Sunday, December 31, 2006

GLEÐILEGT ÁR
Farið varlega í flugeldana í kvöld, ég er með fólk sem sér um þá fyrir mig=) Hafið það sem allra best á nýja árinu, ég veit að ég ætla að gera það.
Sprengikveðja
Anna Dóra

Sunday, December 24, 2006

GLEÐILEG JÓL

Þá er aðfangadagur runninn upp, sólin skín hér í Karlskrona, ekki eitt einasta snjókorn í sjónmáli. Þið ættuð bara að vita hvað það er yndislegur ilmur hérna hjá mér, er að laga kvöldmatinn því ég ætla að eyða fyrstu sænsku jólunum mínum í faðmi vinnufélaganna=) Fer í hádeginu til Hrafnhildar í jólagraut áður en ég mæti í vinnuna kl 14. Haldiði ekki að hann Kertasníkir hafi fundið mig og fært mér eftirrétti Hagkaupa í skóinn, þessir jólasveinar eru ótrúlegir. Nei nú heyri ég að pottarnir kalla.
Hafið það gott um jólin, ég veit að ég ætla að gera það. Við ætlum að hittast Íslendingarnir hérna á annan í jólum og snæða hangikjöt, ég fæ vatn í munninn bara við tilhugsunina.
Jólakveðja
Anna Dóra




Thursday, December 14, 2006

Vá hvað ég er fegin að ég bý ekki í einhverjum "klám"stað hér í Svíaríki. Í blaðinu í morgun var frétt um að íbúar margra staða séu orðnir þreyttir á að fá klámfengin svör þegar þeir segjast hvar þeir búa og vilja að staðurinn/bærinn skipti um nafn. Þeir völdu nú að búa þarna só.... viljiði fá smá prufur og lauslega þýðingu!!

Hvernig þætti ykkur að búa í:
Onansbygd: sjálfsfróunarbæ
Bögholmen: hommahólma
Sextorp: þýðing óþörf
Snopptorp: typpaþorp
Trekanten: já.....
Porris: klammari
Klitten: snípur

Eða synda í:
Kåtaträsket: graðamýrin
Rumpsjön: rassavatn

Eða klífa
Snålkuk: nískt typpi
Liggaberget: já þið fattið...

Eða fara og skoða
Runkesten: held þið skiljið.....
Stjärtnäs: rassnef

Fyrst ég er byrjuð í klámbransanum vitiði hvað klámnafnið ykkar er? Þið takið nafnið á fyrsta gæludýrinu ykkar og föðurnafn mömmu ykkar. Ég hugsa að ég myndi ná langt í klámbransanum bara út frá nafninu MIMI OLAFS eða hvað haldið þið. Endilega deilið klámnafninu ykkar með mér, veit reyndar ekki hvað maður gerir ef maður hefur aldrei átt gæludýr.

10 dagar til jóla og 15 dagar þar til ég kem heim
puss o kram

Thursday, December 07, 2006

Hvernig viðheldurðu léttleika lífsins?

1. Notaðu hádegishléið þitt vel, sittu í bílnum með sólgleraugu. Bentu með hárblásara á bílana sem keyra hjá og athugaðu hvort einhver hægi á sér.

2. Hringdu í skiptiborðið í vinnunni og biddu þau um að láta kalla þig upp. Ekki reyna að breyta röddinni.

3. Þegar einhver biður þig um hjálp. Svaraðu: það er ég sem bið þig um hlutina.

4. Í hvert skipti sem einhver biður þig um að gera eitthvað, spurðu hvort hann vilji franskar með því

5. Settu ruslafötuna upp á borð og settu miða á hana: Inbox

6. Skelltu koffeinlausu kaffi í kaffisjálfsalann í vinnunni. 3 vikum síðar þegar allir eru komnir yfir koffeinfíknina skiptu þá yfir í expresso

7. Skrifaðu Fyrir kynlífsgreiða sem útskýringu þegar þú borgar reikningana þína.

8. Endaðu allar setningar á Samkvæmt spádóminum

9. Ekki nota punkt

10. Hoppaðu í staðinn fyrir að ganga, eins oft og tækifæri gefst.

11. Spurðu fólk hvers kyns það er, hlæðu þig máttlausan þegar þau svara

12. Taktu fram þegar þú pantar í bílalúgu að þú ætlar að taka það með þér

13. Syngdu með óperunni

14. Skelltu þér á ljóðakvöld og spurðu svo af hverju það sé enginn taktur í ljóðinu.

15. Hengdu upp mýflugnanet kringum skrifborðið þitt og spilaðu frumskógatónlist allann daginn.

16. Láttu vini þína vita með 5 daga fyrirvara að þú komist ekki í partý til þeirra þar sem þú sért með höfuðverk.

17. Biddu vinnufélagana að kalla þig Gladiatornafninu þínu Rock hard

18. Þegar þú tekur út peninga úr hraðbankanaum hrópaðu: Ég vann, ég vann þetta er í þriðja skiptið í vikunni

Verið hress, ekkert stress og bless bless
Anna Dóra

Friday, December 01, 2006

Ótrúlegt þetta veður. Það er 1. des og það er um 10°C. Er í fríi í dag, loksins, búin að vera á kvöldvöktum alla vikuna. Ætla að skella mér upp til Kalmar, kíkja í uppáhaldsbúðina mína IKEA og vonandi á jólamarkaði sem er haldinn í kastalanum. Mig hefur langað á þennan jólamarkað síðan ég flutti hingað en það hefur aldrei orðið neitt úr því.

Afi á afmæli í dag, 90 ára ég hringdi í gær í m+p og bað þau að skila kveðju frá mér. Ég verð bara knúsa hann þegar ég kem heim.
Hrafnhildur á líka afmæli í dag, til hamingju með daginn=)

Býð spennt eftir jóladagatalinu sem mamma sendi mér í póstinum, súkkulaði að sjálfsögðu.
Afmæliskveðja
Anna Dóra

Monday, November 20, 2006

Biðst afsökunar á því hversu sjaldan ég blogga núorðið, ekki svo mikið um að ske hjá mér.
Nema núna, ég er búin að fá fastráðningu við spítalann =) ekkert smá ánægð með það.
Fór á jólamarkað um síðustu helgi, keypti reyndar ekki mikið en smakkaði þeim mun meira af brauði, osti, pylsum og glænýjum brjóstsykri. Fór með 2 pæjum úr vinnunni, gaman að hittast fyrir utan vinnuna. Síðasta föstudag fór ég svo með vinnunni á hyttsill, þá borðar maður jólahlaðborð í húsinu sem þar sem þeir blása gler. Ótrúlegt hvað það lítur út fyrir að vera auðvelt en það er greinilega heilmikil vísindi á bakvið glerblástur. Á laugardaginn var ég svo boðin heim til Josefin og við borðuðum krabbakjöt. Þetta er sænsk hefð sem er venjulega snemma á haustin en þar sem ég var ekki heima í september og svo höfum við ekki átt helgarfrí samtímis fyrr en núna ákváðum við að slá til. Ég hef ekki borðað þetta áður, en vá hvað þetta var gott. Krabbinn (kräftan) er fyrst soðin og síðan látin liggja í dill og saltlegi áður en það er borið fram. Þarna sat ég, reif halann af þeim og át og smjattaði svo á klónum.
Kem heim um áramótin, verð heima í 10 daga. Reyndar ekki búin að kaupa miða, er enn að bíða eftir vinnuskýrslunni minni=(
Bið að heilsa í bili
Hugs
Anna Dóra

Friday, November 03, 2006

Íslenskt overload....

Eiríkur er að læra að kafa, í gær var hann að kafa hérna í Karlskrona inni á herstöðinni. Þar sem það er alltaf svæfingahjúkka með þegar þeir æfa svona frítt uppstig, bað ég um að fá að vera með, og fékk það. Mér fannst þetta ekkert smá gaman, ímyndið ykkar bara að horfa á unga menn á sundskýlunni í 5 klst og fá borgað fyrir það=) Við erum nú þar af öryggisástæðum ef eitthvað skyldi koma uppá. Þegar þeir voru svo farnir fylgdist ég með þegar það var verið að meðhöndla einn sjúkling í háþrýstiklefanum, mjög spennandi og lærdómsríkur dagur. Hvað haldiði svo, mamma og pabbi ætla að koma í stutta og mjög óvænta heimsókn, koma á morgun og fara á þriðjudagsmorgun. Ég er náttúrulega búin að senda óskalista heim. Eiríkur kom nefnilega með jólaöl/appelsín og harðfisk, ég fór út að borða með strákunum á miðvikudagskvöldið og svo þegar ég kom heim var lyktin af harðfisknum svo ómótstæðileg að ég sat og smjattaði á harðfisk og sötraði jólaöl með. UMMMMMMM.... ég fæ gæsahúð þegar ég hugsa um það, hrikalega gott. Ég bað mömmu um að koma með meira jólaöl/appelsín.
Jæja ætla að fara að hringja og panta tíma fyrir dekkjaskipti, reyna að nota pabba meðan hann er hérna.
Kveðja úr frostinu í Karlskrona
Anna Dóra

