Friday, January 27, 2006

Pistill vikunnar

Vikan sem er að líða hefur ekki verið neitt smá ljúf. Bara unnið mánudag til miðvikudags, var í fríi í gær og Caroline kom til mín og við borðuðum saman og horfðum á ræmu. Horfðum á Sideways og að sjálfsögðu drukkum við rauðvín með. Aftur í fríi í dag, skellti mér í bæinn í morgun og verslaði og keypti afmælisgjöf handa Guðfinnu. Stefnan svo tekin í vinnuna um helgina og afmæli. Er ennþá að leita að bíl, vill ekki kasta mér á fyrsta bíl sem ég sé, um að gera að skoða aðeins úrvalið og gera samanburð.
Jessica ætlar að kíkja til mín í kvöld og við ætlum að borða eitthvað gott og slúðra pínu. Hljómar eins og plan eða hvað.

Jæja best að halda áfram að fylgjast með á netinu hvort það losni í spinningtímann minn, var of sein að skrá mig í gær, allt orðið upppantað. Ég er nú samt að spá í að mæta barasta á staðinn og sjá hvort einhver hafi ekki barasta hætt við.

love
Anna Dóra

Friday, January 20, 2006

Hæ hæ
Ekkert varð af bílakaupum þessa vikuna en maður veit aldrei hvað komandi vikur hafa uppá að bjóða. Núna er aftur orðið kalt og búið að snjóa nær stanslaust í 2 daga og á að snjóa og vera kalt alla helgina, samt er ekkert mikill snjór núna, frekar þunnur snjór sem hefur fallið. Skellti mér í leikfimi í gær í box, hrikalega var þetta gaman, fá smá útrás eftir vinnuna. Finn reyndar fyrir vaxandi harðsperrum í dag sem fara varla skánandi þar sem tvöfaldur leikfimitími bíður mín, fyrst spinning og svo að lyfta. Kraftur í stelpunni þessa dagana :-)

Ætli það sé ekki best að taka sig til og pakka sér svo inn í hlý föt áður en ég labba í leikfimina.

kram
Anna Dóra

Sunday, January 15, 2006

Skil vel "ánægju" ferðamálaráðs með Íslandskynningu Tarentinos. Mæli með því að þið skellið ykkur inn á www.kvikmynd.is og horfið á viðtalið þegar Conan og Tarantino ræða um íslensku áramótin en þó aðallega skemmtanalífið. Þetta er alveg it's so funny because it's so true eins og einhver snillingurinn sagði. Besta er eiginlega lýsing hans á Opal skotunum að það sé það versta sem hann hafi smakkað. Persónulega hef ég ekki smakkað Opal en Tópas var hrikalega gott. Blár Gajol var bara eins og hóstamixtúra. Ef þetta á ekki eftir að laða ferðamenn til Íslands þá veit ég ekki hvað mun gera það. Var einmitt að spjalla við stráka í nótt sem voru einmitt að tala um að þeim langaði til Íslands og þegar ég sagði þeim hvernig Tarantino lýsti því voru þeir enn ákveðnari í að skella sér.

Kíkið á þetta og segið mér svo að þetta sé ekki fyndið
Ein að deyja úr hlátri.
p.s. er að fara að skoða bíl á þriðjudaginn, meiri fréttir síðar
love
Anna Dóra

Friday, January 13, 2006

FÖSTUDAGUR TIL FRAMA

Ekki þennan föstudaginn. Tók á mig þá hrikalegu fórn að bjóðast til að vera í fríi í dag :-) Það leit allt útfyrir rólegan dag í vinnunni og offramboð á vinnukrafti þannig að þeir sem eiga inni mikið frí (hálfgerður frítökuréttur) var boðið að taka út frí í dag. Ég ákvað rétt fyrir vinnulok í gær að ef boðið stæði ennþá að þiggja það. Þvílíkur draumur svaf út í morgun, sat svo lengi og naut þess að borða morgunmatinn og lesa blaðið og ætla svo að taka til hérna heima hjá mér áður en þvottatörnin eftir hádegi tekur við. Fínt að geta klárað svona uppáhalds verk á einum degi. Ætla að láta búðarráp bíða til morguns en þá ætla ég að leita að jólagjöfinni frá Magga bróðir, straujárni, kannski ég plati einhvern sem á bíl með mér og kaupi mér straubretti í leiðinni, hver veit nema ég bæti nýju sturtuhengi á innkaupalistann, mitt fína (með fiskunum) er orðið frekar slitið. Getiði mælt með einhverju? Það er kominn einhver eyðslupúki í mig því það er fullt af hlutum sem mig langar í einmitt núna og einhvern veginn tengist það allt heimilinu. Gaman gaman gaman bæði að eyða peningum og gera fínt heima hjá sér. Púff best að drífa sig að taka til ef ég skyldi nú finna eitthvað skemmtilegt á útsölunum!!!
Föstudagsgleðikveðja
Anna Dóra

Sunday, January 08, 2006

Ég á von á gestum og helgarferð til Köben.
Rúna og fjölskylda ætla að koma til núna í lok mars og vera hjá mér í viku. Þá er best að leggja vinnuskýrsluna strax í næstu viku og reyna að vera eitthvað í fríi meðan þau verða hjá mér. Annars held ég að mamma sé á leiðinni til Köben fljótlega fyrir vinnuna og auðvitað ætla þá sumir að bjóða sér í gistingu á hótelið til hennar. Hef nú sjaldan neitað helgarferð í kóngsins Köbenhavn og fer ekki að byrja á því núna svona á "gamals"aldri :-)
Annars allt gott að frétta og lífið gengur sinn vanagang, reyndar á hæggangi því ég skil barasta ekki hvað ég hef verið þreytt og löt svona í byrjun árs. Þyrfti eins og eitt duglegt spark í rassinn bara til að skella mér í búðina, henda í þvottavél eða barasta ryksuga.
spark-spark
farin í búðina og panta tíma í þvottahúsið
love
Anna Dóra sem þarf aðeins að taka sjálfa sig í gegn

Wednesday, January 04, 2006

Ég komst heim.
Ótrúlegt hvað það virðast alltaf verða einhverjar tafir á samgöngum þegar ég kem hingað heim. Eitt skiptið var bruni í Malmö þannig að tafir urðu á lestinni, annað skipti henti einhver sér fyrir lestina og allt var stopp í margar klst. hvaða tafir urðu þá í gær? Jú morgunvélin bilaði í Köben þannig að ég sem átti að fara í loftið kl 14:15 komst ekki í loftið fyrr en 16. Þeir gáfu svo vel í þannig að ég náði svo síðustu lest heim. Dauðþreytt eftir að hafa dregið ferðatöskuna í gegnum allan snjóinn, (jú það er massamikill snjór hér, samt heilmikið búið að rigna burtu) stilli ég vekjaraklukkuna og hendi mér í háttinn. Byrjaði svo vinnuárið á því að sofa svona hressilega yfir mig. Vaknaði með andfælum kl 10 í morgun, og enginn hringt til að vekja mig. Yfirmennirnir sögðust hafa haft á tilfinningunni að ég væri eitthvað þreytt eftir ferðina þannig að mér var barasta leyft að sofa. Þannig að 10:30 staulaðist ég inn í vinnuna með skottið á milli lappanna. En þið sem þekkið mig vitið að ef ég geri eitthvað, þá er um að gera það almennilega.
Skellti mér svo í spinning áðan, ekkert smá dugleg.
Þar til næst
Anna Dóra