Wednesday, December 24, 2008

Gleðileg Jól
Ég sauð hangikjöt í gær og þessi yndislegi jólailmur fyllir ennþá íbúðina mína. Er að vinna í kvöld og allir taka með sér eitthvað og við ætlum að vera með pínu hlaðborð (vona bara að við náum að setjast öll saman) mitt framlag verður íslenska hangikjötið góða. Ég var spurð hvort maður gæti sett það á brauð.... ehhhh já það er það besta sem til er ofaná brauð svaraði ég.
Farið varlega í jólasteikina
kram

Saturday, December 20, 2008

Skellti mér til Växjö í gær og heimsótti Jessicu, við fórum svo á jólahlaðborð með vinkonum hennar, áttum góða kvöldstund stelpurnar, spjölluðum, drukkum eins og stelpur gera. Aldrei þessu vant fór ég með lestinni. Það var rúta til Emmaboda og svo lest þaðan til Växjö og alveg eins í dag þegar ég fór heim. Þegar ég er búin að koma mér fyrir í rútunni rek ég augun í ælupokann sem er í körfu á sætisbakinu og hvað haldiði að rútufyrirtækið hafi verið búið að láta prenta á pokann? Velkomin um borð... ok ég get alveg séð húmorinn í þessu en greyið við sem verðum bílveik að þurfa að sjá þetta þegar maður í angist sinni yfir að þurfa að kasta upp er boðinn velkominn um borð. Enda neitaði ég að kasta upp í rútunni þó svo að það hafi kannski ekki verið mjög langt í gubbuna, nei ég andaði djúpt nokkrum sinnum og reyndi að vinna bug á ógleðinni, það virkaði ekki alveg, maginn er ennþá á hvolfi=(
Nei ælta að halda áfram að undirbúa mig fyrir djamm kvöldsins, einn vinnufélaginn er búinn að bjóða í partý og að sjálfsögðu ætla ég að mæta á svæðið.
kram

Sunday, December 14, 2008


Hahaha so true eða hvað, með því betra sem ég hef séð.
Fékk fyrsta þyrluútkallið mitt í gær, sem betur fer var það ekkert alvarlegt. Við flugum og sóttum veikan mann á skipi hérna fyrir utan. Ég þurfti ekki að síga niður, sem betur fer eiginlega, það blés pínu. Það fyndnasta var að þegar ég kom inn á bráðamóttökuna síðan með sjúklinginn var að ég hugsa að miðað við þau viðbrögð sem ég fékk frá þeim karlmönnum sem voru að vinna hefði ég getað fengið stefnumót með þeim öllum, bara ef ég hefði verið í þyrlugallanum. Þeir hafa aldrei áður haft orð á því hversu fín ég sé þegar ég hef komið inn með sjúkling. Ég veit ekki kannski eru strákar alveg eins og við stelpurnar, finnst búningar kúl. Ég veit að mér finnst þyrlustrákarnir hot, kannski gildir það sama þegar við stelpurnar erum komnar í gallann. Persónulega finnst mér algjört armageddon yfir þessu öllu saman (hafiði séð myndina þegar hópurinn kemur gangandi saman áður en þeir fara um borð í geimferjuna) þannig líður mér í þyrlugallanum, fyrir utan að mér finnst ég vera eins og Michelinmaðurinn.
Ég veit ekki ég hafði alla vega gaman af allri athyglinni. Eins og orðtiltækið segir "Ég þjáist ekki af athyglissýki, það ert þú sem ert leiðinleg/ur"

kramar

Tuesday, December 09, 2008


I'm back... and loving it. Vaknaði með yndislega tilfinningu í morgun. Ég var hitalaus, mér var ekki illt í öllum líkamanum og engin meiri hita/kuldaköst. Mér er batnað =) Búin að vera með einhverja kvefflensupest síðustu daga sem yfirbugaði mig um helgina og ég er búin að vera heima og reyna að hugsa vel um mig, well ekki svo erfitt í rauninni, bara kúra undir teppi með góða bók er notalegt. Fór annars að velta fyrir mér í þessum veikindum af hverju ætli öll hóstamixtúra bragðist eins og kirsuber? Keypti hóstamixtúru og þar stendur bragðbætt með kirsuberjum og súkkulaði mmmm hugsaði ég en ég get sagt ykkur að kirsuberjabragðið yfirtekur súkkulaðið milljón sinnum, hún var áhrifarík, ætli það sé ekki það sem skiptir mestu máli, þó svo að það skaði ekki að bragðið sé ágætt.
Jólahlaðborðið tókst barasta með ágætum, var óvenju rólegt fyrir þennan hóp en skemmtilegt engu að síður. Ég leysti jóla af þar sem hann var upptekinn annars staðar. Þar sem ég var jólapía í fyrra urðum við að breyta til í ár. Ég kom fram sem Madonna og hoppaði um með silfurkeilubrjóstahaldara og söng like a virgin við góðar undirtektir vinnufélaganna. (þetta er til á mynd, ef þið eruð góð fáið þið kannski að sjá hana). Síðan gaf ég öllum jólagjafir.
Síðan var íslenskt jólakökuboð og glögg hjá Huldu og Steina á laugardeginum, ekkert smá gaman að hitta alla og bara spjalla um allt og ekki neitt, reyndar mjög mikið borðað en er eitthvað betra en jólasmákökur á aðventunni, ekki margt allavega.
Bið að heilsa í bili
kram

Sunday, November 30, 2008

Ég lifði af helgina=)
Tack för helgen Jessica
Við vorum 15 sem djömmuðum hérna á föstudaginn, brotnuðu bara 2 glös (er það merki um gott partý eða hefði ég kannski átt að kaupa plastglös?) og fórum svo niður í bæ og dönsuðum til 3. Sváfum laugardaginn frá okkur, þ.e. hlóðum batteríin fyrir kvöldið. Djömmuðum meira á laugardagskvöldinu reyndar bara 2 því ákveðinn vinur minn sveik okkur, hann mætti ekki á djammið.
Þetta er búin að vera æðisleg helgi, mikið sofið, mikið drukkið, minna borðað, mikið dansað. Næsta djamm á fimmtudaginn. Er ásamt skemmtinefndinni búin að skipuleggja jólahlaðborð fyrir vinnufélagana. Næsta laugardag ælta svo Íslendingarnir hérna að hittast yfir jólaglöggi og smákökum, semsagt nóg um að ske næstu daga.
Kveðja

Thursday, November 27, 2008

Á morgun kemur Jessica í heimsókn til mín og verður hér um helgina. Það verður þokkalega partajað..... Búin að bjóða vinnufélögunum í heimsókn á morgun, ekki búið að ákveða hvað við gerum á laugardaginn en skemmtilegt verður það. Ætla að halda uppá svona aðeins fyrirfram að ég er búin að fá 3 skiptarvaktir JIBBÝÝÝÝÝ ég er að eignast líf aftur frá og með 12.janúar, get flutt aftur heim til mín í staðinn fyrir að búa í vinnunni=)
Annars er svosem ekki svo mikið nýtt um að ske, segi ykkur frá helginni síðar ef ég lifi hana af.
kramiz