Sunday, October 29, 2006

Vá hvað ég er stirð í dag, prófaði pilatesleikfimi í gær, ef ég get hreyft mig á morgun verð ég mjög glöð. Annars var þetta ekkert smá góð leikfimi, get alveg mælt með því að prófa hana.
Var í Malmö á föstudaginn á vinnutengdum fyrirlestrum, ekkert smá gaman og áhugavert. Dagurinn endaði á fyrirlestri þar sem nokkrir læknar voru að segja frá reynslu sinni að vinna í Ástralíu, og USA. Ég verð nú að viðurkenna að ég var alveg til í að fara til Oz og vinna en eftir að hafa hlustað á þá og fengið staðfest að það eru engar svæfingahjúkkur þar, læknaðist þessi baktería mín. Er reyndar að hugsa um að reyna að fara í heimsókn á svæfinguna heima þegar ég kem heim um áramótin og sjá hvernig er unnið þar, er pínu forvitin. Reyni kannski að fá að hanga á henni Maríu minni. Mér var tilkynnt í síðustu viku að það ætti að framlengja ráðningasamninginn minn og ég held meira að segja að ég sé komin með fastráðningu við spítalann (á að gerast sjálfkrafa þegar maður er búinn að vinna í 3 ár). Einum vinnufélaga mínum finnst að þá eigi ég barasta að drífa í því að kaupa mér íbúð (hann er meira að segja búinn að finna íbúð handa mér, með risahornbaðkari). Ein í vinnunni tilkynnti mér á föstudaginn að næst þegar ég færi til Íslands að sumarlagi vildi hún koma með, hana hafi alltaf langað til Íslands og ekki væri nú verra að hafa leiðsögumanninn með sér.
Jæja held að þetta sé orðið frekar langt hjá mér.
Þar til næst
Farið varlega og hugsið vel um ykkur í kuldanum
Hugs
Anna Dóra

Saturday, October 14, 2006

Vá, vorum með vinnupartý í gærkvöldi (ég í skemmtinefndinni) sem heppnaðist svona líka glimrandi vel. Vorum að halda uppá að deildin er búin að vera í 20 ár þar sem hún er núna. Skemmtiatriðið vel lukkað og allir glaðir. Það var alla vega svo gaman að við vorum 10-15 manns sem komu í eftirpartý hingað þar sem var boðið uppá Tópas og Ísl. brennivín. Sem féll vel í svíann, veit reyndar ekki hvernig þeim líður í dag........
Jæja, ætla að skella mér í sturtu, borða og svo er tímabært að skella sér í vinnuna.
pussiluss

Saturday, October 07, 2006

Komin heim :-(
Allt var svo æðislegt og ég er búin að skemmta mér svo vel síðasta mánuðinn að ég vildi ekki fara heim. Hlýtt, sól, sandur, vingjarnlegt fólk og ein besta vinkona mín. Við skildum við hvor aðra í tárum á flugvellinum í Sydney á fimmtudaginn, kannski ekki skrýtið eftir að hafa verið svo nánar í heilan mánuð. Ætla nú ekki að telja upp allt sem við gerðum hérna, það yrði allt of langt get bara sagt ykkur að ég á eftir að fara aftur til Ástralíu, myndi gjarnan vilja búa þar ef það væri ekki svo langt til Íslands. Annars er fólkið sem ég kynntist í þessarri ferð með ofurtrú á Íslandi núna, enginn trúði því að ég væri að verða 29 ára, meðalaldur minn í þessarri ferð var 23-24 ár, allir segja að það hljóti að vera allur fiskurinn sem við borðum á Íslandi:-) Svo þegar ég sagðist vera Íslendingur fékk ég svör eins og vá ég hef aldrei hitt neinn frá Íslandi áður eða vá ert þú þessi sérstaka...... já hvað á maður að gera við svona útlendinga annað en grín að þeim. Það mesta af ferðasögunni er á resedagboken, svo er ég með um 1000 myndir þannig að ég efast stórlega um að ég setji þær á netið, kem með þær heim næst þegar ég kem. Strax farin að vorkenna ykkur sem eigið eftir að hlusta á mig segja frá öllu og sýna allar myndirnar en þið verðið bara að þola það.
hugs
Anna Dóra

Sunday, September 03, 2006


Þreytt en ánægð eftir 10 km Posted by Picasa
Já svona leit stelpan út að loknum 10 km og Rúna ég skil vel brosið á Eiríki eftir 42 km, maður er svo ógissla ánægður með sjálfan sig og svo er svo gaman að koma í mark þar sem fullt af fólki stendur og hvetur mann áfram síðustu metrana.
Ótrúlegt en satt þá eru bara 3 dagar þar til ég held af stað í stóra ferðalagið mitt, haldiði að ég sé eirðarlaus eða? Ég er strax farin að hugsa um hvert ég eigi að fara í næsta stóra ferðalag, hvort það verði um S-Ameríku eða safarí í Afríku er ég ekki búin að ákveða en langar bæði. Ég ætla að reyna að blogga eitthvað á meðan ég er í Ástralíu, við verðum líka með ferðadagbók á sænsku reyndar á www.resedagboken.se þar fer maður svo í sök resenär og skrifar jessica-24 og þá kemur upp síðan okkar, veit að Jessica hefur sett inn myndir þar þannig að maður veit aldrei hvort við getum það líka. Stelpan sem seldi okkur ferðina sagði að við hefðum engan tíma til að vorkenna okkur í þynnku því við þurfum að hlaupa í rútu, lest eða flug næstum því á hverjum morgni=) En það er ekki eins og við séum að fara í fylliríisferð til Spánar eða hvað.......
Jæja best að halda áfram að gera lista yfir það sem ég þarf að taka með mér (passinn er kominn á listann=))
Peace out
Doris

Tuesday, August 29, 2006

Þá er maður kominn heim frá höfuðstaðnum. Við fórum til Stokkhólms sl. laugardag og tókum því rólega fyrir hlaupið. Á sunnudeginum var svo sjálft hlaupið, ég var með nettan fiðring í maganum ekki nema 22. þús spriklandi kellur allt í kringum mann. Ég var eitthvað svo niðursokkin í eigin hugarheimi (eins og oft áður) að áður en ég vissi var ég farin að tala íslensku við Josefin, þetta er í fyrsta skipti sem ég ruglast svona=) Alla vega svo hófst hlaupið og ég hljóp á 81 mín og er hrikalega ánægð með sjálfa mig, er varla kominn niður á jörðina. Eftir hlaupið fórum við svo að sjá Mamma Mia, abbashow sem er bara snilld. Á meðan flestir hlupu svo á milli búða á mánudeginum (til að geta keypt sem mest áður en haldið yrði heim um kl 15) vorum ég og Josefin bara menningarlegar. Við fórum á Östermalm, fíkuðum (sátum á kaffihúsi og horfðum á mannlífið), löbbuðum að konungshöllinni og sáum lífvarðaskiptin og kíktum á sýningu af þeim kjólum sem drottningin hefur notað við afhendingu nóbelsverðlaunanna. Röltum svo aðeins í Gamla stan áður en við hittum hinar skvísurnar.
Best að reyna að komast niður á jörðina
puss o kram
Anna Dóra

Sunday, August 20, 2006

Ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða bara vika í hlaupið og rúmar 2 vikur til Ástralíu. Helga Dís var hjá mér núna í nokkra daga og ef sölumenn hafa eitthvað þurft að kvarta yfir lélegri sölu í sumar þá bætti hún það upp á nokkrum klst. Þó svo að ég hafi verið mikið að vinna á meðan hún var hérna þá nýttum við tímann sem ég var í fríi betur, vorum úti, spiluðum og hún eignaðist nýjar vinkonur já Helga Dís kynntist Carrie og co í Sex and the City.
Ég er búin að vera svolítið löt síðustu 2 vikurnar, bara farið út að labba með Helgu þannig að í gær eftir vinnu hjólaði ég upp til Rosenholm og hljóp 6 km, hélt reyndar að ég myndi ekki hafa það af en harkaði af mér og hljóp áfram og það gekk bara ágætlega. Ég skal hlaupa alla 10 km næsta sunnudag.
Afmælisprik dagsins fær Maggi bróðir, hann er 25 ára í dag. Til hamingju með daginn. Hver veit nema ég skelli í eina skúffuköku þér til heiðurs í dag.
Saknaðarprik vikunnar fá Guðrún, Eiríkur, Guðfinna og lilla skutt sem flytja til Uppsala í næstu viku. Ætli ég verði ekki að líta á það með jákvæðum augum, núna eru fleiri að heimsækja í Uppsala, ég veit Jóa mín það er langt síðan við hófum hist, vona að við getum hist í smástund næstu helgi í Stokkhólmi.

