Wednesday, December 31, 2003

Halló halló
Ætlaði bara að óska ykkur gleðilegs árs og ég vona að þið hafið það sem allra best og farið varlega með flugeldana
Anna Dóra

Tuesday, December 30, 2003

Ótrúlegt bara einn dagur eftir af árinu, hver hefði trúað því að ég ætti eftir að gera allt sem ég gerði á árinu, tók stærðarskref með því að flytja að heiman og ekki bara að heiman heldur út í heim, kannski er ég loksins að fullorðnast þó svo mér finnist ég nú alltaf 18. Ég er alla vega mjög sátt, loksins er ég að hugsa um mig og geri það sem ég vil, þegar ég vil (ekki illa meint pabbi og mamma ég hafði það mjög gott heima). En þetta er það sem skiptir máli því ef maður er sáttur við sjálfan sig þá líður manni vel.
Fór annars í bíó í dag á Lord of the rings og Svíarnir hafa ekki tekið upp þennan séríslenska sið að hafa hlé á myndinni, svo af því að maður vill nú ekki missa af neinu hélt ég að ég myndi pissa niður, hefði betur sleppt gosinu, en nóg um það, myndin var frábær.
bless í bili

Monday, December 29, 2003

Sæl öllsömul, jú það hafðist, ég fór í rétt flug núna hahahahahaaaa:-)
Annars verð ég að segja ykkur smá draugasögu, þegar ég kom heim úr vinnunni í dag kl 16 tók ég eftir því að það hafði verið hreyft við ýmsu í íbúðinni hjá mér frá því ég fór um morguninn. T.d. var búið að taka póstinn upp af gólfinu, draga sturtuhengið fyrir sturtuna, glas sem var í stofunni var komið í vaskinn, rúmið umbúið (sem ég nennti ekki hálfsjö þegar ég hljóp í strætó) og bolur sem var á sófanum fann ég svo undir sænginni. Mér sem var frekar brugðið (náttúrulega alin upp í íslenskri álfa- og tröllatrú ) hugsaði um sænska búálfinn sem mér var sagt frá fyrir jólin og hugsaði sem svo að hann hlyti að hafa komið í heimsókn til mín nema það sé einhver feiminn húsdraugur hjá mér þó svo að ég hafi ekki orði vör við hann áður þar til ég sá það ......... bréfið á ferðatöskunni minni (já ég var ekki búin að ganga frá henni) það var frá leigusalanum þar sem hún skýrði frá því að hún skildi sýna ibúðina kl 15 (ég náttúrulega í vinnunni og hafði enga hugmynd um þetta) og svo að þessi skoðandi hefði tekið íbúðina (greinilega horft framhjá ferðaþreyttum íbúanum sem ætlaði að ganga frá öllu í dag) þannig að nú slepp ég við að borga 2falda leigu. Hugsið ykkur samt kellan bara ryðst inn og tekur til hjá manni til að sýna íbúðina, ég vissi að það stæði til að sýna íbúðina en ekki að það myndi gerast fyrr en á nýju ári, hefði reyndar viljað vita af því sjálf svona fyrirfram og ganga sjálf frá mínu dóti, skil ekki afhverju kellan hringdi ekki í mig í vinnuna til að láta mig vita frekar stuttur fyrirvari hjá henni, að lauma bréfi inn snemma morguns og taka sénsinn á því að einhver verði heima eða ekki heima. En svona er líklega hinn harði heimur leigusalans líkt og skátans, ávallt viðbúinn að draga inn nýja leigjendur.
Draugakveðjur
Anna Dóra

Friday, December 26, 2003

Jæja þetta er búið að vera stutt en engu að síður skemmtilegt, búið að borða mikinn og góðan mat, hitta vini og ættingja en þó alltof fáa, jólaboðið sem ég átti að vera í núna var frestað vegna þess að móðurfjölskyldan mín ákvað að leggjast í flensu þessi jól þannig að ég bið nú bara að heilsa ykkur öllum í bili. Forrétturinn er kominn á borðið, rauðvín og ostar, hreindýrið í ofninn og nú er kallað á mig í eitt Skrabbl fyrir matinn. Flugið tekið snemma á morgun og svo allt sett í startholur fyrir flutninginn svo ég geti farið að taka á móti vinum og ættingjum sem koma til Karlskrona. Sjáumst hress og kát á nýju ári
Gleðileg jól
Anna Dóra jólabarn

