Tuesday, February 24, 2004
Hvað er eiginlega um að ske, ég sem hélt að vorið væri að koma, búið að vera svo fallegt vorveður undanfarna daga, sólskin og brumin farin að gægjast út eftir veturinn. Núna er kalt, svolítill vindur og byrjað að snjóa- bara eins og ég sé komin heim. Annars var svo rólegt í verknáminu í dag, engir sjúklingar á kvennadeildinni þar sem læknarnir eru að læra á tölvukerfi fyrir sjúkraskráningu. Ég var því sett í það að taka á móti sjúklingum sem voru að koma í aðgerðir en þeir voru svo fáir að ég vissi varla hvað ég átti að gera af mér. Íhugaði reyndar í einum geispanum hvort ég ætti að geispa mig úr kjálkalið og reyna að skapa eitthvað að gera fyrir starfsfélaga mína og sjá þá í leiðinni svæfinguna frá sjónarhóli sjúklingsins- alltaf að hugsa um verkefnið mitt- en lét það vera og fékk í staðinn að fara heim á hádegi til að fara að læra sem var að sjálfsögðu vel þegið. Jæja best að snúa sér aftur að lærdómnum, kveðja Anna Dóra
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment