Wednesday, December 31, 2003

Halló halló
Ætlaði bara að óska ykkur gleðilegs árs og ég vona að þið hafið það sem allra best og farið varlega með flugeldana
Anna Dóra

Tuesday, December 30, 2003

Ótrúlegt bara einn dagur eftir af árinu, hver hefði trúað því að ég ætti eftir að gera allt sem ég gerði á árinu, tók stærðarskref með því að flytja að heiman og ekki bara að heiman heldur út í heim, kannski er ég loksins að fullorðnast þó svo mér finnist ég nú alltaf 18. Ég er alla vega mjög sátt, loksins er ég að hugsa um mig og geri það sem ég vil, þegar ég vil (ekki illa meint pabbi og mamma ég hafði það mjög gott heima). En þetta er það sem skiptir máli því ef maður er sáttur við sjálfan sig þá líður manni vel.
Fór annars í bíó í dag á Lord of the rings og Svíarnir hafa ekki tekið upp þennan séríslenska sið að hafa hlé á myndinni, svo af því að maður vill nú ekki missa af neinu hélt ég að ég myndi pissa niður, hefði betur sleppt gosinu, en nóg um það, myndin var frábær.
bless í bili

Monday, December 29, 2003

Sæl öllsömul, jú það hafðist, ég fór í rétt flug núna hahahahahaaaa:-)
Annars verð ég að segja ykkur smá draugasögu, þegar ég kom heim úr vinnunni í dag kl 16 tók ég eftir því að það hafði verið hreyft við ýmsu í íbúðinni hjá mér frá því ég fór um morguninn. T.d. var búið að taka póstinn upp af gólfinu, draga sturtuhengið fyrir sturtuna, glas sem var í stofunni var komið í vaskinn, rúmið umbúið (sem ég nennti ekki hálfsjö þegar ég hljóp í strætó) og bolur sem var á sófanum fann ég svo undir sænginni. Mér sem var frekar brugðið (náttúrulega alin upp í íslenskri álfa- og tröllatrú ) hugsaði um sænska búálfinn sem mér var sagt frá fyrir jólin og hugsaði sem svo að hann hlyti að hafa komið í heimsókn til mín nema það sé einhver feiminn húsdraugur hjá mér þó svo að ég hafi ekki orði vör við hann áður þar til ég sá það ......... bréfið á ferðatöskunni minni (já ég var ekki búin að ganga frá henni) það var frá leigusalanum þar sem hún skýrði frá því að hún skildi sýna ibúðina kl 15 (ég náttúrulega í vinnunni og hafði enga hugmynd um þetta) og svo að þessi skoðandi hefði tekið íbúðina (greinilega horft framhjá ferðaþreyttum íbúanum sem ætlaði að ganga frá öllu í dag) þannig að nú slepp ég við að borga 2falda leigu. Hugsið ykkur samt kellan bara ryðst inn og tekur til hjá manni til að sýna íbúðina, ég vissi að það stæði til að sýna íbúðina en ekki að það myndi gerast fyrr en á nýju ári, hefði reyndar viljað vita af því sjálf svona fyrirfram og ganga sjálf frá mínu dóti, skil ekki afhverju kellan hringdi ekki í mig í vinnuna til að láta mig vita frekar stuttur fyrirvari hjá henni, að lauma bréfi inn snemma morguns og taka sénsinn á því að einhver verði heima eða ekki heima. En svona er líklega hinn harði heimur leigusalans líkt og skátans, ávallt viðbúinn að draga inn nýja leigjendur.
Draugakveðjur
Anna Dóra

Friday, December 26, 2003

Jæja þetta er búið að vera stutt en engu að síður skemmtilegt, búið að borða mikinn og góðan mat, hitta vini og ættingja en þó alltof fáa, jólaboðið sem ég átti að vera í núna var frestað vegna þess að móðurfjölskyldan mín ákvað að leggjast í flensu þessi jól þannig að ég bið nú bara að heilsa ykkur öllum í bili. Forrétturinn er kominn á borðið, rauðvín og ostar, hreindýrið í ofninn og nú er kallað á mig í eitt Skrabbl fyrir matinn. Flugið tekið snemma á morgun og svo allt sett í startholur fyrir flutninginn svo ég geti farið að taka á móti vinum og ættingjum sem koma til Karlskrona. Sjáumst hress og kát á nýju ári
Gleðileg jól
Anna Dóra jólabarn

Monday, December 22, 2003

It's beginning to look a lot like Christmas........ í nótt snjóaði og snjóaði þannig að það er orðið mjög jólalegt hérna heima og þá er bara að vona að þetta haldi yfir jólin. Það er rosalega gaman þegar maður kemur svona heim í stutt stopp, maður fer og hittir vini og ættingja, ekki mjög afslappandi kannski en rosalega skemmtilegt. Á morgun ætla ég í þorláksmessurölt á Laugarveginn með púkanum mínum og við ætlum að athuga hvort við rekumst á einhverja jólasveina. Bið að heilsa í bili