PUSS O KRAM
Anna Dóra

Monday, August 07, 2006

Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Eins og það var langt þangað til að ég færi í sumarfrí þá fer barasta að koma að því. Fyrst kemur Helga Dís til mín, núna á laugardaginn og verður í nokkra daga. Aldrei að vita nema ég keyri hana niður til Kaupmannahafnar á miðvikudeginum og við eyðum deginum saman við að gera það sem við erum ansi duglegar við AÐ VERSLA og svo kannski bara út að borða áður en ég fer heim aftur. Er nefnilega á kvöldvakt daginn eftir. Svo eftir það er það að hlaupa í Stokkhólmi og svo bara viku síðar er það ÁSTRALÍA. Er búin að fá ferðaáætlun frá Jessicu, við töluðum við fyrirtæki sem vinnur við það að setja saman ferðir fyrir bakpokaferðalanga og þar sem við höfum bara 4 vikur er ágætt að láta aðra sjá um skipulagið og við getum séð um skemmtunina.
Svona lítur ferðaáætlunin út
7 - 9/9 Sydney
10 Flug frá Sydney till Melbourne.
10 - 13 Melbourne
14 - 16 Melbourne till Adeleide 3ja daga ferð með rútu.
17-18 (natt) Adelaide till Alice Springs, lestarferð
19 - 21 Uluru och Outback tour, fattiði hvað þetta verður gaman, ferð með frumbyggjum.
22 Alica Springs till Cairns, flug
23 River rafting, heill dagur
24 - 25 Cape tribulation go wild tour, í regnskóginum
25 - 26 Cairns till Airlie (natt)
28 - 30 Whitsunday sailing, á lúxussnekkju, 2 nætur og 3 dagar, heitur pottur um borð, hægt að hoppa frá borði og snorkla og bara almennt að njóta lífsins
30 - 1/10 Airlie till Fraiser (natt)
1 - 3 Fraiser Island tour, þetta er hálfeyja úr sandi, þarna verður leigður jeppi og keyrt um eyjuna, og bara leikið sér.
4 flug till Sydney
5 ég flýg heim til Karlskrona
Finnst ykkur þetta ekki hljóma spennandi og skemmtilegt, ég á alla vega erfitt með að hemja mig:-)
Þið getið kíkt nánar á þessa staði á http://www.australienguiden.se
Love
Ein sem iðar í skinninu eftir að komast í sumarfrí.

Wednesday, August 02, 2006

Ég er ógissla ánægð með mig, fór út að hlaupa áðan og hljóp takk fyrir 8 km, ég hef aldrei áður hlaupið svona langt. Tíminn var nú kannski ekki sá besti 67 mín, þannig að ég var rúmar 8 mín/km. það eru hrikalegar brekkur þar sem ég hljóp og ég hljóp þær allar=). Fór samanlagt 9,5 km í kvöld, bara 2 km eftir í að ég nái takmarkinu mínu hlaupa að 10 km. Ég ætla að vera búin að hlaupa 10 km a.m.k. einu sinni áður en ég fer til Stokkhólms, það er ákveðið búst fyrir egóið að vita að maður geti hlaupið 10 km.

Vildi bara segja ykkur hvað ég er ánægð með mig=)
Anna Dóra "hlaupari"

Sunday, July 30, 2006

Er þetta óheppni eða eitthvað dæmigert?
Fór á tónleikana í gær, þeir voru frábærir eins og ég bjóst við. Var boðin heim til Caroline og Patricks í grill áður og svo þegar við erum að leggja í hann heyrum við í þrumum og það fór að þykkna all verulega upp. Ég með mitt jákvæða hugarfar segi að þetta geri ekkert. Svo komum við á staðinn og alltaf aukast þrumurnar og svo féllu nokkrir dropar en ekkert meir þannig að við frekar ánægð hugsum að við kannski sleppum. Nei svo gott var það ekki haldiði ekki að það hafi gert þetta líka úrhellið, ég sem var að sjálfsögðu ekki með jakka (þau aðeins fyrirsjáanlegri en ég) hljóp í tjald þar sem var verið að selja merkta boli og keypti mér regnjakka svo ég yrði nú ekki alveg holdvot. Jæja skúrinn varð nú ekki langur, hætti um leið og upphitunarhljómsveitin byrjaði og hefur haldið sér frá okkur síðan. Í dag er sól og blíða. Það fyndna við þetta allt saman er að það hefur ekki rignt hér í fleiri fleiri daga, kom einn stuttur skúr aðfaranótt mánudags en annars ekkert í rúman mánuð.
Er maður óheppinn eða?

Thursday, July 27, 2006

Hæ hæ bara mánuður í að snigillinn sýni sína snilldartakta og hlaupi 10 km í Stokkhólmi. Snigillinn er nú ágætlega duglegur að æfa sig fyrir þetta. Hleypur úti 2-3x í viku. Held að hringurinn sem ég hleyp heimanfrá mér þessa dagana sé um 5 km þannig að ef ég get hlaupið hann 2x þá meika ég tjejmilen. Snigillinn kom meira að segja næstum því of seint í vinnuna í gær vegna hlaupanna. Ok svo ég segi ykkur frá því þá átti ég að byrja að vinna 9:45 fór út að hlaupa um morguninn og var komin heim um 9, teygði á og skellti mér í sturtu. Síðan barasta ætlaði ég ekki að hætta að svitna, það er svo heitt úti (samt bara um 23°C þegar ég hljóp í gær, fór uppí 31°C þegar það var heitast) þannig að maður svitnar líka ágætlega eftir hlaupin. Eftir sturtuna bara rann af mér og ég stóð fyrir framan viftuna til að reyna að þorna svo ég kæmist í föt=) Annars er svo heitt að maður svitnar bara við að gera einföldustu hluti eins og að vaska upp eða ryksuga og það er ekki eins og maður sé að reyna á sig.
Hvenær veistu að þú ofnotar loftkælinguna? Jú þú ert með kvef í 30°C
Maður er með loftkælinguna á í bílnum, viftu heima hjá sér, ég hef reyndar sloppið við kvefið en margir í vinnunni eru með ágætiskvef þessa dagana. Ég nota bara viftuna á kvöldin þegar ég er að fara að sofa og þvílíkur munur er farin að sofa heilu næturnar, rétt rumska til að slökkva á viftunni þegar mér finnst farið að kólna of mikið.
Sólarkveðjur frá Karlskrona
Anna Dóra

Tuesday, July 18, 2006

Hæ hæ var að bæta 2 linkum inn hérna við hliðina. Hulda ég vona að það sé ok að ég hafi sett síðuna hans Hákonar inn, annars tek ég það út aftur. Setti líka Jessicu hérna til hliðar þá getiði kíkt ef þið eruð forvitin um hvernig hún hefur það í Ástralíunni.
Keypti mér miða á tónleika í gær, Lars Winnerbäck hann spilar í Ronneby 29.júlí. Fer með Caroline og Patrick, sá hann líka í fyrra þetta verður geggjað. Er að vinna í að auðvelda mér lífið áður en ég fer til Ástralíu, segja upp blaðinu, redda autogiro þar sem það er hægt svo ég þurfi ekki að hafa áhyggjur af reikningunum mínum þar sem ég er í burtu yfir mánaðarmót.

símakveðja
Anna Dóra

Monday, July 17, 2006

Hvað er að frétta af ykkur heima í kuldanum? Ég elska sumarið, hér er búið að vera 25°C+ í 4 vikur þó svo að það sé stundum einum of heitt þá á maður ekki að kvarta þegar sólin skín. Er þvílíkt búin að njóta lífsins, skellt mér á ströndina, legið og notið sólarinnar og kælt mig í sjónum á milli þess sem ég vinn. Skellti mér reyndar til Kalmar með Hrafnhildi síðasta föstudag og við kíktum í IKEA. Ótrúlegt með IKEA að þó svo að maður ætli ekki að versla neitt endar það alltaf með að maður labbar út með fullan poka=)
Ég sagði nú barasta foreldrum mínum að skella sér hingað í sólina til mín, veit ekki hvort þau láti verða af því en maður veit aldrei. Styttist líka í að Helga Dís komi til mín hún kemur 12. ágúst og verður hjá mér í nokkra daga áður en hún fer til Köben að hitta vinkonur sínar.
Best að skella sér út í góða veðrið, er búin að hvíla mig nóg eftir næturvaktina.
Sólarkveðjur
Anna Dóra

Thursday, July 06, 2006

Tónleikarnir voru bara frábærir. Robbie var svo frábær að það var næstum þannig að maður færi að gráta. Þvílíkur skemmtikraftur, gjörsamlega sá besti sem ég hef séð. Þið getið bókað að ég á eftir að fara á aðra tónleika með honum. Robbie greyið var aðeins að pirra sig á loftbelg sem sveif rólega yfir Ullevi að þarna væri fólk sem vildi sleppa við að borga of ef við værum sammála að segja þeim að Fu... off og þarna snéru 60 þús manns sér við og görguðu á loftbelginn að F...... off og hann gerði það=) Mér fannst ég síðan svaka góð systir hringdi í Rúnu þegar hann tók einn Take That smell og hvað gerir hún, kallar mig Tu..... en hugsa svo sem að ég hefði brugðist svipað við. Stemmarinn þegar hann svo söng Angels, ef það hefði verið þak á Ullevi hefði það lyftst. Við skelltum okkur svo í Liseberg áður en við keyrðum heim á mánudeginum, ógissla gaman, geggjaðir rússibanar, gott veður frábær dagur. Hér er þvílíkt gott veður hátt í 30°C dag eftir dag yndislegt alveg hreint.
Jæja ætli það sé ekki best að drífa sig með pakka í póstinn og halda áfram að njóta góða veðursins.
Sólarkveðjur
Anna Dóra

Friday, June 30, 2006

Styttist í að ég fái að berja Goðið með eigin augum. Eftir 2 daga stend ég á Ullevi syngjandi með Robbie Williams, negli svo næturlífið í Gautaborg og ætla svo að skella mér í Liseberg á mánudeginum, hrikalega verður mikið stuð.
Skellti mér á ströndina í dag eftir vinnu. Fór í sjóinn í fyrsta skipti í ár, frekar kallt get ég sagt ykkur, efast um að sjórinn sé búinn að ná 20°C þannig að þau voru ekki mörg sundtökin sem voru tekin í dag.
Jessica er búin að finna veitingastað í Sydney sem hún ætlar að fara með mig á, Súkkulaðiveitingastað, við erum að tala um að ég fæ gæsahúð bara við tilhugsunina. Getiði ímyndað ykkur að það sé gott?