Monday, November 24, 2008

Home sweet home. Átti alveg yndislega helgi í Köben með m+p og Helgu Dís. Fékk að fara snemma heim úr vinnunni á föstudaginn og skellti mér til Köben. Þegar ég kom á hovedbanegård biðu Helga Dís og Hildur vinkona hennar eftir mér og stuttu síðar birtist gamla settið og tók á móti mér. Við skelltum okkur út að borða um kvöldið á einn indverskan- bara gott. Borðuðum morgunmat snemma á laugardeginum því okkar beið hefðbundinn julefrukost kl 13. Eftir að hafa labbað um á strikinu og kíkt í nokkrar búðir svona aðeins til að work up an apetit mættum við á Kanal cafen kl 13. Eftir að hafa skammast okkar(Doris og Helga Dís because we forgot) í eins og 5 sek þá skáluðum við í jólaöli og ákavíti og óskuðum gamla settinu til hamingju með brúðkaupsafmælið. Fyrst var borið fram kaldir réttir brauð, síld, lax, steikt rauðspretta, reyktur áll og ýmislegt meðlæti og maður bjó sér til eigið smörrebröd, eftir það tóku heitu réttirnir við besta purusteik sem ég hef nokkrun tíma smakkað (sorry Helga frænka en þessi var betri en þín þó svo að þín komi nú ekki langt eftir) önd og ýmislegt annað góðgæti. Að lokum var svo komið með ostabakka og möndlugraut, haldiði ekki að mamma gamla hafi fengið möndlugjöfina. Eftir matinn var rölt í rólegheitunum (við vorum næstum of södd til að geta hreyft okkur) upp á hótel og fengið sér smá miðdegislúr (gott að sofa eftir matinn). Um kvöldið kíktum við svo á jólamarkað í Tívolí, gaman að sjá öll jólaljósin, hlýja sér með heitu glöggi. Ég fór aldrei þessu vant ekki í neitt tæki why jú ég var ennþá svo södd, maturinn hefði líklegast ratað út ranga leið ef ég hefði skellt mér í rússibanann. Á sunnudagsmorgninum skelltum við okkur svo í morgunmat (varla að nokkur hefði lyst á honum, ég var ennþá södd) og svo tékkuðum við út og ég hélt með lestinni til Karlskrona og þau stigu úr lestinni við kastrup og flugu síðan heim.

Jæja, kominn tími á að fara og skipta yfir á vetrardekkinn áður en ég fer að vinna
bless í bili

Friday, November 14, 2008

Ég hélt það kæmi aldrei að þessu en ég hálf skammast mín fyrir að vera Íslendingur í augnablikinu af hverju..... Í gær þegar ég flétti blaðinu er stór mynd af Herra Ólafi Ragnari og hann húðskammar m.a. Svía fyrir að styðja ekki við bakið á Íslendingum á þessum raunartímum sem kreppan er. Segir að Íslendingar ættu kannski að leita sér að nýjum vinum (hvar ætlar hann að leita að þeim á facebook kannski?) og svo stóð að hæstvirtur forseti okkar hafi boðið Rússum að kaupa herstöðina í Keflavík- sællllll er ekki í lagi heima hjá honum- eigum við að ræða það eitthvað.
Held að Íslendingar þurfi aðeins að líta í eigin barm, hverjir eru það sem hafa lifað langt um efni fram í fjöldamörg ár, einhvern tíma hlýtur að koma að skuldadögum- það höfum við hin lært alla vega. Nú er ég ekki að alhæfa þetta um alla Íslendinga dont get me wrong en einhverra hluta vegna lentum við í þessarri aðstöðu. Að einhverjir gaurar hafi misskilið matador og skilið spilaborðið eftir heima en haldið leiknum áfram með peningana er leiðinlegt.

Ef ég tala nú um skemmtilegri hluti þá voru tónleikarnir meiriháttar, kúrsinn var fínn (fyrir utan norðmanninn sem talaði aðeins of hratt þannig að ég skildi ekki alveg hvað hann var að tala um) góður félagsskapur, ég fékk far heim af flugvellinum í sportbíl (ég get ekki að því gert en ég elska hraðskreiða sportbíla, sérstaklega þegar maður þekkir eigandann og fær far hjá honum=)) Á kúrsinum fékk ég ansi skemmtilegt flashback hvað haldiði að maður hafi fengið með kaffinu. Kandís... þegar ég var yngri var þetta algjört sælgæti, maður fékk þetta hjá ömmu og afa. Þegar ég saug einn mola var ég allt í einu 4ra ára aftur og stóð í stofunni í Hlíðargerðinu í veislu hjá ömmu og afa, yndisleg tilfinning.
puss o kram

Saturday, November 01, 2008

Fór á frumsýninguna á Bond síðasta fimmtudag, sýningin var kl 0:07 svolítið táknrænt ekki satt=) Ég verð reyndar að viðurkenna að ég varð fyrir pínu vonbrigðum. Það var enginn söguþráður og svo bara allt í einu var myndin búin. Daniel Craig stóð þó fyrir sínu, myndarlegur eins og í fyrri myndinni. Mikið um að ske þessa vikuna. Kvöldvakt mánu- og þriðjudag. Stelpudagur með Huldu í Kaupmannahöfn á miðvikudag, tónleikar með Gavin DeGraw um kvöldið. Flýg svo frá kastrup á fimmtudagsmorgninum til Stokkhólms. er að fara á kúrs með 2 vinnufélögum. Kem síðan heim seinnipart föstudags. Spennandi vika framundan.
Búin að kaupa flugmiða til Íslands um áramótin, kem 28. des og fer heim 9. jan.
Jæja ætla að halda áfram að undirbúa mig fyrir kúrsinn.
Bless í bili

Saturday, October 25, 2008

Afmælisprik segirðu Maggi, jú að sjálfsögðu fæ ég stærsta afmælisprik vikunnar ;-). Aðrir sem fá afmælisprik eru Rúna, María og Jessica. Hélt uppá afmælið mitt á miðvikudaginn eða hélt og hélt uppá það!!! Við fórum 5 hressar stelpur út að borða og svo á uppistand og ég lofa ykkur að það er langt síðan ég hef hlegið svona mikið, við erum að tala um að það lá við að maður bæði um pásur til að jafna sig. Mér var illt í maganum og andlitinu eftir allan þennan hlátur, er næstum viss um að það hafi bæst við nokkrar broshrukkur eftir kvöldið.
Annars var nú frekar fyndið þegar við fórum út að borða, við skellum okkur á einn thailenskan matsölustað. Ég bið um rétt nr 35 sem átti að vera mjög sterkt. Svo fáum við matinn og allar úlfhungraðar nýkomnar úr vinnunni og skellum okkur yfir matinn. Ég er samt frekar hissa á því hversu bragðdaufur maturinn minn er, ekki skrýtið því þegar reikningurinn kom sáum við að ég hafði fengið rétt nr 34 (sem var engu að síður mjög góður). Ég bendi á það þegar ég borga og hvað gerir starfsfólkið, setur upp undrunarsvip og þykist ekki skilja neitt, jamm stundum er gott að vera útlendingur og græða á fólki.
Ætla að skella mér í ræktina smástund áður en ég byrja að vinna....