Thursday, December 18, 2003

1 dagur í jólafrí
Á morgun flýg ég heim í jólafrí og verð heima í 8 daga. Ég hlakka til að hitta alla enda held ég að næstum hver mínúta sé skipulögð, en það er bara betra, er meira að segja búin að versla allar jólagjafir svo ég þurfi ekki að eyða tímanum í það líka. Jæja, þetta er bara stutt í dag, ætla að fara að pakka niður og svo verður farið snemma að sofa, á lest 6:30 í fyrramálið.
Sjáumst bráðlega

Wednesday, December 17, 2003

2 dagar í jólafrí
Í dag var julbord í vinnunni, og var mér sagt að þetta væri dæmigert julbord eins og Svíarnir snæða á aðfangadagskvöld, þið verðið bara að fyrirgefa mér en mér fannst það nú bara ekkert jólalegt, það eina sem mér fannst nálgast jólamat var svokölluð jólaskinka, grjónagrautur og síld (sem er náttúrulega ómissandi á jólahlaðborði). Annað fannst mér frekar skrýtið og hversdagslegt eins og kjötbollur, kokteilpylsur og einhverskonar gratíneraðar kartöflur með einhverjum kjötbitum. Þá finnst mér nú íslenska jólahlaðborðið mun betra þó svo að Svíunum finnist hversdagslegt að vera með hamborgarahrygg þá finnst mér það mun jólalegra en kjötbollur og kokteilpylsur. Fyrir utan að mér fannst vanta malt og appelsín!!

Monday, December 15, 2003

4 dagar í jólafrí
Ég er númer 1 á biðlista fyrir skólann, fékk bréfið í dag. Núna er bara að bíða og sjá hve margir þiggja námsplássið sem þeim var úthlutað og hvort ég komist þá inn í staðinn. Annars eru að renna á mig 2 grímur í sambandi við námið, ekki það að ég vilji ekki læra svæfingahjúkrun alls ekki, það er bara að núna er ég að læra svo mikið inni á HIA en svo veit ég líka að ég get hvorki fengið né lært allt. Annars ætla ég að tala við deildarstjórann minn á morgun og sækja um námsleyfi og námsstyrk. Svo er það að Guðrún komst inn þannig að auðvitað væri mikið skemmtilegra ef við gætum lesið saman, þannig að ég ætla að halda minni stöðu á biðlistanum og sofa á þessu yfir jólin.

Saturday, December 13, 2003

6 dagar í jólafrí
Þá er Luciudagurinn langt liðinn, ég var þerna í Luciulestinni, þ.e. ég var með glimmerskrautborða í hárinu og hélt á ljósi og leiddi gönguna á eftir Luciunni. Það var mjög gaman að taka þátt í þessu, þetta var eitthvað svo hátíðlegt þegar hersingin (við vorum 12) kom svífandi inn til sjúklinganna syngjandi Santa Lucia, gamla fólkið varð svo himinlifandi yfir þessu uppátæki. Svo höfðum við 3 litla tomtenissa. Á eftir settist svo starfsfólkið niður saman og fékk sér lussekatta (sérstakar saffranbollur bakaðar af þessu tilefni), piparkökur og glögg. Síðan tók alvaran við og við snérum okkur að störfum dagsins. Ég ætti kannski að taka fram að ég söng ekki með þar sem það eina sem ég kunni úr textanum var santa lucia. Versta var að ég gleymdi myndavélinni heima en það reddast þar sem það voru fleiri með myndavélar og ég fæ að taka eftir filmum hjá þeim.

Friday, December 12, 2003

Vika í jólafrí
Á morgun er Luciudagurinn og ég mæti kl korter í sex í vinnuna til að taka þátt í Luciulestinni, þ.e. ég ætla að fylgjast með og kannski taka myndir. Ég er búin að vera alveg rosalega dugleg í kvöld og baka smákökur sem ég ætla svo að taka með mér í vinnuna, maður þarf nú að sýna svíunum hvað við gerum á Íslandi. Það er partý í húsinu á móti mér og þar eru einhverjir með gítar að spila og syngja þannig að ég er búin að vera með einkatónleika með kökubakstrinum. Það varð nefnilega óþægilega heitt þegar ég fór að baka þannig að ég opnaði út á svalir og það er eins og ég sitji á fyrsta bekk á tónleikum með Bítlunum, Simon & Garfunkel, Roxette og ýmsum fleirum, ekkert nema skemmtilegt.
Ætla að bjarga kökunum úr ofninum, bless í bili

Thursday, December 11, 2003

8 dagar í jólafrí
Hún er mín :-), heyrði í nýja leigusalanum mínum í morgun og ég fékk íbúðina og á að mæta næsta þriðjudag til að skrifa undir leigusamninginn Jibbý jibbý!! Til að halda upp á þetta ætla ég með stelpunum í vinnunni á jólaball í stúdentaheimilinu, var að hugsa um að bjóða þeim uppá ekta íslenskt djamm og kaupa skotflösku en þar sem ég gat ekki hugsað mér að drekka það sjálf ætla ég að láta það bíða þar til í innflutningspartýinu mínu sem þær eru þegar búnar að biðja um, þá get ég líka leyft þeim að heyra kónginn syngja Cant walk away þið vitið hvað ég meina. Jæja, ætla að fara að taka mig til fyrir djammið, heyrumst síðar ;-)