Bið að heilsa.
Anna Dóra

Sunday, June 25, 2006

Hæ hæ

Ég komst heim á endanum. Eftir aflýstu flugi og seinkunum fékk ég sæti á fyrsta farrými, ekki verra, maður kann bara ekkert á svona, velja mat af matseðli, fá alvöru borðbúnað ekkert plast drasl en ég lét mig nú hafa það svo ég kæmist heim. Ef allt hefði gengið að óskum hefði ég verið komin heim til mín um 2 leytið um nóttina en þar sem flugvélar voru að bila var ég ekki komin heim fyrr en 6 um morguninn og svo mætt í vinnu kl 12, þannig að það varð nú ekkert ógurlega mikið úr fyrriparti vikunnar hjá mér. Er komin inn í sömu gömlu rútínurnar, vinna, sofa, borða, út að hlaupa með þjálfaranum mínum, erum einmitt að auka hlaupin í 2x í viku.
Fagnaði Jónsmessunni með Svíum að þessu sinni á hefðbundinn hátt, var boðin heim til vinkonu minnar, vorum 13 manns með börnum. Átum síld og nýjar karftöflur þar sem það er skylda að taka snafs með síldinni bauð ég uppá ísl. brennivín. Síðan var ráðist í það að tína blóm og trjágreinar og setja saman midsommarstöng sem við dönsuðum svo í kringum. Fengum okkur svo kaffi, skelltum okkur í smá leiki og enduðum svo kvöldið á að grilla. Ekkert smá gaman. Reyndar voru krakkarnir búnir að setja saman smá leiki eftir matinn og m.a. írskt aðfangadagskvöld, þar sem maður hleypur, setur ennið á prik snýr sér í 5 hringi og hleypur til baka (ef maður ratar þ.e.a.s.) eftir snafsana og rauðvínið með matnum var það ekkert alveg gefið get ég sagt ykkur.
Jæja bið að heilsa ykkur, best að skella sér í háttinn, á að mæta á morgunvakt í fyrramálið.
Anna Dóra

Saturday, June 17, 2006

GLEÐILEGA ÞJÓÐHÁTÍÐ
Gaman að vera Íslendingur í dag. Við vorum að komast á HM í handbolta. Engin virðing borin fyrir Svíunum. Þó svo að við höfum tapað með einu marki þá dugði það til þar sem við unnum með 4 mörkum í Globen.
Fer svo heim á morgun, byrja daginn á barnaafmæli og svo í flug heim, vona bara að bíllinn minn sé ennþá í Malmö.
Hrafnhildur pæja hljóp brúarhlaupið í dag, hálfmaraþon yfir Eyrarsundsbrúnna, kraftur í kellunni.
Áfram Ísland
Anna Dóra

Tuesday, June 13, 2006

Hæ hæ kannski tímabært að ég skrifi nokkrar línur.

Komst heim að l0kum eftir miklar raunir síðasta föstudag. Ef ég byrja á byruninni þá var ég komin niður með allt og búin að raða í bílinn þegar ég fattaði að ég gleymdi útprentinu af farmiðanum og hljóp upp að sækja það. Svo hófst ferðin. Þegar ég kom til Lundar (búin að keyra í tæpar 2 klst) uppgötvaði ég mér til mikillar skelfingar að ég hafði gleymt vegabréfinu mínu heima (Doris í essinu sínu) ;-) ég keyrði útaf við fyrsta tækifæri og hringdi í pabba og spurði í hversu djúpum skít ég væri því ég hefði ekki tíma til að keyra heim og sækja passann. Sá gamli gat nú róað dömuna því við Norðurlandabúar þurfum ekki vegabréf okkar á milli, nægir að vera með skilríki með mynd. Áfram hélt ferðin og ég fann bílastæðið sem ég ætlaði að leggja á í Malmö án vandræða og kom mér í lestina yfir á Kastrup. Skelli mér þar í röð til að tékka inn og hvað haldiði skemmtilegt, það var seinkun á fluginu mínu, fyrst til klukkan 18 en endaði að við flugum kl 20, ég get lofað ykkur því að 8 klukkutímar á Kastrup er ekki mín uppáhaldstímaeyðsla. En þetta hafðist allt að lokum ég komst heim og er búin að njóta þess að vera til. Skellti mér í kvennahlaupið og hljóp 5 km, ætla í Slakka í dag með ormana mína (hlakka ekkert smá til) og borða góðan mat, er eitthvað betra en mömmumatur.
Jæja Rúna er að koma að sækja mig, við ætlum að kíkja smá stund í bæinn
Anna Dóra
p.s. er ekki málið að fjölmenna á landsleikinn á laugardaginn og styðja við bakið á strákunum okkar. Svíagrýlan fallin, þvílíkt glæstur sigur sem við unnum sl sunnudag, nú er bara að endurtaka leikinn.
Áfram ísland

Monday, June 05, 2006

Bara 4 dagar í heimkomu =)

Hvað á maður að gera af sér í þrumuveðri. Er í fríi í dag og var að hugsa um að skella mér út og njóta dagsins þegar brestur á þetta líka skemmtilega þrumuveður, ekki kannski besti tíminn til að vera úti og fílósófera um daginn og veginn. Fór út á lífið um helgina, síðasta djamm með Jessicu fyrir Ástralíu. Lenti í svona ógeðslegum KALLI sem fannst ég svo sæt og líta út fyrir að vera góð stelpa (*hrollur*) vildi bjóða mér upp í dans og var að taka utanum mig(*stærri hrollur*). Maður vill nú ekki vera leiðinlegur þannig að maður játar því að vera góður en hvernig ætli svona KALLAR myndu bregðast við ef maður svaraði að maður væri algjör tík? Ef þið eigið góð ráð til að hrista svona KALLA af sér endilega deilið þeim með ykkur.

Sjáumst eftir nokkra daga
Anna Dóra

Sunday, May 28, 2006

Smá gott ráð til ykkar vina minna sem eiga börn sem rella í búðum:
Barn: Ég vill FÁÁÁÁ (einhver sem kannast við þetta)
Foreldri: Er það ég eða þú sem eldar matinn?
Barn: Þúúú
Foreldri: Já vertu þá þægur og þegiðu!!!
Hahahahahaha finnst þessi frekar góður þið gætuð kannski reynt þetta næst þegar börnin ætla að biðja um einhvern óþarfa í búðinni.

Hvaða kynþokkafulla merking liggur annars á bak við nafnið ykkar?


Amorous Nocturnal Nonconformist Adeptly Delivering Orgasms and Rapturous Affection


Ég bara spyr, prófið og látið mig vita.
Love

Tuesday, May 23, 2006

Vá hvað ég fékk fyndinn tölvupóst í dag, brot úr grískum fréttum. Silvía Nótt í reiðiskasti eftir að hún komst ekki áfram í lokakeppnina. Þetta er á http://www.youtube.com bara að leita undir Silvia Night og þá ættuð þið að vinna það. Ég veit eiginlega ekki hvað mér á að finnast um þetta, en þið?
Talandi um að stóri bróðir sé alltaf að fylgjast með manni. Fann hrikalega fyndna sænska síðu þar sem fólk sendir inn hluti sem það hefur heyrt þegar það hefur legið á hleri. http://www.tjuvlyssnat.se

Annars er allt í góðu
Kveðja
Anna Dóra

Monday, May 22, 2006

Hversu óheppin getur maður orðið?

Hef rétt á að fara út og hreyfa mig, klst á viku á vinnutíma ef aðstæður leyfa. Í dag var frekar rólegt þannig að ég plataði eina til að fara út að labba með mér, að við myndum hætta klukkan 16 og labba í klukkutíma. Jú henni fannst það barasta hljóma eins og plan. Hvað gerðist jú um leið og við komum út byrjaði að rigna, fyrst bara nokkrir dropar og við bjartsýnar, enginn er verri þótt hann vökni. Ákváðum að labba heim til hennar (tekur klst) og svo gerði líka þetta litla úrhellið (búið að vera þurrt annars í allan dag) og við vorum svo blautar að það var ekki fyndið. Það sem var eiginlega er kómískt við þetta allt saman er að það hætti að rigna u.þ.b. korteri eftir að við komum heim til hennar. Þessi göngutúr hefði sómað sér vel í hvaða gamanmynd sem er.

blautar kveðjur frá Karlskrona
Anna Dóra

Sunday, May 21, 2006

Er komið nýtt landslag í Eurovision? Er svo ánægð með að Finnarnir hafi unnið mér fannst þeir ekkert smá góðir. Ég fíla reyndar svona rokkara;-) Svo finnst mér náttúrulega ekkert nema fyndið að Lettarnir hafi komist svona langt. Sá reyndar ekki keppnina í gær, var á djamminu með vinnunni. Það var sírenupartý(blåljusfest) þ.e.a.s. sjúkrabíllinn, slökkviliðið, löggan, bráðamóttakan og að sjálfsögðu svæfingin. Ekkert smá gaman. Það byrjaði á að öllum karlmönnum var safnað saman og þeir látnir fara úr einum skó, sumir reyndar báðum þar sem kvenfólk var í meirihluta. Síðan áttum við að taka skó ég fékk 2 pör og leita svo að eiganda skónna og það var borðfélagi okkar. Ég sat með einum félaga mínum frá svæfingunni og miðaldara slökkviliðsmanni. Svo var bara djammað frameftir og allir skemmtu sér hrikalega vel.