Thursday, October 16, 2008

Það er svo gaman að vera til. Var á æfingu í gær með þyrlunni, var látin síga nokkrum sinnum niður á stóran bát. Þetta var eins og að vera í tívolí- ekki spillti að öll áhöfnin var frekar myndarleg=) Var á kvöldvaktinni á sjúkrabílavaktinni, strákarnir hringdu um sexleytið og spurðu hvort ég vildi skreppa með þeim á hokkíleik- þeir yrðu þar allir og þá værum við öll á sama stað ef við fengum útkall ehhh já takk svaraði ég. Talaði við þá sem var að vinna með mér hvort það væri í lagi og svo skellti ég mér á minn fyrsta hokkíleik. Það var svakalega gaman þó svo að ég fatti hvorki upp né niður í hokkí.
Svaf illilega yfir mig í morgun- lá og fílósóferaði og beið eftir að klukkan myndi hringja. Ákveð svo bara að skella mér á fætur og versla áður en ég fer í vinnuna. Lít á klukkuna og hún er 10- crap ég átti að mæta í vinnuna 9:45. Ég hringdi því í vinnuna, lét vita að ég væri á lífi en bara sein, hoppaði í sturtu, klæddi mig (þegar ég var búin í sturtu og að þurrka mér), smurði brauðsneið með smjöri og út í bíl (já þó svo að ég var sein vildi ég ekki koma alltof seint) Hugsa að þetta gleymist seint í vinnunni Doris svaf yfir sig þegar hún átti að mæta 9:45. Þó svo að dagurinn hafi byrjað snöggt rættist úr honum, ég kláraði að leggja vinnuskýrslu fyrir jólin. Reddaði mér 2ja vikna fríi yfir áramótin- geri aðrir betur=)
Jæja ætla ekki að hafa þetta babl lengra í bili
puss o kram

Wednesday, October 08, 2008

Það hafðist að lokum að komast á skerið !!! Stressið byrjaði í rauninni á mánudaginn, ef þið sitjið róleg skal ég segja ykkur frá ferðasögunni minni. Ég verð með smá ræðu á fösutdaginn á bráðaþingi bráðahjúkrunarfræðinga (vá snakka um tungubrjót). Ég var búin að redda mér helling af myndum til að krydda ræðuna með og ætla svo að kíkja á þær og GARG usb-lykillinn er dáinn og tómur. Eftir mikið stress og svita spurði Rúna mig hvort þær gætu verið í sent items hólfinu í vinnumailinu (ég hafði reynt að senda myndirnar) og YES þar voru þær þannig að kvöldinu og ræðunni var reddað. Ég þorði nú reyndar ekki að taka neina sénsa þannig að ég sendi bæði myndirnar og ræðuna í tölvupósti til mömmu svo ég væri nú örugglega með þetta á 2 stöðum;-)
Vakna svo mjög tímanlega í gærmorgun, fer í sturtu og borða morgunmat. Kveiki á tölvunni til að ath með lestina og uppgötva þá að ég hafði misreiknað mig, hélt ég gæti tekið lestina 9:38 en átti að taka lestina 8:38. Crap það eru 10 mín í að lestin fari- hvað gera bændur nú? Full af jákvæðni og krafti eftir að hafa fundið myndirnar daginn áður hugsa ég ÉG NÆ LESTINNI. Ég hef sjaldan hoppað jafn hratt í fötin mín, hent því síðasta í bakpokann og hlaupið út á lestarstöð. En ég NÁÐI lestinni. Kófsveitt og móð settist ég í lestina ánægð með lífið- ég er á leiðinni heim. Allt gekk eins og í sögu eftir þetta. Flugið ontime og við komin út á flugbraut þegar einhver flughræddur farþegi fær kvíðakast og við snúum við- þar sem farþeginn neitaði að fara frá borði höldum við aftur út á flugbrautina og NEI nú fara viðvörunarljós að blikka, leki í vökvakerfinu. Við keyrum aftur að flugstöðvarbyggingunni og flugvirki lítur á lekann og segir 2-3 tíma seinkun. Eftir 4ra tíma bið og ágætismáltíð fengum við loksins brottfararleyfi=) (ég er reyndar bara glöð að lekinn uppgötvaðist áður en við fórum í loftið -thank you flughræddi farþegi) Núna er ég komin á skerið sólin skín og lífið gæti ekki verið betra. Leyfi ykkur að fylgjast með hvernig gekk að flytja ræðuna, Doris er nefnilega fyrst í pontu.
Vona að þið hafið nennt að lesa allt bablið mitt,
kramar

Saturday, September 20, 2008

Verð að segja ykkur frá brálæðislega fyndnu atviki sem ég lenti í í vikunni. Þetta var á eitt kvöldið og síminn hringir og ég svara bara eins og venjulega JáHalló. Viðkomandi kynnir sig og segist vera að hringja frá sifo til að gera skoðanakönnun (eins og gallup) og spyr síðan hvort það sé einhver fullorðinn heima!! FULLORÐINN ég er fullorðin svaraði ég þá og neitaði að taka þátt í skoðanakönnunninni=) btw hann var ábyggilega yngri en ég. Ég vissi að ég lít út fyrir að vera yngri en ég er en að ég hljómi eins og barn í símanum hafði ég ekki hugmynd um. Greyið er kannski nýr í starfinu og fer eftir einhverjum vinnureglum sem hann er með á blaði fyrir framan sig, hvað veit ég, ég nennti bara ekki að eyða 30 mín í að tala við einhvern gaur fyrir 3 spurningar sem verða síðan notaðar í úrtakið.

Sunday, September 14, 2008

Hvað haldiði Doris er komin á dansnámskeið. Ég er að læra að bugga, þetta er sænskur dans, ætli hann sé ekki líkastur jitterbug eða swing en er samt ekki það sama. Kíkið á þetta klipp, nú er ég ekki orðin svona dugleg ennþá, fyrsti tíminn var bara í dag. Þetta grunnnámskeið er 10 skipti, hver veit ef þetta er ógó gaman þá held ég ábyggilega áfram eftir áramót.
Varð bara að deila þessu með ykkur, því þetta var svo gaman, hvet eiginlega bara alla til að skella sér á dansnámskeið=)
Bið að heilsa í bili

Wednesday, September 10, 2008





















Komin heim og raunveruleikinn tekinn við þ.e. vinnan=)
Ég hafði það ekkert smá gott á Íslandi og reyndar er mjög stutt í næstu heimsókn, kem í viku í október 6.-13.okt.
Ætla að setja inn nokkrar myndir úr ferðinni (er svo ánægð með nýju myndavélina mína)