Monday, December 22, 2003

It's beginning to look a lot like Christmas........ í nótt snjóaði og snjóaði þannig að það er orðið mjög jólalegt hérna heima og þá er bara að vona að þetta haldi yfir jólin. Það er rosalega gaman þegar maður kemur svona heim í stutt stopp, maður fer og hittir vini og ættingja, ekki mjög afslappandi kannski en rosalega skemmtilegt. Á morgun ætla ég í þorláksmessurölt á Laugarveginn með púkanum mínum og við ætlum að athuga hvort við rekumst á einhverja jólasveina. Bið að heilsa í bili

Thursday, December 18, 2003

1 dagur í jólafrí
Á morgun flýg ég heim í jólafrí og verð heima í 8 daga. Ég hlakka til að hitta alla enda held ég að næstum hver mínúta sé skipulögð, en það er bara betra, er meira að segja búin að versla allar jólagjafir svo ég þurfi ekki að eyða tímanum í það líka. Jæja, þetta er bara stutt í dag, ætla að fara að pakka niður og svo verður farið snemma að sofa, á lest 6:30 í fyrramálið.
Sjáumst bráðlega

Wednesday, December 17, 2003

2 dagar í jólafrí
Í dag var julbord í vinnunni, og var mér sagt að þetta væri dæmigert julbord eins og Svíarnir snæða á aðfangadagskvöld, þið verðið bara að fyrirgefa mér en mér fannst það nú bara ekkert jólalegt, það eina sem mér fannst nálgast jólamat var svokölluð jólaskinka, grjónagrautur og síld (sem er náttúrulega ómissandi á jólahlaðborði). Annað fannst mér frekar skrýtið og hversdagslegt eins og kjötbollur, kokteilpylsur og einhverskonar gratíneraðar kartöflur með einhverjum kjötbitum. Þá finnst mér nú íslenska jólahlaðborðið mun betra þó svo að Svíunum finnist hversdagslegt að vera með hamborgarahrygg þá finnst mér það mun jólalegra en kjötbollur og kokteilpylsur. Fyrir utan að mér fannst vanta malt og appelsín!!

Monday, December 15, 2003

4 dagar í jólafrí
Ég er númer 1 á biðlista fyrir skólann, fékk bréfið í dag. Núna er bara að bíða og sjá hve margir þiggja námsplássið sem þeim var úthlutað og hvort ég komist þá inn í staðinn. Annars eru að renna á mig 2 grímur í sambandi við námið, ekki það að ég vilji ekki læra svæfingahjúkrun alls ekki, það er bara að núna er ég að læra svo mikið inni á HIA en svo veit ég líka að ég get hvorki fengið né lært allt. Annars ætla ég að tala við deildarstjórann minn á morgun og sækja um námsleyfi og námsstyrk. Svo er það að Guðrún komst inn þannig að auðvitað væri mikið skemmtilegra ef við gætum lesið saman, þannig að ég ætla að halda minni stöðu á biðlistanum og sofa á þessu yfir jólin.

Saturday, December 13, 2003

6 dagar í jólafrí
Þá er Luciudagurinn langt liðinn, ég var þerna í Luciulestinni, þ.e. ég var með glimmerskrautborða í hárinu og hélt á ljósi og leiddi gönguna á eftir Luciunni. Það var mjög gaman að taka þátt í þessu, þetta var eitthvað svo hátíðlegt þegar hersingin (við vorum 12) kom svífandi inn til sjúklinganna syngjandi Santa Lucia, gamla fólkið varð svo himinlifandi yfir þessu uppátæki. Svo höfðum við 3 litla tomtenissa. Á eftir settist svo starfsfólkið niður saman og fékk sér lussekatta (sérstakar saffranbollur bakaðar af þessu tilefni), piparkökur og glögg. Síðan tók alvaran við og við snérum okkur að störfum dagsins. Ég ætti kannski að taka fram að ég söng ekki með þar sem það eina sem ég kunni úr textanum var santa lucia. Versta var að ég gleymdi myndavélinni heima en það reddast þar sem það voru fleiri með myndavélar og ég fæ að taka eftir filmum hjá þeim.