Wednesday, December 10, 2003

9 dagar í jólafrí
Í dag er ég mjög ánægð ung kona, hringdi sem sagt í leigumiðlunina og þau voru bara mjög jákvæð þannig að ég held að ég sé að fara að flytja núna strax í byrjun janúar. Það eru allir mjög hissa yfir því hvað þetta hefur gengið hratt því venjulega þarf maður að bíða frekar lengi eftir að fá íbúð. Þannig að ég er á leiðinni á húsgagnaútsölur í janúar. Annars hringir leigusalinn í mig aftur á morgun og þá fæ ég að vita meira.
Þar til næst

Monday, December 08, 2003

11 dagar í jólafrí
Halló halló, ég var að skoða íbúð í dag sem er í 10 mín. göngufæri frá vinnunni, 2ja herbergja 48 fermetrar sem leit mjög vel út, rúmgóð og fín. Þannig að ef ég fæ hana (það eru víst fleiri búnir að sýna íbúðinni áhuga) þá er hægt að fá hjá mér gistingu ef þið eigið leið um Karlskrona. Ég á að hafa samband við leigumiðlunina á miðvikudag þannig að núna er bara að bíða og sjá. Annars er allt fínt að frétta, búin að vera í jólagjafaleiðangri í dag og er langt komin með að versla allar jólagjafirnar, stefni á að vera búin að öllu svona áður en ég kem heim.

Saturday, December 06, 2003

13 dagar í jólafrí
Í nótt féll langþráður fyrsti snjór vetrarins, smá föl sem lá yfir öllu, ég er nú að vona að þetta haldist svona, þetta setur svo mikla jólastemmningu. Annars fór ég á jólamarkað í dag með Guðrúnu, Eiríki og Guðfinnu sem við héldum að væri rosalega flottur, það er mikið talað um hann og hann er mikið auglýstur, við urðum fyrir miklum vonbrigðum því þetta var alveg eins og markaðirnir sem við höfum verið að fara á í sumar og ekki hið minnsta spennandi eini munurinn var sá að nú var verið að bjóða jóladót. En við gerðum engu að síður mjög gott úr deginum og bökuðum sörur sem tókust að sjálfsögðu einstaklega vel.

Friday, December 05, 2003

14 dagar í jólafrí
Ég á ekki mörg orð um julfestina í gærkvöldi önnur en þau að það var alveg rosalega gaman. Þarna var samankomið starfsfólk lyfjasviðs spítalans og þegar við komum fengu allir poka með smá sælgæti og miða með upphafi jólalags sem sagði til um hvar maður átti að sitja. Ég var svo heppin að fá ég sá mömmu kyssa jólasvein, sem var eina lagið sem ég þekkti, síðan átti hver hópur fyrir sig að standa upp og syngja lagið sitt í keppni hver kæmi með besta flutninginn. Eins undarlega og það hljómar þekktu mjög fáir af mínum borðfélögum lagið og þar sem ég kunni lagið var ég spurð hvort ég gæti leitt hópinn, opnað með að syngja einsöng á íslensku og svo að syngja fyrir þeim á sænsku þau hlustuðu ekki á að ég væri ekki góður söngvari, sögðu að það væri frumleikinn sem skipti máli. Að sjálfsögðu gerði ég það við mikla aðdáun viðstaddra. Það var mörgum sem brá mjög í brún þegar ég byrjaði að syngja en samstarfsfólk mitt varð víst mjög stolt yfir því að geta sagt að ég væri að syngja á íslensku og ynni með þeim. Ég var stjarna kvöldsins og fólk kom endalaust til mín og hrósaði mér fyrir hvað ég hafi sungið vel (þið getið ímyndað ykkur hvað þau voru búin að drekka) ein konan kom til mín og sagði að dómnefndin hefði verið léleg, ég hefði átt að fá aðalverðlaunin ekki gestaverðlaun fyrir alþjóðlegan söng, einn maður kom til mín og sagði að sér hefði fundist íslenska útgáfan hljóma mun betur en sú sænska, vinkonur mínar af deildinni áttu ekki til orð yfir því að ég skyldi þora að standa upp og syngja fyrir framan svona stóran hóp. Þið sjáið að nú er ég byrjuð að setja merki mitt á Karlskrona.