Wednesday, September 03, 2008

Ég hef það ekkert smá gott, það er dekrað við mig og ég dekra við drengina mína. Ég er orðin móðursystir, Rúna eignaðist strák 27. ágúst, hann var skírður í kvöld og heitir Jónas Sigurður flott nafn á flottan strák.
Á morgun kemur Jessica í heimsókn og verður fram á sunnudag. Ég veit svosem ekki hvað við munum bralla en eitt er víst að við munum kíkja út á lífið um helgina í partycapital of the world!!
Ég fer svo heim 8. sept og þá heldur gleðin áfram=)
Veit svo sem ekki hvað ég á að segja ykkur, kannski bara bíp eins og Óli Stef=)
Bið að heilsa ykkur í bili
Kveðja
Anna Dóra

Sunday, August 24, 2008

TIL HAMINGJU MED SILFRIÐ. Vá hvað ég er stolt af handboltastrákunum, silfur á ólympíuleikunum er enginn smá flottur árangur. Þó svo að þeir hafi hitt ofjarla sína í dag þá gáfust þeir ekki upp. Efast reyndarum að Frakkarnir myndu sigra okkur svona rosalega á góðum degi þegar allt gengur upp. Það er eins og Siggi Sveins og Palli Ólafs sögðu í morgun eftir leikinn að eftir tapleiki þá eru 300 þús þjálfarar á landinu- allir vita hvað fór úrskeiðis og hvernig megi bæta það=)
Við bíðum ennþá spennt eftir að bumbi láti sjá sig, spennan í síðustu leikjum hefur ekki flýtt fyrir fæðingunni eins og við héldum, nei þessu barni virðist ekki vera að liggja mikið á- ætli það eigi líka eftir að líkjast uppáhalds frænku sinni?
Maggi kallar- æsispennandi keppni í BUZZ bíður
bið að heilsa í bili
ÁFRAM ÍSLAND

Thursday, August 14, 2008

Nú er mikið búið að vera um að ske á mínu heimili.
Síðasta fimmtudag gerði stórfjölskyldan innreið sína hér í Karlskrona, mamma, pabbi, Maggi, Halldór Óskar og Hermann Ingi mættu á svæðið. Það er búið að vera svo gaman hjá okkur. Við skoðuðum gamlan kastala úti á Aspö og borðuðum kvöldmat þar, erum búin að fara til Vimmerby í Astrid Lindgren garðinn (veit reyndar ekki hver skemmti sér best) gaman að sjá hvar Lína, Emil, Ronja og hinar söguhetjurnar búa. Við fórum til Kosta og Transjö að kíkja á glerlist hjá pabba vinkonu minnar. Í dag fórum við í barnens gård og hetjurnar mínar fóru einir á hestbak ég mátti sko ekki hjálpa þeim, ef ykkur dettur í hug að þeir hafi farið á shetlandsponyinn sem var í boði, well ég held nú síður, það átti að fara á STÓRA hestinn.
Á morgun fara þau svo til Köben, held það verði nú tómlegt og hljótt í kotinu þegar þau verða farin. Styttist reyndar í að ég komi til Íslands, kem seint um kvöld næsta fimmtudag og verð til 8.sept.
Læt þetta duga í bili.
kramar

Saturday, July 26, 2008


Eins og pabbi benti svo réttilega á lítur allt út fyrir að ég sé enn á Íslandi, ég er búin að vera heima í tæpa viku. Hef svosem ekki gert svo mikið af mér, unnið, skellt mér á ströndina og kíkt á pöbbinn. Planið fyrir daginn er að fara á ströndina, skella mér í sjóinn og svo djamma, djúsa og dansa í kvöld. Ég er nefnilega í vikufríi, á ekki að mæta fyrr en aðfaranótt föstudags í vinnuna=)
Fór í gær og keypti mér þennan forláta fák, dumbrauðan crescent og núna verður sko farið að hjóla aftur=) Bið að heilsa í bili, sólin kallar

Monday, July 14, 2008

Er enn á Íslandi og búin að hafa það mjög gott. Búin að fara x2 í bíó, sá fyrst kung-fu panda með drengjunum mínum og Rúnu og hún var frábær, mæli með henni þið sem eruð ekki búin að sjá hana. Fór svo á sex and the city í gærkvöldi með Rúnu, Ingu Rós og Gígju, gaman að fara með stelpunum á stelpumynd. Ég fíla þættina þannig að mér fannst myndin skemmtileg. Ég er búin að eyða helling af pening (einhver verður að reyna að bjarga efnahagsástandinu á þessu landi ekki satt) og fara í Slakka með bræðurna, það var reyndar mjög gaman. Búin að hitta saumó og familíuna. Er einnig búin að vera tíður gestur í salalaug í kópavogi, mamma og Ásdís hafa skellt sér í ræktina og ég í sund á meðan. Hef reyndar ekki nennt núna í rigningunni síðustu daga. Er að fara í nudd í Laugar í kvöld og svo á annan stað á morgun. Er hægt að hafa það betra, ég held ekki.
Læt þetta babl duga í bili.
kveðja
Anna Dóra

Thursday, July 03, 2008

Hæ hæ ég er ennþá á lífi en ekki mikið meira það. Partýið á laugardaginn var ekkert nema skemmtilegt, sunnudagsmorguninn ekki alveg jafn skemmtilegur en ég var farin að jafna mig um hádegið. Þá var haldið til Köben og tónleikarnir voru meiriháttar, hann söng reyndar ekki born in the USA en who cares hann söng mörg önnur góð lög, hann er ekkert smá flottur kallinn 58 ára og hoppaði um sviðið eins og unglingur. Við keyrðum beint heim eftir tónleikana þannig að ég skreið undir sæng um hálffimmleytið og neyddist til að vakna um 9 til að fara með bílinn í skoðun, var reyndar fljót að skríða uppí rúm eftir það. Þegar ég vaknaði fór ég með Josefin og vinkonu hennar til Öland og við fórum á dansiball (Geirmundur Valtýsson dæmi) ég lærði að dansa foxtrott =) annar hver dans er foxtrott og hinn er bugg. Ég fékk að dansa alveg helling. Við sváfum síðan í tjaldi (fyrsta útilegan í Svíaríki) og keyrðum svo beint í vinnuna á þriðjudeginum. Við ætlum að fara aftur til Öland í kvöld og dansa en keyra heim eftir ballið. Fer svo á kvöldvakt föstudag og laugardag áður en ég flýg heim á sunnudagsmorgun. Hugsa að ég eigi eftir að lognast þokkalega útaf í fluginu heim, ég er ennþá þreytt eftir helgina, eins gott kannski að maður er að fara í smá frí.
Hlakka til að hitta alla, þið vitið hvar ég bý og þar er alltaf heitt á könnunni.
Doris

Saturday, June 28, 2008

Mikið um að vera þessa helgina eins og oft áður. Í gær kom vinur minn í heimsókn og gisti hér í nótt, hann er að hlaupa maraþon og Hrafnhildur hálfmaraþon í dag (ég veit ég verð líka þreytt við tilhugsunina). Við ætlum að hittast núna eftir hlaupið og spjalla yfir kaffibolla. Eftir það ætla ég út á Aspö þar sem annar vinur minn á sumarhús og við ætlum að tjalda og vera með smá útilegudjamm nokkur úr vinnunni, lengi síðan síðast. Á morgun er svo Brúsi í idrottsparken í köben, Josefin og Caroline fara með okkur, þokkalegt girlpower=) Styttist í sumarfrí bara 6 dagar og 4 vaktir og þið vitið hvað það þýðir Iceland here I come.