Rock on
Anna Dóra

Tuesday, May 16, 2006

Ótrúlegt litli púkinn minn er orðinn 4ra ára. Hann átti afmæli í gær og að sjálfsögðu hringdi besta frænkan hans og söng fyrir drenginn sinn (veit nú ekki alveg hvað honum fannst um það því mamma hans sagði að hann hefði verið frekar skrýtinn á svipinn) Við ákváðum alla vega í gær að þegar ég kem verður stöðug afmælisveisla, við ætlum að leika okkur saman á hverjum degi.
Er í fríi í dag og það er svo yndislegt veður eða þannig, skýjað, 10°C og ég bara bíð eftir að það byrji að rigna. Ætla reyndar ekki að láta veðrið halda mér inni, ætla út að labba hringinn minn og svo jafnvel að kíkja í smá í búðir, langar í nýjar gardínur í stofuna hjá mér aðeins að fá smá líf þangað inn.
Var í gær hjá vinkonu minni sem var að byrja að selja snyrtivörur frá Mary Kay, fékk smá treatment, hún er ennþá bara með hin ýmsu krem (er svo fín í húðinni í dag og með silkimjúkar hendur) en eftir 3 vikur lærir hún föðrun og að hjálpa fólki að velja þá liti sem hentar þeim og ég var ekki lengi að þakka gott boð um persónulega ráðgjöf í þeim málunum.

þetta varð nú lengra babl en ég æltaði mér
Lifið heil

Sunday, May 14, 2006

Díva eða......

Hvað finnst öllum heima um framlag okkar til Evróvisjón. Persónulega er ég hrifin af laginu og finnst Silvia Nótt frekar fyndin en hvar liggja mörkin fyrir dívur, getur dívan orðið drusla? Núna er mikið í fréttum hérna blótsyrðin í laginu og að aðstandendur keppninnar vilji að textanum verði breytt fyrir fimmtudaginn. Þessi setning the vote is in, I'll fucking win fer mjög svo fyrir brjóstið á aðstandendum keppninnar, svona í seinna lagi finnst mér þar sem það er bara tæp vika í keppnina. Í morgun las ég svo á textavarpinu að ef textanum verði ekki breytt eigi Íslendingar á hættu að verða reknir úr keppninni og hver eru viðbrögð Silvíu jú "I'll fucking sing what I fucking want" því spyr ég hvar eru mörkin hvenær fær maður nóg af dívunni og sniðgengur hana? Silvía Nótt er kannski eins og Selma sagði í þættinum full sigurviss og góð með sig. En svo á hinn bóginn eins og Eiríkur Hauksson sagði annaðhvort elskar maður hana eða hatar hana.
Hvað finnst ykkur, verður Ísland sniðgengið í keppninni eða læra Grikkirnir að taka gríni fyrir fimmtudaginn?
Ein ráðvillt

Saturday, May 13, 2006

Hrikalega er ég DUGLEG, var að skrá mig í Tjejmilen, sænskt kvennahlaup sem verður 27.ágúst í Stokkhólmi. Við ætlum að fara nokkrar úr vinnunni og hlaupa/skokka/ganga 10 km. Ætlum að byrja að æfa okkur saman með því að hittast einu sinni í viku og fara út að hlaupa saman, best ég fari að byrja sjálf aðeins svo ég verði mér ekki til algjörrar skammar. Eftir hlaupið ætlum við svo að sjá söngleikinn Mamma Mia eftir þá ABBA-bræður, ég sá hann reyndar í London fyrir nokkrum árum (þori varla að hugsa til að það séu 5 ár, sá hann nefnilega í útskriftarferðinni minni) það var reyndar á ensku, núna er allt á sænsku meira að segja lögin.
Þið vitið hvað spekingarnir segja time flies when you're having fun.... 5 ár síðan ég kláraði hjúkkuna og 3 ár síðan ég flutti til Karlskrona ótrúlegt og ég ennþá bara tvítug.

Er búin að bóka flugmiða heim núna í júní kem um miðjan dag 9.júní og flýg svo heim seinnipart 18.júní. Ágústa ég kem beint í afmæliskaffið ekki satt;-þ

Kveðja
Anna Dóra

Thursday, May 11, 2006

Komin einu skrefi nær Ástralíu, bókaði ferðina í gær :-) Var svo heppin að ég þarf bara að skipta einu sinni um vél. Flýg til Bankok og þaðan beint til Sydney og svo taka við 4 vikur af skemmtilegheitum. Er búin að fá vinnuskýrsluna fyrir sumarið, og ég fékk vikufrí sem ég bað um núna í júní og kem heim líklegast 9.júní og verð til 18. júní hljómar vel ekki satt. Hlakka til að hitta alla, veit að saumó ætlar að hafa smá hitting. Verð eins og vanalega heima hjá m+p þannig að það er bara að hafa samband.
Var ekki búin að segja ykkur frá nærridauðaupplifuninni minni hérna um daginn, var að fara að sofa þegar ég rek augun í þessa líka risahlussukónguló sem situr á veggnum í svefnherberginu mínu alveg uppvið loftið. Með adrenalínið í botni og öndunina á 100 km/klst byrja ég á að hringsnúast og reyna að ákveða hvað ég eigi að gera, ekki ætlaði ég að sofa hjá kvikindinu. Sæki svo ryksuguna, stend uppi í rúmi 2m frá helv..... (betra að vera í öruggri fjarlægð ef hún skyldi detta á gólfið) og náði henni með ryksugunni :-). Til að vera viss um að hún kæmist nú ekki út aftur setti ég ryksuguna í gang 5x í viðbót svona just in case. Einn vinnufélagi minn sem er ekki hræddur við kóngulær spurði hvort ég héldi að kóngulóin biði þarna á veggnum þar til ég sofnaði og kæmi svo og myndi ráðast á mig. Ég tilkynnti honum bara að ég tæki ekki sjénsinn á því, þá bara hló hann að mér ;-)
Jæja bið að heilsa í bili
Anna Dóra

Sunday, May 07, 2006

Það var ekkert smá gaman hjá mér í gær.

Í gær var opið hús hjá hernum hér í Karlskrona og þeir voru að kynna sína starfsemi og buðu fólki innfyrir hliðin og að sjálfsögðu var ég og Jessica á staðnum. Við röltum þarna um og skoðuðum stríðsbáta og fórum að sjálfsögðu um borð. Kynntum okkur þrengslin í kafbátum (það er ekkert smá sem maður þarf að vera liðugur til að vinna við þessar aðstæður) Horfðum á flugsýningu þar sem herinn sýndi stolt sitt JAS 39 Gripen stríðsflugvél (ekkert smá Top Gun;-þ) þyrluflugmenn voru einnig á svæðinu og léku listir sínar. Einnig kíktum við á köfunaraðstöðuna þeirra en það eru margir Íslendingar sem hafa komið hingað og æft fri uppstigning (veit ekki hvað það er á íslensku) og þar er líka aðstaða til að veita sjúklingum súrefnismeðferð þar fékk ég einmitt einkatúr því að einn sem var að vinna með mér (og farinn að vinna hjá hernum) var á staðnum og sýndi mér vinnusvæðið sitt. Hápunkturinn var svo eiginlega þegar við fórum svo í planetariumið og skoðuðum stjörnuhvolfið. Held barasta að ég geti fundið Karlsvagninn og Pólstjörnuna eftir þetta. Auðvitað skelltum við okkur svo út á lífið í gærkvöldi, síðasti sjéns núna í margar vikur. Jessica fer til Englands í fyrramálið. Við skemmtum okkur svo vel að ég held að við eigum eftir að lifa á þessu kvöldi í langan tíma.

Kveð í bili að hermannasið
Anna Dóra

Thursday, May 04, 2006

Travelfever

Ég og Jessica ætlum að hittast á morgun og aðeins að skipuleggja Ástralíuferðalagið okkar. Þ.e. að ákveða hvað við viljum sjá, hún er nefnilega á leiðinni til Englands á mánudaginn og verður í 3 vikur þar í verknámi. Það er reyndar sumt sem við erum búnar að ákveða, við ætlum að klifra á einhverri risabrú í Sydney, synda með höfrungum, snorkla á kóralrifinu, ath hvort við getum ekki látið taka mynd af okkur á krókódílabaki og dansa með frumbyggjum og síðast en ekki síst djamma með brimbretta gaurum. Vá hvað það verður gaman hjá okkur.
Annars held ég barasta að sumarið sé komið hérna hjá okkur. Sólin farin að skína og hitinn farinn að nálgast 20°C, ekki leiðinlegt það.