Thursday, December 04, 2003

15 dagar í jólafrí
Halló allir saman, ég er komin í rosalega mikið jólaskap, í morgun fór ég og keypti svolítið jólaskraut til að lífga aðeins upp á íbúðina, keypti m.a. sænskan jólahest úr hálmi með rauðu skrautbandi (þetta er með því sænskasta sem ég hef séð), fyrst ég var á annaðborð byrjuð að eyða pening ákvað ég að athuga með geisladiska með jólalögum en þar sem meirihlutinn var með sænskum jólalögum sem ég þekkti ekki neitt ákvað ég að sleppa þeim í bili og láta útvarpið duga.
P.s. fékk fjögrablaða smára í dagatalinu í morgun, hver veit nema ég verði "heppin" í kvöld:-)

Wednesday, December 03, 2003

Smá mis í reikningi, 16 dagar í jólafrí
Í dag fékk ég að svæfa sjúkling í fyrsta sinn, við vorum með rafvendingu (stuða sjúkling í réttan takt) og þar sem ég bar ábyrgð á sjúklingnum kom það í minn hlut að svæfa hann eftir fyrirmælum frá svæfingalækninum, svaka gaman þannig að það má segja að ferill minn sem svæfingahjúkka sé að byrja, bara að þau í skólanum vissu hvað þetta gekk vel há mér:-)
Annars er allt gott að frétta, er að fara á julfest með vinnunni á morgun og aldrei að vita nema maður kíki aðeins á lífið í bænum á eftir?
bið að helisa í bili

Tuesday, December 02, 2003

18 dagar í jólafrí
Þó svo að það sé að líða að jólum er nú algert vorveður úti, líklega svipað og heima eftir lýsingum pabba, nema að hann ýki stórlega. Annars upplifði ég fullkominn vinnudag í dag, þannig er að einn sjúkraliðinn er lærður nuddari og þegar það er vel mannað setur hún upp lista og þeir sem vilja nudd geta skráð sig. Ég fékk semsagt nudd í dag í hádeginu og fór svo í hádegismat beint á eftir, getið þið ímyndað ykkur hvað ég var hress og endurnærð eftir hádegið, mér var meira að segja alveg sama þó ég þurfi að eyða restinni af deginum í þvottahúsinu. Mér finnst að þetta eigi að vera á öllum vinnustöðum.

Monday, December 01, 2003

Halló halló
19. dagar til þar til ég kem heim!!
Nú er maður sko kominn í jólaskap, bærinn uppljómaður með jólaskreytingum og ég "lifi" á mandarínum og piparkökum (ég held að það sé varla til jólalegra snarl) það eina sem vantar eru jólageisladiskar en það verður bætt úr því fljótlega. Ótrúlegt að það sé kominn 1. des, jólin eru bara rétt handan við hornið, skrýtið hvað árið líður alltaf hratt, mér finnst ég t.d. nýkomin hingað, samt búin að vera í hálft ár.
Bið að heilsa í bili
p.s. fékk lest í dagatalinu mínu í morgun en þið?

Saturday, November 29, 2003

Þá fer að styttast í jólin, fyrsti sunnudagur í aðventu er á morgun þannig að ég dreif mig í dag og keypti aðventustjörnu og hengdi út í glugga, ekki seinna vænna að fara að skreyta aðeins, annars eru svíarnir byrjaðir að setja aðventustjakana sína út í glugga og þá meina ég alla glugga, það liggur við að það þurfi ekki götuljósin lengur vegna þeirra. Ég ákvað að láta mér nægja að skella stjörnu í gluggann þetta árið en skreyti samt stóru íbúðina mína eitthvað smávegis líka.
Þar til næst

Thursday, November 27, 2003

Hjálp!!!
Ég var að komast að hræðilegum ósið Svía í dag, Lúsíudeginum. Það vill svo skemmtilega til að ég er á morgunvakt þennan dag þ.e. 13 des og morgun- og næturvaktin eiga víst að fara í hvíta kjóla og ganga um deildina og syngja santa lucia og ein verður valin sem Lucia og verður með kertastjaka á höfðinu og fer fyrir hópnum og þennan dag á morgunvaktin að mæta kl 06, það eru allir mjög spenntir fyrir þessum degi og ætla sumir meira að segja að mæta á frídeginum sínum til þess að taka þátt í þessu athæfi, það er meira að segja hugmyndakassi á deildinni fyrir hvað eigi að gera á lúsíudeginum og kosning um Lúsíuna. Ætli það gangi að segjast hvorki þekkja þennan sið eða lagið? þær hefðu í það minnsta getað varað mig við því að leggja ekki morgunvakt þennan dag. Ég verð víst bara að bíða spennt og sjá hvað verður.