Bið að heilsa í bili
kramar

Tuesday, June 17, 2008

HÆ HÓ JIBBÝ JEI OG JIBBÝ JEI ÞAÐ ER KOMINN 17. JÚNÍ
Til hamingju með daginn allir. Ég hálfvorkenni Svíunum þegar ég segi þeim frá því að við höldum uppá þjóðhátíðardaginn hátíðlega. Nema hvað eins miklar þjóðarrembur og við erum.
Verð að segja ykkur frá skemmtilegu fréttunum sem ég fékk í gærkvöldi. Hrafnhildur hringdi og spurði hvort ég vildi fara með henni á tónleika í Parken í Köben þann 29. júní með engum öðrum en GOÐSÖGNINNI Bruce Springsteen. ÉG HELD ÞAÐ NÚ, bíð bara eftir að hún fái staðfest miðakaupin og þá erum við á leiðinni á tónleika.

Vildi bara deila þessu með mér, njótið frídagsins þið heima, aðrir þurfa að vinna fyrir laununum sínum;-)

Sunday, June 15, 2008

Vá mér líður eins og versta unglingnum!!
Búin að vera úti á lífinu 3 kvöld í röð, það er orðið ansi langt síðan það gerðist síðast. Byrjaði í stúdentsveislu á fimmtudaginn, við vorum með vinnupartý á föstudaginn sem endaði niðri í bæ (nema hvað) og svo fórum við út að borða 4 úr vinnunni í gærkvöldi og enduðum á djamminu með strákunum = bara skemmtileg helgi.
Vinnupartýið heppnaðist alveg svaðalega vel, við erum ótrúlega duglegar að skipuleggja svona partý þó ég segi sjálf frá. Við sungum meira að segja krummi krunkar úti, óhætt að segja að það hljómaði betur þegar ég söng ein en þegar svíarnir tóku undir (og ég er enginn söngvari).
Fleiri partý sem bíða, jónsmessan um næstu helgi, og svo ætlum við sem erum skemmtileg í vinnunni (eiginlega bara svæfingahjúkkur og -læknar, nema hvað) að djamma úti á einni af eyjunum hérna 28.júní, hver veit nema við skellum upp tjaldi og gistum. Mikið um ske í djamminu þessa dagana.

Bið að heilsa í bili

Saturday, June 07, 2008

Vá hvað tíminn líður hratt þegar maður skemmtir sér=)
Í dag eru Caroline og Jessica að koma til mín, við ætlum að grilla og slúðra og seinna í kvöld mun the dynamic duo (Doris og Jess) vonandi fleiri taka schlager með trompi, nema hvað, orðið alltof langt síðan síðast. Var á afterwork á fimmtudaginn, við sátum úti til kl 1 spjölluðum, þjóruðum bjór og bara almennt höfðum mjög gaman. Næsta vika fullskipulögð, vinna mánudag-fimmtudags. Vaka pæja verður stúdent á fimmtudag, vinnupartý á föstudag og svo ætla ég að hjálpa vinafólki mínu að flytja laugardag og sunnudag.
Bara mánuður í að ég komi heim í smá frí, hlakka ekkert smá til að fá smá frí og vitiði hvað er það besta, ég ætla ekki að vinna neitt, bara að njóta þess að vera til og hitta vini og ættingja sem vilja hitta mig.

Best að skella sér útí sólina aftur

Saturday, May 31, 2008


Verð að segja ykkur frá því hvað ég gerði í gær. Eins og þið kannski vitið þá elska ég höfrunga. Þessi 2 skipti sem ég hef synt/kafað með þeim eru ein af hamingjusömustu klukkutímunm í lífi mínu. Meira segja þegar ég var lítil langaði mig í höfrung sen gæludýr og fannst ekkert sjálfsagðara en að pabbi myndi byggja sundlaug í garðinum fyrir hann=) Núna á ég minn eiginn höfrung í formi húðflúrs á hægri rist. Mig hefur langað í húðflúr í mörg ár en ekki vitað hvaða mynd ég ætti að fá mér fyrr en núna og ég lét verða af því og sé ekki eftir því, ef ég á að vera heiðarleg þá get ég ekki hætt að horfa á höfrunginn minn.
Kveðja úr sólinni og hitanum
Get nú ekki kvatt án afmæliskveðja til púkanna minna, Hermann Ingi er 3ja ára í dag, og Halldór Óskar varð 6 ára þann 15. og á morgun verður (ef ég þekki systir mína rétt) svaðaleg veisla.
Anna Dóra

Sunday, May 25, 2008

Hæ hæ, vá hvað þau stóðu sig vel í Belgrad í gær. Ég var í Eurovisionpartýi og að sjálfsögðu hringdum við inn okkar atkvæði fyrir Ísland, ég fór reyndar heim að keppni lokinni, ólíkt mér já ég veit en ég hafði góða ástæðu. Mér tókst nefnilega að detta af hestbaki á föstudaginn og er frekar blá og marin, hægri rasskinnin er tvöföld bæði af bólgu og mari. Við fórum á stökk og merin sem ég var á vildi fara mun hraðar en ég. Þegar ég var að reyna að hægja á henni missti ég jafnvægið og flaug af baki. Lenti sem betur fer á hliðinni (þakklát fyrir hvað ég með stóran rass svona einu sinni) mér er reyndar dru.... illt en þetta hlýtur að gróa áður en ég gifti mig ;-) Ég er reyndar þakklát (ef maður má orða það þannig) fyrir að hafa bara marist illa, ég trúi varla ennþá að ég hafi ekki brotið eitt einasta bein í líkamanum eða að neinn hestur hafi stigið á mig.
Ætla að láta þetta duga í bili
Kveðja
ein lurkum lamin

Friday, May 23, 2008

Vá en gaman, við komumst áfram í úrslit eurovision og ekki bara við heldur öll norðurlöndin. Langt síðan það hefur gerst. Sá að veðbankarnir eru á fullu í að spá um úrslit keppninnar, bjóða meira að segja upp á veðmál norðurlandanna á milli=)
Er að fara á hestbak á eftir, þeir eru með íslenska hesta hérna fyrir utan Karlskrona, við erum 10 úr vinnunni sem erum að fara saman, verður mjög gaman. Fer svo í brúðkaup á morgun, hef mestar áhyggjur af því hvort ég geti setið í kirkjunni=), síðan verður Eurovisionpartý um kvöldið, langt síðan ég hef haft svona uppbókaða helgi.
Við skiluðum inn síðasta verkefninu fyrir skólann í gær, yndisleg tilfinning þegar maður er búinn að vinna verkefni þegar maður getur loksins skilað því af sér. Við fengum reyndar þokkalegt áfall þegar við ætluðum að klára verkefnið í gær. Ég opna skjalið sem við höfðum sparað á USB-minninu mínu og fáum upp 9 bls af ÿ. Það vildi til að við höfðum prentað út eintök af verkefninu og svo átti ég upprunalega verkefnið á tölvunni minni hérna heima þannig að þetta reddaðist nú allt saman, tók bara aðeins lengri tíma en við áttum von á. Næsta fimmtudag kynnum við síðan verkefnið, vekjum vonandi smá umræður í kringum það og að sjálfsögðu góða einkunn eða? Vona bara að það gangi vel og við náum.
Ætla að fara að taka mig til, ætla að kíkja í eins og eina búð áður en ég fer af stað út í óvissuna á íslenskum hesti uppöldum í svíaríki.... hvernig ætli það gangi.