Bið að heilsa í bili
Anna Dóra

Tuesday, April 25, 2006

Fínt að vera svona frjáls eins og fuglinn, geta farið þangað sem ég vil þegar ég vil. Ekki fyrr komin heim úr smá ferðalagi þegar næsta er skipulagt. Silfurrefurinn svínliggur á götunum með Foxy lady undir stýri, ekki bagalegt það.
Það var ekkert smá fínt um helgina. Er þetta kaldhæðni eða íslenska? Fór á sunnudaginn með Óla, Lindu, Leo og Elíasi á rollubúgarð þar sátum við úti í "góða" veðrinu og fengum okkur kaffi, kíktum svo á allar rollurnar og nýfæddu lömbin, sáum því miður engin lömb fæðast en kannski seinna. Alla vega keyptum við lambakjöt á grillið sem við borðuðum með bestu lyst um kvöldið ;-Þ
Ætla á morgun eftir vinnu (fæ vonandi að hætta á hádegi) til Kristianstad og hitta Rúnu systir. Hún er þar að keppa í handbolta með löggunni - algjör pæja. Fer svo á kvöldvakt á fimmtudag, vona bara að ég nái að sjá einhvern leik hjá þeim, ætla alla vega að taka íslensku víkingahúfuna mína með mér svona just in case.

Bið að heilsa í bili
Anna Dóra

Tuesday, April 18, 2006

Do I look like I need a hug?

Fór og sótti bílinn minn eftir vinnu í dag, JIBBÝ og ég spyr einu sinni enn, lít ég út fyrir að þurfa á faðmlögum að halda? Sölumaðurinn var svo ánægður að vera búinn að selja mér bílinn að hann varð að gefa mér faðmlag, faðmaði mig líka um daginn þegar ég keypti bílinn!!!

Stefni á að KEYRA á nýja bílnum mínum til Varberg um helgina og heilsa uppá Röggu frænku og fjölskyldu. Raggi er á landinu með fjölskyldunni og ég hlakka ekkert smá til að hitta alla.

kram
Anna Dóra

Thursday, April 13, 2006

Fyrsta flokks móðursýki eða hvað....

Í gær var blásið upp í blöðunum að rúmlega 100 manns í USA hefðu fengið sveppasýkingu í augun og tengdu það við linsuvökva. Þessi sýking geti svo leitt til blindu. Var í gleraugnabúð í dag og þessar 20 mín sem ég var þar inni stoppaði hvorki síminn né straumurinn af fólki sem var með fyrirspurnir um linsuvökvann sinn eða vildi skipta um linsuvökva. Konugreyið sem stóð í afgreiðslunni (og farin að kunna fréttatilkynningu umrædds fyrirtækis utanaf) tilkynnti fólki að það væri engin hætta á ferðum, þar sem þetta hefur einungis komið upp í USA og þeir séu með eigin markað og linsuvökvar sem séu seldir í Evrópu séu framleiddir í Evrópu. Ég er svo sammála konunni í einu sem hún sagði að sýkingar í augun vegna linsunotkunar sé frekar spurning um hreinlæti en hitt. Þannig að gott fólk, munið að þvo ykkur um hendurnar við linsunotkun.

Fyndið en samt ekki. Skírdagur er ekki frídagur hérna en samt er það frídagur. Það var hringt í mig frá Toyota og ég spurð hvenær ég vildi sækja bílinn. Ég fór svo í bankann, var komin 5 mín fyrir 13 og þeir lokuðu klukkan 13, fór síðan á kaffihús og hringdi svo í Toyota og þá voru þeir búnir að loka og klukkan var bara 14. Þanig að á þriðjudaginn eftir vinnu fer ég og sæki bílinn minn. Ekkert smá spennandi.

Óska öllum gleðilegra páska, ég ætla eyða páskahelginni með vinnufélögunum og deila með mér páskaeggi frá Siríus og Nóa, sýna Svíunum hvernig alvöru páskaegg lítur út, það verður sko ekkert pappaegg fyllt með bland í poka.

Páskakveðja
Anna Dóra

Friday, April 07, 2006

Haldiði ekki að stelpan hafi barasta keypt sér bíl í dag!!!

Jú, ég prufukeyrði Toyota Corolla '04 árgerð með Eiríki um daginn og ráðfærði mig svo við starfsfélaga mína og hringdi svo í Toyota í morgun og bauð í bílinn. Ég var beðin um að koma við í umboðið í dag, sem ég og gerði og hvað haldiði ég fékk bílinn á því verði sem ég setti upp og vetrardekk að auki. Ánægð með mig :-) Þannig að núna á ég silfurlitaða Corollu með loftkælingu. Það er greinilega allt önnur menning í bílasölum hérna því ég fæ bílinn afhentan eftir 1-2 vikur, það er svosem ágætt því ég þarf að millifæra pening, en skrýtið engu að síður.

Bíleigandinn kveður að sinni

Anna Dóra

Tuesday, April 04, 2006

Ljóskubrandarar dauðans...........

Fór í klippingu í síðustu viku, aðeins að fá mér smá vorlúkk og lýsti aðeins á mér hárið. Í dag í vinnunni fékk ég aldeilis að heyra það eins og að nú þegar ég sé orðin ljóska vilji strákarnir endilega hafa mig áfram ;-) en eins og skáldið sagði blondie's have more fun.......

Ræddi aðeins við cheffann í dag, það voru nefnilega launahækkanir í gangi, allir fengu launahækkun nema Anna, hún er hvorki pottur né panna. Málið er að ég er ekki fastráðin heldur bara með afleysingu þannig að ég fæ ekki þessa sjálfvirku launahækkun sem allir fengu heldur þarf ég að semja um launin mín við næstu áframhaldandi ráðningu. Jibbý ekkert smá réttlátt kerfi eða þannig =(

Ætla að drekkja sorgum mínum í Tab Extra, við heyrumst síðar
Anna Dóra

Sunday, April 02, 2006

Alltaf gaman í Karlskrona

Rúna og co komu síðastliðið þriðjudagskvöld og við erum búin að skemmta okkur konunglega, svo á föstudaginn birtist allt í einu Maggi bróðir hérna mér til mikillar ánægju=) Í gær skelltum við okkur til Växjö í innanhús vatnagarð. Þar voru nokkarar rennibrautir og svo uppáhaldið mitt, sterkur straumur sem færði mann hring eftir hring í gegnum smá göng og það var hreint út sagt hægara sagt en gert að komast úr honum=) Í dag er svo síðasti dagurinn þeirra og við ætlum bara að leika okkur, taka því rólega áður en þau halda heim í fyrramálið=( Ætlum reyndar að taka smá forskot á páskana í dag, Þau komu nefnilega með páskaegg frá Nóa og Siríus, eittt númer 4 handa mér til að eiga um páskana og eitt númer 7, handa okkur, nammi namm hvað ég hlakka til.

Jæja kallar Eiríkur í hádegismatinn, bið að heilsa í bili
Anna Dóra

Sunday, March 26, 2006

Smá mis í skipulaginu eða.....

Búið að vera frekar löng helgi. Fór á föstudaginn í keilu með vinnunni sem var náttúrulega ekkert smá gaman og svo átti að kíkja á smá pöbbarölt og þar sem ég og Jessica vorum búnar að ákveða pöbbarölt sjálfar kom hún og hitti okkur. Svo var bara svo hrikalega gaman hjá okkur (eins og alltaf) að þetta endaði sem hrikalegt djamm og vorum við ekki komnar heim fyrr en seint og síðarmeir. Ég fór svo á kvöldvakt í gær, ekkert mál, var sprækur sem lækur. Hef ekki alveg sömu sögu að segja í dag, þó svo að morgunvaktin hafi verið róleg, þá hafði það sitt að segja þessi klukkutími sem ég fékk að sofa minna í nótt þar sem við skiptum yfir á sumartíma. Núna er ég semsagt 2 tímum á undan ykkur heima.

Jæja bið að heilsa í bili
kram
Anna Dóra, frekar þreytt eftir helgina, hlakkar því óneitanlega eftir að fá gesti og smá frí =)

Monday, March 20, 2006

Í dag er vorjafndægur og hvað haldiði jú það snjóaði aðeins í dag, ég er ekki alveg að sjá fyrir endann á þessum vetri. Var á nýrri vakt í dag, sem kallast O-tur (óheppni) og er frá 9:45-19, talandi um að eyða deginum í vinnunni, og að sjálfsögðu fékk ég að vinna yfirvinnu, nema hvað.....
Styttist í að Rúna og co komi og ég hlakka ekkert smá til, við ætlum að skella okkur í sund til Växjö 1. apríl þar sem eru vatnsrennibrautir, öldulaug og annað skemmtilegt. Þeir sem vilja koma með eru velkomnir.

Bið að heilsa í bili
Anna Dóra

Thursday, March 16, 2006

ÞÆGINDI EÐA LETI?