Wednesday, November 26, 2003

Halló halló
Nú er ég loksins byrjuð á hjartagjörgæslunni (HIA), fyrsti dagurinn var í gær og er bara búin að vera með einn sjúkling og ekkert svo veikan þannig að ég hef varla vitað hvað ég eigi að gera til að láta tímann líða, annars er ágætt að hafa það rólegt meðan maður er að venjast öllum tækjunum en það tekur ekki svo langan tíma, mér skilst að ég fái alveg 2ja mánaða aðlögun því það er venjan þegar hjúkkurnar flytjast inn á HIA, það er aðeins meira en vikan á Hágæslunni ef það var svo langt (thí hí). Annars frétti ég að það voru 20 sem sóttu um þessi 6 námspláss sem eru á svæfingunni þannig að mér finnst ég hanga algerlega í lausu lofti um hvað verði. held ég áfram að vinna eða er ég að fara í skóla þetta er svona Jobbigt ástand eins og svíarnir orða það.
Jæja nóg komið af bulli í bili, á að vakna snemma í fyrramálið hej då

Monday, November 24, 2003

I'm back
Nú er ég komin heim aftur og verð að segja ykkur í örfáum orðum frá ferðalaginu mínu. Köben er náttúrulega bara Köben, alltaf jafn gaman og heimilislegt að koma þangað, við kíktum á jólamarkað í Tívolí og tókum smá stroll niður strikið eins og lög gera ráð fyrir, annars var hótelherbergið mitt það besta, ég veit ekki á hverjum þeir áttu von en það beið eftir mér náttsloppur og inniskór á rúminu og karfa með snyrtivörum á baðherberginu ég náttúrulega þakkaði bara pent fyrir mig- svo kíktum við á Röggu frænku og gistum hjá henni eina nótt sem er alltaf næs- þaðan var síðan haldið til Gautaborgar þar sem við eyddum nokkrum krónum, fórum meðal annars í þá langlangstærstu leikfangabúð sem við höfum nokkrun tíma séð og fórum að sjá CATS sem var í einu orði sagt MEIRIHÁTTAR. Á leiðinni tilbaka komum við síðan við í Ullared og eyddum nokkrum krónum í viðbót- en mamma og pabbi eru að verða búin að versla allar jólagjafirnar. Síðan til að toppa allt fengu gömlu hjónin svo hornsvítu með svölum hér í Karlskrona (sad to say hef ég ekki pláss fyrir þau heima hjá mér) og voru mjög ánægð með það. Á morgun ætla ég svo að sýna þeim aðeins bæinn minn áður en þau halda til Köben á ný og ég í vinnunna. Segi ykkur síðar hvaða fínu hluti þau færðu mér, ætla að skríða upp í rúm, þau ætla nebblilega að bjóða mér í frukost á hótelinu á morgun- ég á yndislega foreldra en eins og spánverjinn segir þá hefur þessi helgi verið PABBI BORGAR og ég hef þurft að frekjast til að fá að bjóða þeim nokkurn hlut, svona eru þau skrýtin þessar elskur.
Bless í bili, ég vona að þið hafið komist í gegnum allt þetta rugl í mér

Wednesday, November 19, 2003

Hej hej
Í dag er ég spennt kona, á morgun eftir vinnu er ég nefnilega að fara í smá ferðalag, ég er að fara inn til Köben að hitta mömmu og pabba og svo keyrum við yfir til Sverige á föstudaginn og förum í smá jólagjafa- og verslunarleiðangur til Ullared og ætlum að heimsækja Röggu frænku og fjölskyldu og halda síðan til Gautaborgar, við eigum miða á Cats á laugardagskvöldið og svo ætlum við að eyða meiri pening í Gautaborg, mig hlakkar ekkert smá til að komast í stærri búðir með meira úrvali. Jæja ætla að kveðja ykkur í bili, ætla að fara út á leigumiðlunina og setja mig í biðröð eftir stærri íbúð 20 fermetrar er allt í lagi í smá tíma en ekki til lengdar.
hej då

Tuesday, November 18, 2003

Tjena, tjena
Takk fyrir skólabænina pabbi- kíkið endilega á kommentið hans-
Svíar eru fyndnir, ég fékk hið undarlegasta símtal í gær, það var maður sem hringdi í skakkt númer, var að leita að einhverri vinkonu sinni, og ég tilkynnti honum að hún væri ekki í þessu númeri, Já sagði hann en hún var með þetta númer áður, þú veist ekki hvar hún býr núna. Nei því miður sagði ég enda aldrei heyrt á konuna minnst áður, en kallinn ætlaði ekki að sætta sig við það og blaðraði alveg heilan helling áður en hann gerði sér grein fyrir að ég var ekki að gera grín að honum og vissi ekkert um konuna. Merkilegir þessir Svíar eins og þegar var hringt í mig Jónasdóttir (sem ætti nú að gefa til kynna að ég sé ekki sænsk, því Svíar eru yfirleitt ekki -dóttir) og ég beðin að taka þátt í skoðanakönnun um sænskar hótelkeðjur, ég hef líklega dregið allt álit niður þar sem ég þekkti næstum enga sænska hótelkeðju, aðallega það sem ég hef séð hérna í bænum. Nei ég fer ekki ofanaf því að Svíar eru fyndnir.
Bið að heilsa í bili,