Sunday, May 18, 2008

Var í partýi í gær og ég og Jessica byrjuðum að velta þessarri spurningu fyrir okkur.
Ætli maður sendi frá sér hættulega geisla þegar maður er einhleypur? Við vorum í innfluttnings/þrítugsafmæli hjá Caroline og Patrik, ég stoppaði bara stutt þar sem ég var á leiðinni á næturvakt en....
við ákváðum að setjast í stofuna því þar sátu flestir og mingla aðeins, svo þar sem við sitjum og spjöllum uppgötvum við að við erum allt í einu orðnar bara 2 eftir í stofunni, allir hinir eru komnir inn í eldhús (líklegast jafn svangir og við farnir að bíða eftir matnum) en þar sem meirihlutinn var pör fer maður ósjálfrátt að velta fyrir sér hvort maður sendi frá sér einhverja hættulega geisla VARÚÐ EINHLEYPAR KONUR. Hvað haldið þið?
Frétti síðan að uppáhaldsumræðuefnið mitt hefði verið dregið upp meðal allra, jú þið giskuðuð rétt, brúðkaup, barneignir og húsakaup. Þá var nú barasta ágætt að sitja á sófanum í vinnunni og horfa á imbann get ég sagt ykkur. Erfitt þegar umræðuefnið verður svona einhæft, sérstaklega þar sem þetta liggur ekki í mínu áhugasviði í augnablikinu.
Þegar farin að hlakka til næstu helgar, er að fara á hestbak næsta föstudag með stelpunum í vinnunni, og brúðkaup á laugardaginn, svo er náttúrulega Eurovision á laugardaginn líka, áfram eurobandið eða?
Bið að heilsa í bili
Anna Dóra, aka Doris

Thursday, May 08, 2008

Þá eru mamma og Halldór Óskar farin, mikið var nú gott að hitta þau. Við enduðum ferðina í Kaupmannahöfn og hittum Magga bróðir sem er í útskriftarferð með lögguskólanum. Við skelltum okkur í dýragarðinn og svo út að borða. Svipurinn á Halldóri var yndislegur þegar ég las fyrir hann matseðilinn, kengúruborgari og krókódílakjöt, hann valdi fisk og franskar.
Var í gær á vettvangsæfingu fyrir rútuslys, mjög gaman og ég held að maður hafi gott af því að prófa hversu erfitt það er að bera 10 manns út úr rútu sem liggur á hliðinni, þar sem fólk liggur þvert og endilangt um alla rútu. Sumir höfðu klifrað og fest sig í bílbelti í hliðina sem var upp í loft og ég get lofað ykkur að það var ekki auðvelt að ná þeim niður. Vona bara að maður eigi ekki eftir að lenda í þessum aðstæðum í raunveruleikanum.

Bókaði ferð heim til Íslands í gær í sumarfríinu mínu, verð á skerinu 6-19. júlí, ætla bara að slappa af, leika við drengina mína og hitta vini og ættingja sem vilja hitta mig.

Ætla að láta þetta gott heita í bili, ætla út að labba í góða veðrinu, bara sól og 20°C =)
kramar
Doris

Tuesday, April 22, 2008

Vorið er greinilega komið í Svíaríki, hvernig veit ég það... Jú búin að uppgötva fyrstu könguló sumarsins í loftinu á svefnherberginu mínu. Kvikindið féll fyrir dauðlegum geislum gluggahreinsiefnis, því miður datt hún á koddann minn þannig að ég þurfti að skipta um koddaver, annars hefði ég ekki getað sofið í rúminu mínu (hrollur).
Verð annars að deila út smá prikum.
Maggi bróðir fær hetjuprik fyrir að vera orðin LÖGGA, hann útskrifaðist síðasta föstudag. og Litla skrímslið fær afmælisprik, já ég veit að það er erfitt að trúa þessu en Helga Dís LITLA systir mín er orðin tvítug.

Vissi annars að allar þessar sjúkrahússápur kæmu að notum, er búin að vera með nema núna mánudag og þriðjudag sem er frá S-Afríku og gat bara talað reiprennandi spítalaensku (",) og barasta frekar ánægð með mig, hún var reyndar ánægð líka. Átti reyndar móment í morgun þegar ég var að reyna að útskýra (kunni ekki enska orðið) legsig, ég tók löngu leiðina og þegar hún skildi hvað ég var að meina segir hún já ok, prolaps. Já segi ég og roðna pínu því það er sama orð og við notum hér í Svíaríki og ég búin að fara norður á Akureyri og aftur til Reykjavíkur í minni útskýringu. Skemmtilegt með tungumál.

Pínu fréttir, en ég sótti um launalaust leyfi í dag, í nóvember og desember og er að hugsa um að koma heim og fá að vera með í barnasvæfingum. Við erum svo sjaldan með lítil börn og maður er alltaf jafn óöruggur með sig (FAKE IT TILL YOU MAKE IT) virkar ekki alltaf þó svo að maður reyni að akta kúl að ég ætla að reyna að næla mér í smá reynslu. Mig er búið að langa lengi að fá að svæfa meira börn og ákvað að drífa bara í því.

Jæja, orðin alltof mikil langloka, ætli nokkur nenni að lesa þetta til enda
Krossið fingurna fyrir leyfinu mínu

Thursday, April 17, 2008

Ég get byrjað að lifa aftur =) Var í prófi í morgun og held að það hafi barsta gengið ágætlega. Núna eigum við bara eftir að gera litla ritgerð (höfum mánuð til þess) og svo er námskeiðið búið.

Helgin í Köben var æðisleg. Við fórum á föstudagskvöldinu á ástralskan veitingastað Reef'n'beef sem er óhætt að mæla með. Ég fékk svo góðan mat, kengúru í aðalrétt og svo eftirrétt sem heitir death by chocolate sem var yndislegur. Heyrði talað um að einhver á staðnum hefði fengið raðfullnægingu án þess að stunda kynlíf;-) Fæ reyndar ennþá sæluhroll á að hugsa um þennan eftirrétt. Sorglegt ekki satt....
Annað sem var sorglegt að í fyrsta skipti átti ég erfitt með að kveðja, fór næstum að gráta þegar Rúna og Eiríkur hoppuðu úr lestinni á Kastrup og ég sat ein eftir=( En annað gleðiefni mamma og Halldór Óskar ætla að koma og heimsækja mig fyrstu helgina í maí og ÉG er í fríi.