Eitt af því leiðinlegasta sem ég geri (I kid you not) er að vaska upp, hef aðeins verið að hugsa um þetta og komist að þeirri niðurstöðu að ég eyði líklegast milli 2 1/2 - 3 klst á viku bara standandi við eldhúsvaskinn. So what segið þið sem eruð með stærra heimili og í sömu aðstöðu, ég segi bara mig langar í uppþvottavél, bara svona litla sæta sem ég get skellt upp á borð og notið þeirra þæginda sem hún býður uppá, nefnilega að sjá um uppvaskið fyrir mig;-) Hvað segið þið er ég löt eða eru þetta þægindi sem ég ætti að unna mér?

Styttist í kvöldvaktina, best að taka sig saman í andlitinu og gera sig klára

Anna Dóra

Tuesday, March 14, 2006

Ég veit ekki hvort þið trúið mér en það er ennþá að snjóa, snjóaði pínu í morgun en samt fannst mér þegar ég var úti áðan að það væri aðeins að byrja að rigna =)
Annars eins og Ásdís benti á í síðasta commenti þá er lokakeppni í sænsku undankeppni Eurovision og ég og aðrir Svíar bíðum spennt eftir að sjá hver mun standa á sviðinu í Aþenu fyrir þeirra hönd. Ég held mest uppá slagerdrottningu Svíanna Carola og BWO, held svo sem að keppnin standi á milli þeirra. Þið sem náið sendingum frá sænska sjónvarpinu endilega að skella sér fyrir framan imbann næsta laugardag í slagerfílíng, held það byrji kl 20 að staðartíma. Ég verð alla vega límd fyrir framan skjáinn.

Bara 2 vikur þangað til Rúna og co koma, ég bíð spennt................
Til hamingju með daginn Sigrún bara orðin 18 ára skvísa

kveðja
Anna Dóra

Monday, March 06, 2006


Winter wonderland Posted by Picasa

Þetta útsýni hef ég haft síðan ég kom heim eftir jólafrí. Í morgun var ekki nema -12°C þegar ég labbaði í vinnuna og -3°C þegar ég labbaði heim. Samkvæmt veðurfræðingunum á þetta vetrarveður að haldast í ca viku til 10 daga og svo á að byrja að vora. Jibbý segi ég bara, orðin frekar þreytt á þessu. Sé í rauninni mest eftir að hafa barasta ekki keypt mér gönguskíði í janúar, orðið full seint núna. Ég held í vonina að það fari að vora bráðum, styttist í að Rúna komi og mig langar að geta verið úti með gormunum mínum, ekki það að Halldór myndi kvarta undan snjónum en alltaf skemmtilegra ef það er ekki ofkalt.
Bless í bili
Anna Dóra

Tuesday, February 28, 2006

SALTKJÖT OG BAUNIR TÚKALL.....

Ef þið bara vissuð hvað mig langar mikið í saltkjöt og hnausþykka baunasúpu eins og amma gerði alltaf, er ég viss um að þið mynduð senda það svo hratt með DHL til mín að það myndi ekki ná að kólna =) Í dag er bolludagur þeirra Svía þannig að ætli ég geri mér ekki bara eina semlu að góðu í staðinn fyrir saltkjötið og bollurnar í gær. Sænsku bollurnar (semla) eru nefnilega gerbollur (eins og mér finnst best) en í staðinn fyrir sultu og rjóma er möndlumassi og rjómi í miðjunni og flórsykur ofaná þeim. Þetta er gott, ég lofa, meira að segja Maggi borðar þetta.....
Á morgun er svo öskudagur, sjálf er ég að hugsa um að vera svæfingahjúkka en drengirnir mínir toppa mig verða stór og lítill Superman, hvað ætlar þú að vera á öskudaginn?

Anna Dóra

Sunday, February 26, 2006

Er ekki í lagi hjá sumum? Rakst á þessa frétt á mbl.is

Súdönskum manni var skipað af öldungum þorps sem hann býr í að greiða heimanmund með geit. Eigandi geitarinnar, hr. Alifi, stóð manninn að ósiðlegu athæfi með geitinni.

Ég veit ekki hvort þið trúið mér en hérna er ennþá snjór og búinn að liggja í 2 mánuði. Í hvert einasta skipti sem ég held að snjórinn sé nú loksins að byrja að bráðna þá byrjar að snjóa aftur. Fannst í gærkvöldi þegar ég labbaði heim úr vinnunni að vorið lægi í loftinu, kanínur að skoppandi á spítalalóðinni en nei í morgun var 10°frost. Ég vona að snjórinn verði nú horfinn og aðeins byrjað að hlýna þegar Rúna og co koma eftir mánuð. Næstu helgi eru undanúrslit í undankeppni Eurovision 3 hluti af 4 og hann verður hér í Karlskrona. Á reyndar ekki miða á sjálfa sýninguna en skelli mér eflaust á schlagerbaren um kvöldið (euruvision= schlager)það verður ábyggilega svaðalegur stemmari í bænum sem er reyndar uppljómaður í bleikum ljósum þessa dagana keppninni til heiðurs. Þyrfti eiginlega að fjárfesta í einhverju bleiku fyrir næstu helgi=)
Fór í bíó í vikunni á hroka og hleypidóma, mér fannst hún æðisleg. Þar sem ég er í Bridget Jones klúbbnum er náttúrulega skylda að "elska" Mr. Darcy það er reyndar ekki erfitt..........
Gaman að búa í Svíaríki þessa dagana, þeim hefur gengið ekkert smá vel á ÓL í Torino. Svo eru þessir Svíar svo fyndnir, hrikalega ánægðir með sitt fólk en ennþá ánægðari með hversu illa Norðmönnum hefur gengið því Norðmenn séu vanir að sópa til sín verðlaunum í vetraríþróttum og yfirleitt langtum betri en Svíarnir á þeim kantinum.

Jæja bið að heilsa í bili
love
Anna Dóra
btw var að lesa að bloggið sé atur orðið inni og bara hörðustu bloggarar sem hafa lifað af, ég missti alveg af því að bloggið hefði orðið úti, er bara að þessu því ég hef gaman af því........

Monday, February 20, 2006

Ég átti frábæra helgi í Kaupmannahöfn, hvað gerðir þú?

Það er svo gaman að gera eitthvað nýtt... Var í Köben um helgina með mömmu, pabba og Rúnu systir og okkur systrunum var boðið út að borða á staði sem við höfum ekki prófað áður. Prófuðum Hereford House, barasta hrikalegasta steik sem ég hafði smakkað þar til á laugardeginum þegar við borðuðum á det lille Apoteket elsta veitingastað Kaupmannahafnar þar sem ekki ófrægari maður en H.C. Andersen var fastagestur, og að sjálfsögðu gerðu Fjölnismenn sér matinn að góðu þar eins og þeir gerðu ölinu góð skil á Hviids vinstue þar er meira að segja mynd af þeim á veggnum. Báðir staðirnir eru gamlir og margt upprunalegt þar. Skelltum okkur líka á Heimsmetasafn Guinness á strikinu. Úff mér finnst ég vera farin að hljóma eins og versta ferðamálakynning fyrir Kaupmannahöfn. Þið vitið hvernig það er að maður hittir alltaf einhvern sem maður þekkir, ég hitti 3 vini mína sem ég hef ekki hitt síðan ég flutti hingað og þeir til Köben, ekki slæmt það. Boðskapur bloggsins í dag heimsækið Kaupmannahöfn, etið, drekkið og verið glöð.....

kveðja
Anna Dóra

Wednesday, February 15, 2006

Ein lítil gáta: Hvað er finnsk sumarsúpa?

Ég veit að ég er ekkert ofboðslega gömul en einhvers staðar verða mörkin að liggja. Fór í bæinn í dag eftir vinnu og keypti lestarmiða fyrir Kaupmannarhafnarhelgina mína (fer á morgun eftir vinnu) og kíkti aðeins í búð í leiðinni. Ákvað svo að taka strætó heim og hvað haldiði ég borgaði barnagjald í strætó (hahahahahahaha) þið vitið ekki hvað ég er búin að hlæja mikið af þessu, er meira að segja að spá í að ramma inn kvittunina sem ég fékk svo ég geti nú hlegið ennþá meira að þessu. Veit ekki hvort það skipti máli að bílstjórinn var eldri kona, ég er alla vega búin að grenja úr hlátri.

Svar við gátunni: Vodka í djúpri skál með blómamynstri

Best að henda smá fötum í tösku
kveðja
Ein sem er greinilega yngri en henni finnst hún vera ;-)

Sunday, February 12, 2006

Samviskuspurning!!

Jessica er að fara að vinna í Ástralíu næsta sumar, vinnur júní til ágúst og ætlar svo að ferðast um Ástralíu í september. Hún er að sjálfsögðu búin að spyrja vinkonu sína hvort hún vilji ekki koma til sín í september og þær ferðist saman. ÉG er frekar mikið heit fyrir þessu, sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur, 2 norrænar skvísur innan um alla brimbrettagaurana ;-) Ef ég fer þá myndi ég ekki koma heim næsta sumar því ég myndi spara sumarfríið mitt fyrir þetta, held að þið þurfið bara að koma og heimsækja mig í staðinn, hvernig hljómar það?

Annars styttist í smá mini-weekend ferðalag, Köben um næstu helgi, sofa á hóteli, borða hótelmorgunmat, borða á veitingastöðum, ekkert stress bara að lifa og njóta lífsins.