Monday, November 17, 2003

Hjálp, ég hringdi í skólann áðan og ætlaði að forvitnast um hvort maður gæti fengið að vita eitthvað fyrr, en nei maður fær skilaboð um hvort maður komist inn eða ekki um miðjan desember, en það sem hún sagði mér var að það voru fleiri sem sóttu um heldur en námsplássin eru, týpískt, það eru 6-10 námspláss og síðast voru 3 sem byrjuðu, hvaða skyndilegi áhugi er þetta einmitt þegar ég sæki um. Ég vona að þið krossleggið fingurnar fyrir mig, mig langar virkilega að komast inn í námið.
bið að heilsa með krosslagða fingur

Sunday, November 16, 2003

Ég lenti í hinu undarlegasta ævintýri í dag, í dag var semsagt komið að hinum mánaðarlegu alþrifum á íbúðinni minni, og meðan ég var að þrífa ofninn og eldavélina heyrði ég einhvern smell sem ég gat ekki sett í samhengi við neitt þannig að ég gleymdi því bara, hefði hvort sem er getað komið frá einhverjum nágrannanum. Þegar líða fór á daginn ákvað ég að hita mér smá kvöldmat og vildi ekki betur en svo að smellurinn sem ég heyrði fyrr í dag var öryggið að gefa sig. Þar sem öryggin hérna eru frekar mikið gamaldags það er alla vega ekki svona þægileg tafla eins og hjá mömmu og pabba með nokkrum tökkum nei öryggin eru geymd í einhverskonar hylki sem er skrúfað inní rafmangstöfluna (ég er viss um að Óskar hefur bara lesið um þau í sögu rafmagnsins og síðan verið sendur í vettvangskönnun upp á Árbæjarsafn til að sjá þetta fyrirbæri með eigin augum, gæti reyndar verið að afi myndi kannast við svona öryggi) þannig að ég hringdi á neyðarlínuna Guðrúnu og Eirík til að fá upplýsingar um hvernig ég gæti skipt um öryggi og hvar væri hægt að fá svona. Eiríkur gat nú leiðbeint mér í gegnum símann hvað ég ætti að gera og öryggin ættu nú að vera til í öllum búðum, vantrúa labbaði ég út í búð með öryggið með mér bæði svo ég myndi nú kaupa rétt og þar sem ég hafði ekki hugmynd um hvað öryggi heitir á sænsku, með vantrúarsvip rétti ég síðan afgreiðslukonunni öryggið og spurði hvort hún seldi svona, jú það reyndist vera og hún var enga stund að bjarga mér. Segiði svo að maður sé ekki alltaf að læra eitthvað nýtt, ég er orðinn snillingur í að bjarga mér, þó það sé alltaf gott að fá aðstoð þegar maður þarf á því að halda
Snilldarkveðjur

Saturday, November 15, 2003

Halló halló, þá er maður kominn heim aftur, það var æðislegt í Uppsala, að sjálfsögðu er alltaf gaman að hitta vini sína en svo er líka skemmtilegt að skoða sig um í nýju umhverfi. Ég fór einmitt í svona ekta túristaferð um bæinn, gekk um með bakpokann minn og myndavélina og skoðaði það sem varð á vegi mínum, tók meira að segja sjálfsmynd, er nebbnilega nýbúin að uppgötva takkann á myndavélinni sem gerir manni kleift að vera sjálfur með á myndunum- þetta var rosalega gaman. Svo fór ég að skoða í Ikea með Jóhönnu, það er bara nauðsynlegt fyrir sálina að komast í Ikea öðru hvoru, aðeins að skoða sig um og svo var komið fullt af jólavörum. Vi' fórum reyndar ekki inní Stokkhólm en það bíður betri tíma, þá fara Anna Dóra og Jóhanna og setja svip sinn á bæinn sem verður að sjálfsögðu ekki samur á eftir. Versta við ferðina var hvað það tekur langan tíma að komast þangað með lestinni, rúmir 5 tímar og það liggur við að maður sé eins og svíarnir segja helt slut eftir svona langa setu, alla vega það verður flogið í næstu heimsókn til þeirra.
Í gær var ég búin að vera hér úti í 6 mánuði, ótrúlegt hvað þetta er búið að vera fljótt að líða, ef ég hefði ekki fengið framlengt ráðningarsamningnum og verið búin að ákveða að fara í skóla, þá væri ég að koma heim í næstu viku, mér finnst ég bara ekki tilbúin að fara heim, mér finnst ég eiga eftir að skoða, læra og sjá svo mikið áður en að því kemur.
Bið að heilsa ykkur í bili, verð eiginlega að fara út og versla, ekkert til í kotinu þegar maður hefur verið svona í burtu sjáið til.