Kveðja
Doris

Tuesday, April 08, 2008

Ég er að fara til Köben á föstudaginn og hitta Rúnu og Eirík, hlakka ekkert smá mikið til.
Á föstudaginn ætlum við á kaffihús og ég ælta að fá mér eina sneið af þessarri ég fæ gæsahúð bara af að hugsa um þetta. Vá hvað ég ætla að njóta lífsins um helgina, hef unnið síðustu 5 helgar nefnilega, núna er komið að því að ég sé í fríi eða hvað.


Kveðja

Ein sem er heima með hitavellu og vonast til að vera búin að ná sér fyrir föstudag.

Sunday, March 30, 2008

Vitiði hvaða dagur var í gær? Það var V-day (vagina day), á góðri íslensku leggangadagurinn. Það var haldið upp á daginn víða um heiminn, til þess að vekja fólk til umhugsunar um kynferðisofbeldi gegn konum.
Hélst þú daginn hátíðlegan?

puss o kram

Monday, March 24, 2008

Ég er í sjokki!!!
Var að sjá í fyrsta skiptið heimildarmyndina SuperSize Me, um manninn sem borðaði 3 máltíðir á dag á Magga Dóna. Ég get ekki sagt að mig langi í hamborgara aftur eftir að hafa séð þessa mynd. Ég hugsa að maður þurfi að leita með logandi ljósi að fæði sem er næringarsnauðara og meira ávanbindandi en skyndibitar. Ekki furða að við verðum bara stærri og stærri.
Kannski ágætt að sjá þessa mynd svona eftir allt páskaátið, kannski auðveldara að standa sig þegar maður lofar sjálfum sér bót og betrum með bættum lífsstíl.

Ef þið hafið ekki séð þessa mynd, mæli ég með að þið horfið á hana.
Skál í grænu tei.
Anna Dóra

Thursday, March 20, 2008

Í gær fékk ég fullt af fullorðinsstigum=) Ég fór á fund í bankanum þar sem ég ræddi við þjónustufulltrúa um sparnað og eftirlaunasjóði og hvar væri best að fjárfesta fyrir framtíðina. Vonandi eru peningarnir mínir farnir að vaxa því varla gera þeir það heima. Hvað er málið með þessa verðbólgu? Ef ég á að vera hreinskilin þá er ég búin að vera að bíða eftir þessu, það er ekki eðlilegur lífstíll á Íslandi í dag, allir þurfa að eiga flottan bíl, flott hús, ég meina hver á eftir að muna eftir Jóni fyrir bílinn eða húsið, ég bara spyr. Held að íslendingar ættu aðeins að hægja á í lífsgæðakapphlaupinu, líta í kringum sig og spá í það hvort það sé þess virði. Hvað er þetta með að gera nýjan veg inn að Þingvöllum og eiga á hættu að þeir verðir teknir af heimsminjaskrá UNESCO, er ekki frekar að reyna að koma fleiri stöðum inn á heimsminjaskrá, þetta er svo sérstakt land sem við eigum, það á sér engann líka.
Læt reiðilestri mínum lokið í bili
Gleðilega páska

Friday, March 14, 2008

Afmælisprik dagsins fær Sigrún litla frænka mín, litla dýrið er tvítug í dag. Ég get sagt ykkur að hún á sætasta hvolp í heiminum, ég sá myndir af honum á heimasíðu strákanna og er ástfangin.
Annars er ekki mikið um að ske hjá mér. Ætla til Växjö á morgun og hitta Jessicu, við ætlum að luncha saman, líklegast sushi, mmm hvað ég hlakka til og að sjálfsögðu kíkja aðeins í skóbúðir, kominn tími á að kaupa nýja skó fyrir vorið. Veit ekki af hverju ég leita að skóm hérna, ég verð alltaf bara fyrir vonbrigðum þegar ég finn ekki neitt.
Jæja ætla að láta þetta duga í bili.
puss og kram
Anna Dóra

Sunday, March 02, 2008

Ætli þetta þýði að ég þurfi að hafa áhyggjur? Var að hreinsa til í skápunum hjá mér og henda gleri. Meirihlutinn var tómar bjór-, bacard-i og vínflöskur. Það var reyndar orðið langt síðan ég fór með gler síðast í endurvinnsluna en 2 fullir pokar og annar bara undan áfengi hmmmm.
Byrja að vinna aftur á morgun, fór reyndar í vinnuna á föstudaginn því ég skuldaði einni vinkonu minni vakt. Um kvöldið fórum við svo nokkur úr vinnunni á pöbbarölt og ég sá nokkra þekkta svía. Síðasti hlutinn af Melodifestivalen var í Karlskrona á laugardaginn (forval fyrir eurovision).
Jæja læt þetta nægja í bili
kveðja
Anna Dóra

Tuesday, February 26, 2008

Ég er í vikufríi, mmmm yndislegt ekki satt. Ætla bara að njóta lífsins, læra, hjálpa Jessicu að flytja, djamma pínu. Er pínu leið yfir að besta vinkona mín sé að flytja, núna er ekki lengur bara hlaupið í næsta hús til að horfa á eina ræmu, nei núna þarf aðeins meira skipulag. Reyndar er bara rúmur klukkutími til Växjö en við þurfum báðar að vera í fríi.
Núna eru Svíarnir búnir að draga sig úr kafbátabjörgunaræfingunni í Noregi =( það virðist sem það sé hætt við allar æfingar sem ég er skráð í, spurning hvort ég eigi að fara að taka þessu persónulega?
Jæja best að fara að koma sér af stað, er að leita mér að skóm, bara venjulegum skóm, er orðin þreytt á að vera alltaf í hlaupaskónum eða stígvélum. Það er nú byrjað að vora hérna.

Bið að heilsa í bili
Kramisar

Monday, February 18, 2008

Ég hlakka svo til á morgun. Við vinkonurnar ætlum að eyða deginum saman. Jessica er að flytja til Växjö núna í lok mánaðarins þannig að við ákváðum að fyrst við erum allar í fríi að fara í spa. Við ætlum að byrja daginn í Ronnebybrunn, skella okkur í gufu, pottinn, jafnvel að fara í tækin og borða hádegismat þar. Síðan erum við búnar að panta borð á veitingastað og ætlum svo að enda á að fara í bíó, ætlum að sjá Jane Austin book club. Enda daginn með stelpumynd. Hljómar vel ekki satt.
Sá annars Saw IV í kvöld, er reyndar bara búin að sjá fyrstu myndina þarf að drífa mig í að sjá nr II og III.

