Wednesday, March 31, 2004

Verð að segja ykkur hvað við fengum frábæra landkynningu í kvöld. Ég var semsagt að horfa á hið sænska innlit-útlit þar sem smiður, málari og designer fara heim til fólks og endurinnrétta herbergi. Í kvöld voru þeir á Íslandi og endurgerðu stofu fyrir íslenskar stelpur, létu m.a. sauma saman 4 hreindýraskinn og gerðu gólfmottu og skrúfuðu hreindýrshorn á loftljós, þetta kom svo sem ágætlega út en það var ekki aðalmálið. Þeir heimsóttu þekkta íslenska staði eins og bláa lónið, gullfoss og geysi fengu frábært veður, fóru í réttir og margt fleira. Það besta var samt lúxushestaferðin sem þeir fóru í, þeir voru klæddir eins og víkingar og riðu um í íslensku landslagi og fóru svo á spretti niður hlíð gargandi "tungur knívur" eina setningin sem flestir svíar kunna þar sem þeir hafa séð Hrafninn flýgur. Ég hélt ég yrði ekki eldri ég hló svo mikið. Að sjálfsögðu buðu svo stelpurnar þeim á djammið og drógu þá á Sálarball á Nasa, ég verð nú að viðurkenna að ég fékk smá svona heimþrárfiðring sem var reyndar fljótur að hverfa þegar ég hugsaði um snjóinn sem er þar núna meðan ég hef verið að njóta sólarinnar.
Sólarkveðjur frá Karlskrona, sem veit aðeins meira um Ísland
Anna Dóra

Tuesday, March 30, 2004

Byrjaði í nýjum kúrs í morgun, nú er maður komin á fullt í lífeðlisfræðina, gaman að vera að læra eitthvað áþreifanlegt aftur ekki endalausar háfleygar heimspekilegar hugsanir um vårdande miljö (kann bara ekki að þýða þetta) og aðferðafræði. Er mjög ánægð með kennarann sem greinilega virðist vita hvernig hann á að koma efninu frá sér á skemmtilegan og skilningsríkan hátt (geri aðrir betur). Ég ætla nú samt að reyna að fá metna lífefðlisfræðina að heiman og fá að sleppa við prófið, ætla nú samt að mæta í tímana þeir eru nú bara einu sinni í viku þannig að það verður bara skemmtilegt.
Anna Dóra c".)

Monday, March 29, 2004

Nú er vorið komið opinberlega, aðfaranótt sunnudags var skipt yfir á sumartíma þannig að núna er ég tveim tímum á undan ykkur. Annars finnst mér nú ekkert hrikalega vorlegt eins og er, skýjað og frekar grátt en samt betra en snjórinn heima. Nú styttist í að Rúna og fjölskylda komi í heimsókn, þau ætla að vera hjá mér yfir páskana og ég er farin að hlakka mikið til. Aldrei að vita hvað gæti leynst í pokahorni hjá þeim, og hver veit nema páskahérinn heimsæki okkur.
Bið að heilsa
Anna Dóra

Friday, March 26, 2004

Jæja, það hafðist og ég er á lífi til að segja frá því. Það var mjög gaman í gær, ferðin tafðist reyndar um 2 klst þannig að ég var ekki komin heim fyrr en um 01:00, búin að vera vakandi í næstum sólarhring og rútan farin að minna meir á hóp af uppvakningum heldur en fólk. Annars var nú bara hlægilegt verðið á áfengi þarna niðurfrá, við getum sagt að það sé langt þar til við verðum edrú hér á Snapphaneväg. Við verðum þó ekki jafn slæm og alkatrashið sem var í sömu rútu og við, þau byrjuðu að drekka whisky um 06:00, drukku stíft allan daginn (held þau hafi ekki verið með í glasi akkúrat meðan þau versluðu) og voru ennþá uppistandandi og drekkandi þegar þau yfirgáfu okkur um miðnættið.
SKÁL
Anna Dóra

Wednesday, March 24, 2004

Ég er að fara í ferðalag í nótt, er semsagt að fara í "verslunarferð" til Rostock í þýskalandi með vinnufélögum mínum og við leggjum af stað kl 04:00 og komum til baka einhvern tíma fyrir miðnætti. Þetta verður svaðalega gaman. Ég fór einmitt í banka í dag til að taka út evrur, byrjaði á að fara í hraðbankann og taka út pening og svo þegar ég kem til gjaldkerans byrjar hún á að spyrja hvort ég sé búin að panta pening, ég sem kom af fjöllum neitaði því en þegar ég sagði hvaða gjaldmiðil mig vantaði þá var hún nú viss um að eiga hann til. Ég rétti henni því peninginn og þá segist hún ekki taka við honum, hún dragi þetta beint útaf reikningnum hjá mér, ég hef nú sjaldan orðið jafn forviða en fékk engu að síður evrur og ætla að skemmta mér konunglega á morgun.
Auf wiedersehen
Anna Dóra