Monday, November 10, 2003

Halló halló, þá er maður að fara að leggja af stað í langferð, lestarferð til Uppsala. Ég ætla að fara og heimsækja Jóhönnu, Gísla og gormana. Er í fríi út vikuna og það verður skemmtilegt að skoða sig um í öðrum borgum og bara slappa af og leika sér, lífið er ekki eintóm vinna. Verst hvað lestarferð svona langt tekur langan tíma, rúmir 5 tímar, en þá er bara málið að vera með góða bók, hver veit nema maður geti hallað sér smá stund (líklegt eða þannig, ég er ekki týpan sem get sofið í lestum eða flugvélum). Jæja ætli það sé ekki best að fara og gera sig klára fyrir ferðina og muna eftir myndavélinni svona einu sinni.
By the way, hvernig líst ykkur á nýja lookið á síðunni minni? Bless í bili

Friday, November 07, 2003

Howdydody
Kuldakastinu er lokið og það er orðið hlýrra, svona ekta haustveður, mér finnst frábært að fara út að ganga, laufin fallin af trjánum og liggja á götunni án þess að fjúka um allt og skilja eftir náttúrulegt hárskraut. Í dag er hitinn um 10 stig, heiðskýrt og sól, ég var í klippingu og ákvað að fara í smá göngutúr í góða veðrinu að því loknu. Það er súkkulaðibúð hérna sem mig hefur alltaf langað að kíkja í og ákvað ég að líta þar við og sjá hvað væri á boðstólum. Úff ég hefði betur sleppt því, nú á ég eftir að hugsa um allt súkkulaðið og konfektið í marga daga, þvílíkt úrval mér fannst ég vera Hómer Simpson í paradís ég heyrði hvernig heilinn í mér malaði slurp slurp. þannig að ég var fljót að forða mér út áður en ég yrði mér til skammar með einhverjum bjánaskap yfir dýrðinni. Annars á ég yndislega helgi fyrir höndum á NÆTURVAKTINNI þannig að ég ætla að fara að leggja mig og undirbúa mig andlega undir helgina
Bið að heilsa í bili

Wednesday, November 05, 2003

Halló halló, nú er ég í skýjunum, þegar ég mætti í vinnuna í dag kom deildarstjórinn til min og sagði að ég væri búin að fá ráðningu út ágúst 2004 og núna get þá byrjað núna fljótlega á hjartagjörgæslunni, JIBBÝ JEI!!!, hún veit reyndar að ef ég kemst að í skólanum vinn ég bara um helgar en henni er alveg sama því ég verð hjá þeim næsta sumar, hún spurði meira að segja hvort ég væri búin að ákveða hvað ég ætlaði að gera þegar ég væri búin með námið, hvort ég ætlaði að vinna inni á svæfingunni eða hjá þeim, ég er nú ekki alveg komin svona langt í hugsun, fyrst á stefnuskránni er að komast inn í skólann og svo að klára námið en auðvitað fer ég svo á svæfinguna, til þess er maður nú að mennta sig- eller hur-
hej då í bili
Halló halló, þið verðið að fyrirgefa svona stereoútgáfur af því sem ég er að bulla, tæknin eitthvað að stríða mér. Eitt verð ég að segja ykkur, það var bankað hjá mér um daginn, ég opna dyrnar og fyrir utan stendur miðaldra maður, virðist forviða þegar hann sér mig og spyr hvort ég búi hérna núna, þar sem mér fannst það frekar augljóst (það var nú ég sem kom til dyra) játa ég því. Þá spyr hann hvort ég vilji fá gægjugat á hurðina hjá mér því sá sem bjó hér fyrir Nota Bene 3 árum hringdi í hann og bað um gægjugat, hann var víst búinn að koma og banka öðruhvoru í millitíðinni (í 3 ár) en aldrei hitt á neinn. Eftir að hafa afþakkað pent fyrir gægjugatið og lokað hurðinni, gat ég ekki hætt að hlæja, oh my god, er hægt að vera mikið þrautseigari en þetta???
jæja góða skemmtun

Sunday, November 02, 2003

Tjena
Ég fékk hálfgert áfall í vinnunni um helgina, síðustu 10 vikurnar erum við búin að vera með hjúkrunarnema og þær voru að hætta og siðurinn hér er að færa deildarkennaranum sínum gjöf að verknámi loknu oooohhh my god þetta voru engar smá gjafir, ég hugsa að ég hefði þurft að lýsa mig gjaldþrota ef þessi siður tíðkaðist heima!!!
Annað sem sló mig var að nemunum er bara skipt á milli hjúkrunarfræðinga deildarinnar það skiptir greinilega ekki máli hvort maður sé hæfur sem deildarkennari eða ekki, ef þú hefur áhuga á að taka að þér nema ertu sett í röðina. Skrýtið ekki sagt
Jæja meira síðar
hej då