Best að drífa sig í háttinn

Friday, February 15, 2008

Hæ hæ, fékk frekar leiðinlegar fréttir í vikunni. Jamm, haldiði ekki að það sé búið að fresta Finnlandsferðinni minni =( við vorum víst bara 3 sem vorum skráð héðan á námskeiðið og það var víst of lítið. Ég sem er búin að æfa og æfa fyrir þetta. Síðasta föstudag skelltum við okkur í sund til að æfa okkur í að halda niðri í okkur andanum og ég gat flotið í rúma mínútu með höfuðið undir vatni, ekki slæmt eða hvað?
Annars er allt svosem við það sama, ég á fyrra frí, sem þýðir sumarfrí í júlí, ég er reyndar ekki búin að ákveða hvort ég ætli að taka sumarfrí í sumar. Veit ekki alveg hvað ég vill í augnablikinu, en það er svosem ekki nýtt heldur þegar ég á í hlut.

Hvernig er það er einhver sem les þetta blogg? Veit ekki hvort ég eigi að halda áfram að blogga, hvað segið þið?
kveðja
Anna Dóra

Tuesday, February 05, 2008

Komin heim frá stórborginni. Fyrstu nóttina gisti ég í fangaklefa sem var 6 m2 og við sváfum í koju. Við gistum á Långholmen sem er elsta fangelsi Svíþjóðar (búið að breyta því í farfuglaheimili og hótel) ekkert smá fínt þó svo að það hafi verið fullþröngt að búa 2 í þessu litla rými. Kúrsinn var síðan í Såstaholm í Täby fyrir utan Stokkhólm, á gömlum herragarði, þarna bjuggu fátækir leikarar hér áður fyrr (þeir áttu að geta búið fínt og sinnt sköpunargáfunni þrátt fyrir peningaleysi). Þetta er með þeim fínari hótelum sem ég hef gist á. Í kjallaranum eru þeir búnir að gera herbergi sem kallast svo viðeigandi backstage, þar sem eru hellingur af búningum og hárkollum, singstar o.fl. og hver haldiði að hafi komið partýinu af stað annar en Doris með að syngja Diggiloo diggiley og svo tóku Svíarnir við. Partýið endaði síðan í gufubaði og fórum við í háttinn um 2leytið og síðan byrjaði kúrsinn aftur kl 8:30, ég var pínu þreytt þann daginn. Eftir kúrsinn fór ég svo til Uppsala og gisti hjá Jóu minni til sunnudags. Við fórum í 6 ára afmæli hjá Guðfinnu og spjölluðum út í eitt. Með öðrum orðum yndisleg helgi.
Jæja ætla að láta þetta duga í bili, verð að fara að taka mig til fyrir vinnuna, er að spá í að kaupa mér thaimat á leiðinni.......
kveðja

Monday, January 28, 2008

Þá er skólinn byrjaður og hann leggst bara vel í mig. Skólinn er á fimmtudögum aðra hverja viku og ótrúlegt en satt stangast hann ekki á við allt annað sem ég er að gera í vor. Vitið þið hvað er það besta með námskeiðið, Caroline vinkona mín er líka á því, við erum annars 3 af svæfingunni sem er mjög fínt, við erum alla vega búnar að ákveða að gera lokaverkefnið saman. Skemmtilegt í skóla þegar maður er smá vinahópur, mun skemmtilegra en að vera einn ekki satt.
Er að fara í kertapartý til Caroline á eftir, söluhittingur, ætli það eigi ekki að reyna að pranga á mann kertum og kertastjökum. Sem betur fer er ég að fara á næturvakt síðan, get barasta laumast út. Á miðvikudagskvöldið flýg ég svo til Stokkhólms, fer á námsstefnu um svæfingagasið sem við notum á fimmtudag og föstudag. Á föstudaginn eftir námskeiðið fer ég svo beint til Uppsala, fæ far með henni Guðrúnu minni, hún keyrir mig til Jóu minnar þar sem ég ætla að eyða helginni með henni og gormunum hennar. Við ætlum m.a. að skella okkur í 6 ára afmæli til hennar Guðfinnu Ósk og ég get lofað ykkur því að það verður mikið spjallað og hlegið þessa helgina.
Nei ætli það sé ekki best að fara að koma sér í dagsverkið, afþýða frystinn, er búin að vera að byggja upp kjark í morgun.
Bið að heilsa

Sunday, January 20, 2008

Ok við unnum Slóvaka, það verður spennandi að sjá hvað gerist í kvöld. Ég hef sjaldan verið ánægðari með að vera í sama riðli og Svíar. Why spyrjið þið ábyggilega, jú Svíarnir eru að sýna alla leiki í riðlinum, þannig að sumir verða þokkalega fastir við imbann kl 18 að staðartíma.
Af öðru þá var ég að uppgötva búktalara sem heitir Jeff Dunham, kíkið á þetta, hann er yndislegur, kíkið endilega á fleiri klipp með honum.

Þegar hann hrópar Silence, I kill you, priceless.

Kveðja
Anna Dóra

Thursday, January 17, 2008

Spennandi kvöld framundan, stórleikur í handboltanum. Ísland-Svíþjóð í D-riðli á EM í Noregi. Mér skilst að Svíarnir séu í hefndarhug, við höfum unnið/gert jafntefli í síðustu leikjunum. Verst að ég er að fara á næturvakt þannig að ég hugsa að ég þurfi að fara í vinnuna í hálfleik svo ég missi nú örugglega ekki af leiknum.

ÁFRAM ÍSLAND

kveðja
Anna Dóra

Tuesday, January 08, 2008

Vá hvað það er mikið um að ske hjá mér þessa dagana. Á morgun er ég að fara á þyrluæfingu, við ætlum að æfa að síga í myrkri ( I know ekkert smá gaman). Í byrjun mars fer ég svo á aðra þyrluæfingu að læra að bjarga mér úr þyrlunni ef hún skyldi lenda á vatni. Sú æfing verður í Finnlandi og ég fer með Josefin vinkonu minni=) Við ætlum að byrja að synda x1 í viku og æfa okkur í að fara í kollhnísa í kafi, aðeins að venja okkur við að fá vatn í nefið.

Annars er svosem ekki mikið annað um að vera hjá mér. Bara þetta sama venjulega.
Vona að öllum líði vel.
kveðja
Anna Dóra

Sunday, January 06, 2008

Fyrsta blogg ársins.
Mikið var ég glöð þegar ég vaknaði í morgun. Það byrjaði að snjóa í gærkvöldi og í morgun lá ca 5 cm nýfallinn snjór yfir öllu. Skrýtið eins og ég þoli ekki kulda/vera kalt þá elska ég snjó. Það hlýtur að vera vegna þess hversu mikið hann lýsir upp skammdegið. Ekki grátt/svart og myglulegt úti heldur hvítt og bjart=)
Annars er svosem ekkert að frétta, var heima á Íslandi um áramótin, hitti bæði vini og ættingja og hafði það almennt mjög gott. Kom svo hingað heim aðfaranótt laugardags og er búin að vera að vinna um helgina þar sem var aldrei þessu vant mjög rólegt.

Bið að heilsa í bili
kveðja
Anna Dóra