er sem sagt flutt og er ódum ad verda búin ad koma mér fyrir, vantar reyndar enn svolítid af húsgögnum en thad stendur allt til bóta, fer fljótlega í Ikea og verd snögg ad eyda einhverju thar. Svo er ég komin inn í skólann, fékk bréfid á midvikudaginn, thannig ad thad er endalaus gledi í Karlskrona.
Bid ad heilsa í bili, Anna Dóra

Friday, January 02, 2004

Hæ hæ
Núna verður smá hlé á blogginu þar sem ég er að flytja á morgun og verð ábyggilega mjög upptekin næstu daga af því að koma mér fyrir, skoða húsgögn og jafnvel kaupa húsgögn.
Jæja ætla að fara að koma mér í að pakka saman dótinu mínu bið að heilsa ykkur í bili
Anna Dóra