Friday, October 31, 2003

Í gær gerði ég eitt af því sænskasta sem ég hef gert síðan ég kom hingað. Ég fór í rútuferð með vinnufélögum til Helsingör í Danmörku að versla, ég ákvað að fara með bara upp á spaugið svona til að sjá hvað það er sem Svíarnir eru virkilega að sækjast eftir ég var nefnilega búin að heyra að Svíar flykktust til Danmerkur og Þýskalands til að kaupa ódýrara áfengi og hvað var það sem fór í innkaupakerrurnar ÁFENGI og aftur ÁFENGI það voru langar raðir af fólki í búðinni sem var að kaupa létt og sterkt vín og við erum að tala um yfirfullar innkaupakerrur, fólk tekur ferðatöskurnar með sér til að bera allt áfengið í tilbaka. Annars var þetta mjög skemmtilegt rútan lagði af stað rétt fyrir sjö og allir rosaglaðir og staupa sig aðeins í rútunni, svo var komið í ferjuna og þar sem ferðin tekur aðeins 22 mín hljóp helmingurinn að skipta pening yfir í danskt meðan hinir fóru í kaffiteríuna til að kaupa bjór til að drekka á leiðinni af því að maður hefur ekki tíma fyrir bæði. Svo fannst mér alveg brálæðislega fyndið að í fríhöfninnu um borð má bara kaupa áfengi meðan maður er í danskri landhelgi og tóbak meðan maður er í sænskri landhelgi þannig að eftir 11 mín hringir klukka og þá lokar á annað og hitt opnar eftir því á hvorri leiðinni maður er. Verst við svona rútuferð er hvað tíminn er naumur, við komum í verslunina rétt fyrir 11 og höfðum tíma til 12:45 og fólk var að deyja úr stressi hvort það myndi örugglega ná að versla því ég veit ekki hvað það voru margar rútur frá Svíþjóð allar í sama tilgangi. Síðan er farið inn í miðbæinn og fengið sér að borða og svo er haldið áfram að skoða í búðir og reyna að versla meira til kl 3 og þá er haldið til baka. Ég var komin heim rúmlega átta og gjörsamlega búin eftir daginn og þá aðallega alla setuna í rútunni. En þetta var mjög skemmtilegur dagur engu að síður og allir ákváðu að þessi hópur færi saman til Mallorca í viku í maí, ég þarf nú að sjá til með það þar sem ég veit ekki hvað ég er að gera í maí 2004.

Tuesday, October 28, 2003

Nú er að koma vetur, hitastigið rétt slefar í núllinu og það er dimmt mjög dimmt strax uppúr kl 5 og á einhvern óskiljanlegan hátt virðist vera meira myrkur hér en heima, ég veit ekki en þetta setur smá svona útlandafíling á þetta allt saman? Mér finnst ég nefnilega ekki beint vera í útlöndum eins skrýtið og það hljómar ég er stöðugt að rekast á fólk sem ég þekki heima, t.d. rakst ég á konu sem var skuggalega lík tengdamóðir Rúnu í einni versluninni en eins og ég hef alltaf sagt þá eigum við öll tvífara einhversstaðar þarna úti. Um daginn var ég svo í strætó og það gengu 2 konur frekar líkar í útliti og á svipuðu reki framhjá vagninum og veifuðu bílstjóranum og hættu ekki fyrr en hann tók eftir þeim, ósjálfrátt datt mér í hug systurnar sem voru alltaf á Hlemmi og veifuðu öllum strætisvögnum sem óku framhjá þeim- ætli þær séu ennþá að þessu?
Í dag var ég kölluð fyrir til Spítalahjúkkunnar ég átti að mæta í viðtal og fékk sömu viðbrögð frá hjúkkunni eins og svo mörgum öðrum hérna, Jónasdóttir ertu Íslendingur? Hvernig stendur á því að þú komst til nafla alheimsins Karlskrona? En ég svaraði honum eins og öllum öðrum að mig langaði að prófa eitthvað nýtt og skellti mér því út í heim til að standa á eigin fótum. Svíarnir eru nebbnilega svo heimakærir að þeir myndu aldrei láta sér detta í hug að pakka saman föggum sínum og flytja til annars lands, hvað þá einir eins og ég gerði.
Mér finnst frekar skrýtið að sitja svona fyrir framan tölvuna og skrifa niður hugsanir mínar, mér finnst ég eins og hálfgerð Carrie í Sex and the City nema hvað mínar hugsanir snúast ekki eingöngu um kynlíf!!!
Jæja ég held ég sé að verða búin að bulla nóg í bili.
hej då

Sunday, October 26, 2003

Bara smá endurbætur á síðunni, greinilega ekki hægt að nota íslenska stafi í titilinn þannig að hann er á sænsku, skemmtilegt ekki satt.
Þá er það orðið opinbert, ég er orðinn tölvunörd, ég er búin að læra að blogga. Á þessari síðu verður hægt að fylgjast með mér og ævintýrum mínum í Svíaríki. Í dag upplifði ég dálítið skrýtið, ég átti að breyta klukkunni yfir á vetrartíma þannig að þegar ég vaknaði kl 9 í morgun var klukkan raunverulega 8 sem þýddi náttúrulega bara góðar fréttir fyrir svefnpurku eins og mig, ég mátti sofa lengur, annars er ég bara fegin að ég var ekki að vinna næturvaktina, ímyndið ykkur að mæta í vinnuna og svo er vaktin klukkutíma lengri vegna að þú þurftir að skipta yfir á vetrartíma bjakk! Jæja nóg af bulli í bili