Jæja ætla að senda meil á Ragga frænda og óska honum og Verenu til hamingju með litlu prinsessuna.

love jú
Anna Dóra

Saturday, February 04, 2006

Nú eru allar línur lagðar fyrir heimsókn í borgina við Eyrarsund. Mamma er að fara eins og ég var búin að segja ykkur í vinnuferð til Köben sem varar svo yfir helgina 17-19. feb. Hún kemur út á miðvikudeginum og ég fer svo niður á föstudeginum eftir vinnu nema ég geti fengið frí þá fer ég niður á fimmtudeginum eftir vinnu. Vitið þið hvað verður það besta við ferðina. Pabbi og Rúna koma með henni=) Við höfum nú barasta ekki verið 4 saman á ferðalagi frá því að áður en Maggi fæddist (alls ekki illa meint Maggi). Þetta verður æðislegt, þið getið ekki ímyndað ykkur hvað ég hlakka til, bara 2 vikur þangað til.
Ætla að vígja spilið sem ég fékk í jólagjöf í kvöld, jú það verður tekið drykkjulúdó í kvöld, hvernig það endar þori ég ekki að segja til um, hvort við komumst niður í bæ á eftir þori ég ekki heldur að segja neitt til um, efast ekki um sjálfa mig bara félagsskapinn sem virðist einhvern veginn alltaf kenna mér um þegar hann drekkur of mikið. Ég veit svosem að það er ágætt að geta kennt einhverjum um en af hverju ÍSLENDINGNUM?
Skemmtilegt að skella sér út á lífið á Þorrablótstímum, reyndar verður ekki þorramatur á mínum borðum í kvöld, nei pizzan verður látin duga, en ég skal skála þeim mun oftar fyrir ykkur sem sitjið sveitt yfir hákarlinum.
Best að skella sér í búðina og ná sér í bland...............

Friday, January 27, 2006

Pistill vikunnar

Vikan sem er að líða hefur ekki verið neitt smá ljúf. Bara unnið mánudag til miðvikudags, var í fríi í gær og Caroline kom til mín og við borðuðum saman og horfðum á ræmu. Horfðum á Sideways og að sjálfsögðu drukkum við rauðvín með. Aftur í fríi í dag, skellti mér í bæinn í morgun og verslaði og keypti afmælisgjöf handa Guðfinnu. Stefnan svo tekin í vinnuna um helgina og afmæli. Er ennþá að leita að bíl, vill ekki kasta mér á fyrsta bíl sem ég sé, um að gera að skoða aðeins úrvalið og gera samanburð.
Jessica ætlar að kíkja til mín í kvöld og við ætlum að borða eitthvað gott og slúðra pínu. Hljómar eins og plan eða hvað.

Jæja best að halda áfram að fylgjast með á netinu hvort það losni í spinningtímann minn, var of sein að skrá mig í gær, allt orðið upppantað. Ég er nú samt að spá í að mæta barasta á staðinn og sjá hvort einhver hafi ekki barasta hætt við.

love
Anna Dóra

Friday, January 20, 2006

Hæ hæ
Ekkert varð af bílakaupum þessa vikuna en maður veit aldrei hvað komandi vikur hafa uppá að bjóða. Núna er aftur orðið kalt og búið að snjóa nær stanslaust í 2 daga og á að snjóa og vera kalt alla helgina, samt er ekkert mikill snjór núna, frekar þunnur snjór sem hefur fallið. Skellti mér í leikfimi í gær í box, hrikalega var þetta gaman, fá smá útrás eftir vinnuna. Finn reyndar fyrir vaxandi harðsperrum í dag sem fara varla skánandi þar sem tvöfaldur leikfimitími bíður mín, fyrst spinning og svo að lyfta. Kraftur í stelpunni þessa dagana :-)

Ætli það sé ekki best að taka sig til og pakka sér svo inn í hlý föt áður en ég labba í leikfimina.

kram
Anna Dóra

Sunday, January 15, 2006

Skil vel "ánægju" ferðamálaráðs með Íslandskynningu Tarentinos. Mæli með því að þið skellið ykkur inn á www.kvikmynd.is og horfið á viðtalið þegar Conan og Tarantino ræða um íslensku áramótin en þó aðallega skemmtanalífið. Þetta er alveg it's so funny because it's so true eins og einhver snillingurinn sagði. Besta er eiginlega lýsing hans á Opal skotunum að það sé það versta sem hann hafi smakkað. Persónulega hef ég ekki smakkað Opal en Tópas var hrikalega gott. Blár Gajol var bara eins og hóstamixtúra. Ef þetta á ekki eftir að laða ferðamenn til Íslands þá veit ég ekki hvað mun gera það. Var einmitt að spjalla við stráka í nótt sem voru einmitt að tala um að þeim langaði til Íslands og þegar ég sagði þeim hvernig Tarantino lýsti því voru þeir enn ákveðnari í að skella sér.

Kíkið á þetta og segið mér svo að þetta sé ekki fyndið
Ein að deyja úr hlátri.
p.s. er að fara að skoða bíl á þriðjudaginn, meiri fréttir síðar
love
Anna Dóra

Friday, January 13, 2006

FÖSTUDAGUR TIL FRAMA

Ekki þennan föstudaginn. Tók á mig þá hrikalegu fórn að bjóðast til að vera í fríi í dag :-) Það leit allt útfyrir rólegan dag í vinnunni og offramboð á vinnukrafti þannig að þeir sem eiga inni mikið frí (hálfgerður frítökuréttur) var boðið að taka út frí í dag. Ég ákvað rétt fyrir vinnulok í gær að ef boðið stæði ennþá að þiggja það. Þvílíkur draumur svaf út í morgun, sat svo lengi og naut þess að borða morgunmatinn og lesa blaðið og ætla svo að taka til hérna heima hjá mér áður en þvottatörnin eftir hádegi tekur við. Fínt að geta klárað svona uppáhalds verk á einum degi. Ætla að láta búðarráp bíða til morguns en þá ætla ég að leita að jólagjöfinni frá Magga bróðir, straujárni, kannski ég plati einhvern sem á bíl með mér og kaupi mér straubretti í leiðinni, hver veit nema ég bæti nýju sturtuhengi á innkaupalistann, mitt fína (með fiskunum) er orðið frekar slitið. Getiði mælt með einhverju? Það er kominn einhver eyðslupúki í mig því það er fullt af hlutum sem mig langar í einmitt núna og einhvern veginn tengist það allt heimilinu. Gaman gaman gaman bæði að eyða peningum og gera fínt heima hjá sér. Púff best að drífa sig að taka til ef ég skyldi nú finna eitthvað skemmtilegt á útsölunum!!!
Föstudagsgleðikveðja
Anna Dóra

Sunday, January 08, 2006

Ég á von á gestum og helgarferð til Köben.
Rúna og fjölskylda ætla að koma til núna í lok mars og vera hjá mér í viku. Þá er best að leggja vinnuskýrsluna strax í næstu viku og reyna að vera eitthvað í fríi meðan þau verða hjá mér. Annars held ég að mamma sé á leiðinni til Köben fljótlega fyrir vinnuna og auðvitað ætla þá sumir að bjóða sér í gistingu á hótelið til hennar. Hef nú sjaldan neitað helgarferð í kóngsins Köbenhavn og fer ekki að byrja á því núna svona á "gamals"aldri :-)
Annars allt gott að frétta og lífið gengur sinn vanagang, reyndar á hæggangi því ég skil barasta ekki hvað ég hef verið þreytt og löt svona í byrjun árs. Þyrfti eins og eitt duglegt spark í rassinn bara til að skella mér í búðina, henda í þvottavél eða barasta ryksuga.
spark-spark
farin í búðina og panta tíma í þvottahúsið
love
Anna Dóra sem þarf aðeins að taka sjálfa sig í gegn

Wednesday, January 04, 2006

Ég komst heim.
Ótrúlegt hvað það virðast alltaf verða einhverjar tafir á samgöngum þegar ég kem hingað heim. Eitt skiptið var bruni í Malmö þannig að tafir urðu á lestinni, annað skipti henti einhver sér fyrir lestina og allt var stopp í margar klst. hvaða tafir urðu þá í gær? Jú morgunvélin bilaði í Köben þannig að ég sem átti að fara í loftið kl 14:15 komst ekki í loftið fyrr en 16. Þeir gáfu svo vel í þannig að ég náði svo síðustu lest heim. Dauðþreytt eftir að hafa dregið ferðatöskuna í gegnum allan snjóinn, (jú það er massamikill snjór hér, samt heilmikið búið að rigna burtu) stilli ég vekjaraklukkuna og hendi mér í háttinn. Byrjaði svo vinnuárið á því að sofa svona hressilega yfir mig. Vaknaði með andfælum kl 10 í morgun, og enginn hringt til að vekja mig. Yfirmennirnir sögðust hafa haft á tilfinningunni að ég væri eitthvað þreytt eftir ferðina þannig að mér var barasta leyft að sofa. Þannig að 10:30 staulaðist ég inn í vinnuna með skottið á milli lappanna. En þið sem þekkið mig vitið að ef ég geri eitthvað, þá er um að gera það almennilega.
Skellti mér svo í spinning áðan, ekkert smá dugleg.
Þar til næst
Anna Dóra