Friday, December 12, 2003

Vika í jólafrí
Á morgun er Luciudagurinn og ég mæti kl korter í sex í vinnuna til að taka þátt í Luciulestinni, þ.e. ég ætla að fylgjast með og kannski taka myndir. Ég er búin að vera alveg rosalega dugleg í kvöld og baka smákökur sem ég ætla svo að taka með mér í vinnuna, maður þarf nú að sýna svíunum hvað við gerum á Íslandi. Það er partý í húsinu á móti mér og þar eru einhverjir með gítar að spila og syngja þannig að ég er búin að vera með einkatónleika með kökubakstrinum. Það varð nefnilega óþægilega heitt þegar ég fór að baka þannig að ég opnaði út á svalir og það er eins og ég sitji á fyrsta bekk á tónleikum með Bítlunum, Simon & Garfunkel, Roxette og ýmsum fleirum, ekkert nema skemmtilegt.
Ætla að bjarga kökunum úr ofninum, bless í bili

Thursday, December 11, 2003

8 dagar í jólafrí
Hún er mín :-), heyrði í nýja leigusalanum mínum í morgun og ég fékk íbúðina og á að mæta næsta þriðjudag til að skrifa undir leigusamninginn Jibbý jibbý!! Til að halda upp á þetta ætla ég með stelpunum í vinnunni á jólaball í stúdentaheimilinu, var að hugsa um að bjóða þeim uppá ekta íslenskt djamm og kaupa skotflösku en þar sem ég gat ekki hugsað mér að drekka það sjálf ætla ég að láta það bíða þar til í innflutningspartýinu mínu sem þær eru þegar búnar að biðja um, þá get ég líka leyft þeim að heyra kónginn syngja Cant walk away þið vitið hvað ég meina. Jæja, ætla að fara að taka mig til fyrir djammið, heyrumst síðar ;-)

Wednesday, December 10, 2003

9 dagar í jólafrí
Í dag er ég mjög ánægð ung kona, hringdi sem sagt í leigumiðlunina og þau voru bara mjög jákvæð þannig að ég held að ég sé að fara að flytja núna strax í byrjun janúar. Það eru allir mjög hissa yfir því hvað þetta hefur gengið hratt því venjulega þarf maður að bíða frekar lengi eftir að fá íbúð. Þannig að ég er á leiðinni á húsgagnaútsölur í janúar. Annars hringir leigusalinn í mig aftur á morgun og þá fæ ég að vita meira.
Þar til næst

Monday, December 08, 2003

11 dagar í jólafrí
Halló halló, ég var að skoða íbúð í dag sem er í 10 mín. göngufæri frá vinnunni, 2ja herbergja 48 fermetrar sem leit mjög vel út, rúmgóð og fín. Þannig að ef ég fæ hana (það eru víst fleiri búnir að sýna íbúðinni áhuga) þá er hægt að fá hjá mér gistingu ef þið eigið leið um Karlskrona. Ég á að hafa samband við leigumiðlunina á miðvikudag þannig að núna er bara að bíða og sjá. Annars er allt fínt að frétta, búin að vera í jólagjafaleiðangri í dag og er langt komin með að versla allar jólagjafirnar, stefni á að vera búin að öllu svona áður en ég kem heim.

Saturday, December 06, 2003

13 dagar í jólafrí
Í nótt féll langþráður fyrsti snjór vetrarins, smá föl sem lá yfir öllu, ég er nú að vona að þetta haldist svona, þetta setur svo mikla jólastemmningu. Annars fór ég á jólamarkað í dag með Guðrúnu, Eiríki og Guðfinnu sem við héldum að væri rosalega flottur, það er mikið talað um hann og hann er mikið auglýstur, við urðum fyrir miklum vonbrigðum því þetta var alveg eins og markaðirnir sem við höfum verið að fara á í sumar og ekki hið minnsta spennandi eini munurinn var sá að nú var verið að bjóða jóladót. En við gerðum engu að síður mjög gott úr deginum og bökuðum sörur sem tókust að sjálfsögðu einstaklega vel.