Monday, March 22, 2004

Þá er ég búin að kynna verkefnið mitt og fékk eiginlega bara jákvæða gagnrýni, þannig að núna næstu daga fer ég yfir verkefnið og breyti aðeins og bæti það áður en ég skila því endanlega, samt er mín tilfinning sú að allir fái staðið fyrir verkefnið sitt- sem er bara besta mál-
Er að fara á eftir að "fika" með stelpum úr vinnunni sem er eitt mjög sænskt hugtak, að "fika" er semsagt notað t.d. þegar maður hittist yfir kaffi, held ég eins og við lítum á okkar saumó, en mér finnst það eiginlega heilagt hugtak í vinnunni að fara og "fika" sérstaklega á morgnana þegar allir verða að fá morgunkaffið sitt.
Með "FIKA" kveðju, Anna Dóra

Sunday, March 21, 2004

Jæja þá er það komið í ljós hver mun verða fulltrúi Svía í Istanbúl, ég hélt nú reyndar ekki með sigurvegaranum og fannst eiginlega ótrúlegt að Svíarnir skildu velja atriði sem var hálfgerður súludans C",) Mér fannst nú Dolche vita ansi flottir en það voru klæðskiptingar sem sungu ansi hresst og skemmtilegt lag og voru langflottastir á sviðinu en það hefur kannski farið fyrir brjóstið á mörgum svíanum. Hvað um það þá er þetta ansi hresst lag, þið getið hlustað eða downloadað því af www.telia.se og dæmt sjálf.
Höldum okkur í schlagergírnum- det är så ont......
Anna Dóra

Saturday, March 20, 2004

Í kvöld er komið að því, lokabaráttan um hver fái að stíga á svið fyrir hönd Svía í Istanbúl í maí. Sorglegt að það er ekki lengur svona forkeppni fyrir eurovision á Íslandi, bara ákveðið hver á að fara og hvað hann á að syngja!!Ég spái pottþéttu kvöldi framundan, búið að bjóða mér í fyrsta grill ársins (get ekki beðið, sérstaklega þar sem ég má ekki grilla á eigin svölum), og svo verður fylgst með keppninni, smá æfing fyrir Eurovision. Las annars á mbl að íslenska lagið verði kynnt í kvöld, það er bara að vona að Jónsi standi sig.
Schlagerkveðjur frá SchlagerSverige
Anna Dóra

Friday, March 19, 2004

Adam var ekki lengi í paradís. Eftir einstaklega gott veður undanfarna daga ákváðu veðurguðirnir að nú þyrfti að vökva aðeins gróðurinn svo hann spretti betur. Alveg var þetta dæmigert þar sem við stelpurnar erum allar í fríi í dag og vorum búnar að plana að fara út og njóta góða veðursins, jafnvel að grilla pylsur og fagna vorinu, það verður bara að bíða betri tíma.
Hvað haldiði annars að þeim á leigumiðluninni hafi dottið í hug að gera í dag, á föstudagsmorgni kl 07:00 jú að senda menn til að hreinsa vifturnar í öllum íbúðunum, þetta hefði nú ekki gerst ef ég hefði verið við stjórnvölinn, nei ég hefði látið þá annaðhvort koma einhvern annan dag eða a.m.k byrja seinna.
Kveðja úr hreinu íbúðinni í Karlskrona
Anna Dóra

Tuesday, March 16, 2004

Nú er að byrja að vora fyrir alvöru, samkvæmt veðurfregnum á hitastigið að fara að aukast um allt land- gott mál- brumin reyndar byrjuð að springa út fyrir löngu. Ég er eins og hinir Svíarnir aðeins farin að huga að vorverkunum, mín vorverk liggja reyndar ekki í því að róta í mold og gera garðinn fínan fyrir vorið eins og flestra, ég er búin að taka út hjólið mitt og láta pumpa í dekkin og farin að viðra það. Þvílíkur munur, kemst núna mun hraðar yfir og fer mun lengra en ég myndi gera fótgangandi.
Bestu kveðjur á fullum farti úr vorinu
Anna Dóra

Saturday, March 13, 2004

Verð að segja ykkur frá einu ansi góðu sem ég sá í dag. Ég skrapp út í búð að versla hjá allaballa félaga mínum (sú búð sem er næst mér er rekin af útlendingum og þar má fá ýmsar vörur sem ég hef ekki hugmynd um hvað er þar sem textinn er á arabísku) alla vega rekst ég á uppstillingu af niðursoðinn mat sem hét DROGAR KVALITETS KJÖTT þar sem drog er eiturlyf á sænsku sá ég fyrir mér auglýsingu niðursoðið gæða dóp:-S sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur, enda veit ég ekki hvað starfsfólkið hélt þegar það sá mig gangandi um búðina með þetta líka sólheimaglottið.
DROGAR FRÍAR KVEÐJUR FRÁ KARLSKRONA
Anna Dóra