Friday, December 05, 2003

14 dagar í jólafrí
Ég á ekki mörg orð um julfestina í gærkvöldi önnur en þau að það var alveg rosalega gaman. Þarna var samankomið starfsfólk lyfjasviðs spítalans og þegar við komum fengu allir poka með smá sælgæti og miða með upphafi jólalags sem sagði til um hvar maður átti að sitja. Ég var svo heppin að fá ég sá mömmu kyssa jólasvein, sem var eina lagið sem ég þekkti, síðan átti hver hópur fyrir sig að standa upp og syngja lagið sitt í keppni hver kæmi með besta flutninginn. Eins undarlega og það hljómar þekktu mjög fáir af mínum borðfélögum lagið og þar sem ég kunni lagið var ég spurð hvort ég gæti leitt hópinn, opnað með að syngja einsöng á íslensku og svo að syngja fyrir þeim á sænsku þau hlustuðu ekki á að ég væri ekki góður söngvari, sögðu að það væri frumleikinn sem skipti máli. Að sjálfsögðu gerði ég það við mikla aðdáun viðstaddra. Það var mörgum sem brá mjög í brún þegar ég byrjaði að syngja en samstarfsfólk mitt varð víst mjög stolt yfir því að geta sagt að ég væri að syngja á íslensku og ynni með þeim. Ég var stjarna kvöldsins og fólk kom endalaust til mín og hrósaði mér fyrir hvað ég hafi sungið vel (þið getið ímyndað ykkur hvað þau voru búin að drekka) ein konan kom til mín og sagði að dómnefndin hefði verið léleg, ég hefði átt að fá aðalverðlaunin ekki gestaverðlaun fyrir alþjóðlegan söng, einn maður kom til mín og sagði að sér hefði fundist íslenska útgáfan hljóma mun betur en sú sænska, vinkonur mínar af deildinni áttu ekki til orð yfir því að ég skyldi þora að standa upp og syngja fyrir framan svona stóran hóp. Þið sjáið að nú er ég byrjuð að setja merki mitt á Karlskrona.

Thursday, December 04, 2003

15 dagar í jólafrí
Halló allir saman, ég er komin í rosalega mikið jólaskap, í morgun fór ég og keypti svolítið jólaskraut til að lífga aðeins upp á íbúðina, keypti m.a. sænskan jólahest úr hálmi með rauðu skrautbandi (þetta er með því sænskasta sem ég hef séð), fyrst ég var á annaðborð byrjuð að eyða pening ákvað ég að athuga með geisladiska með jólalögum en þar sem meirihlutinn var með sænskum jólalögum sem ég þekkti ekki neitt ákvað ég að sleppa þeim í bili og láta útvarpið duga.
P.s. fékk fjögrablaða smára í dagatalinu í morgun, hver veit nema ég verði "heppin" í kvöld:-)

Wednesday, December 03, 2003

Smá mis í reikningi, 16 dagar í jólafrí
Í dag fékk ég að svæfa sjúkling í fyrsta sinn, við vorum með rafvendingu (stuða sjúkling í réttan takt) og þar sem ég bar ábyrgð á sjúklingnum kom það í minn hlut að svæfa hann eftir fyrirmælum frá svæfingalækninum, svaka gaman þannig að það má segja að ferill minn sem svæfingahjúkka sé að byrja, bara að þau í skólanum vissu hvað þetta gekk vel há mér:-)
Annars er allt gott að frétta, er að fara á julfest með vinnunni á morgun og aldrei að vita nema maður kíki aðeins á lífið í bænum á eftir?
bið að helisa í bili

Tuesday, December 02, 2003

18 dagar í jólafrí
Þó svo að það sé að líða að jólum er nú algert vorveður úti, líklega svipað og heima eftir lýsingum pabba, nema að hann ýki stórlega. Annars upplifði ég fullkominn vinnudag í dag, þannig er að einn sjúkraliðinn er lærður nuddari og þegar það er vel mannað setur hún upp lista og þeir sem vilja nudd geta skráð sig. Ég fékk semsagt nudd í dag í hádeginu og fór svo í hádegismat beint á eftir, getið þið ímyndað ykkur hvað ég var hress og endurnærð eftir hádegið, mér var meira að segja alveg sama þó ég þurfi að eyða restinni af deginum í þvottahúsinu. Mér finnst að þetta eigi að vera á öllum vinnustöðum.

Monday, December 01, 2003

Halló halló
19. dagar til þar til ég kem heim!!
Nú er maður sko kominn í jólaskap, bærinn uppljómaður með jólaskreytingum og ég "lifi" á mandarínum og piparkökum (ég held að það sé varla til jólalegra snarl) það eina sem vantar eru jólageisladiskar en það verður bætt úr því fljótlega. Ótrúlegt að það sé kominn 1. des, jólin eru bara rétt handan við hornið, skrýtið hvað árið líður alltaf hratt, mér finnst ég t.d. nýkomin hingað, samt búin að vera í hálft ár.
Bið að heilsa í bili
p.s. fékk lest í dagatalinu mínu í morgun en þið?