Friday, March 12, 2004

Ég er búin að sjá það að ef allt annað bregst, get ég alltaf farið út í bisness hérna og selt lakkrís. Ég hef stundum farið með íslenskan lakkrís í vinnuna þegar ég hef átt svoleiðis góðgæti og samstarfsfólk mitt er alveg vitlaust í lakkrísinn, þau höfðu til dæmis aldrei smakkað áður lakkrís og súkkulaði í sama bitanum og fannst það góð blanda. Ég hef fengið pantanir og er oft spurð hvenær ég fari næst til Íslands því þau myndu nú gjarnan vilja smá þrist eða annað álíka góðgæti.
Með sælgætiskveðju
Anna Dóra :-P

Tuesday, March 09, 2004

Það voru að koma Suður-afríkanskir hjúkrunarfræðingar í skólann sem eru eins og ég í framhaldsnámi og ég og Guðrún ákváðum að verða við bón kennarans um að verða stuðningsaðilar fyrir einhvern þeirra. Við fengum reyndar 2 nema, strák og stelpu. Ég er viss um að þetta geti orðið mjög fróðlegt og skemmtilegt þar sem við komum frá svo rosalega ólíkum menningarheimum, ég man nú ekki hvaða þjóðbálki hann tilheyrir en hún er Zulu kona, og það fyrsta sem mér datt í hug var Chaka Zulu þættirnir sem ég sá á stöð 2 einhvern tíma í den og man að það var mikið gert úr þessum stríðshetjum. Ég er þó viss um að hlutirnir hafi breyst mikið en þetta verður fróðlegt og skemmtilegt
Bið að heilsa í bili, Anna Dóra

Sunday, March 07, 2004

Ég get svarið það, ég er farin að halda að maðurinn á neðri hæðinni sé annaðhvort helgarpabbi eða að kærastan hans og hundurinn komi í heimsókn á hverjum föstudegi. Ég get næstum stillt klukku eftir því að um sjöleytið á föstudögum byrjar hundurinn að gelta og geltir frameftir kvöldi, síðan heyrist ekki meir í hundspottinu alla vikuna :-S
Annars vona ég að veðurguðirnir verði góðir við ykkur þessa vikuna, Caroline vinkona mín er stödd á Íslandi og verður út vikuna og er eins og sannur túrhestur búin að plana ýmsar ferðir innanlands sem eru náttúrulega skemmtilegri ef maður þarf ekki að berjast við suðaustan 10 m/sek og rigningu c",)
Bið að heilsa úr vor"blíðunni" héðan í Karlskrona
Anna Dóra

Friday, March 05, 2004

Það er ekki annað hægt að segja um Svíana en að þeir séu fyndnir. Mottóið er greinilega að styðja sænskan iðnað sem er náttúrulega bara gott mál, ekki mikið af innfluttum vörum í búðahillunum- sérstaklega ekki frá USA þannig ýmsar vörur sem maður þekkir að heiman eru ófánalegar hérna. Svo eru þeir alveg jafn sjálfsmiðaðir þegar kemur að sjónvarpsefni, það verður eitthvað vinsælt úti í heimi þá gera þeir sína eigin sænsku útgáfu. Get bara nefnt dæmi eins og Bachelor, Survivor (Robinsson á sænsku) og svo nú það nýasta, Queer Eye þættirnir um hina frábæru 5 amerísku homma var frumsýndur með sænskum strákum í gær. Þeim tekst svosem ágætlega upp og þetta er kannski hægt þar sem þjóðfélaðið er örlítið stærra en á Íslandi en fyndið engu að síður.
Kveðja frá raunveruleikasjónvarpinu í Svíþjóð
Anna Dóra

Tuesday, March 02, 2004

Garg, á ég að sjá eftir því að hafa valið að taka sumarfrí um leið og skólinn klárar í byrjun júní? Eftir að hafa velt því fyrir mér fram og tilbaka hvenær ég ætti að taka sumarfrí, eftir að skólinn er búinn eða áður en skólinn byrjar ákvað ég loksins að taka sumarfríið í júní- koma heim og spilla nýasta barninu sem verður komið í heiminn- Ágústa mín þið vitið varla hverju þið eigið von á- allavega eftir að þetta er allt komið í gegn, fæ ég tilkynningu á netinu að fyrrum bítillinn PAUL ætli að vera með tónleika í Gautaborg 12. júní, ég held að það væri svona líka þokkalega gaman að fara á tónleikana, Óskar veit alveg hvað ég er að tala um. En þar sem maður getur víst ekki klónað sig og allir búnir að sjá í gegnum mig og Rúnu þá verður Paul víst að bíða eftir öðru tækifæri til að fá að hitta mig c",)
Bítlakveðjur frá Karlskrona