Þá er ég komin aftur heim eftir alveg hrikalega skemmtilega ferð. Ætla að gefa ykkur smá ferðasögu. Best að segja samt að Albena þar sem við vorum er alger ferðamannastaður, allir kunnu einhverja frasa á þýsku og sænsku, ég hef aldrei talað jafn litla ensku og í þessarri ferð!! Þjónarnir læra spes sænsku og þýsku til að geta gert sig betur skiljanlega við eldra fólk, sniðugt en samt skrýtið.
Dagur 1
Lentum á flugvellinum í Varna um 13 og allt gengið mjög vel, ég ætlaði reyndar aldrei að komast í gegnum vegabréfsskoðunina, hann rýndi og rýndi í vegabréfið mitt, snéri því á alla kanta og ég veit ekki hvað, spurði svo loksins hvaða stafur þetta væri og benti á LL í Halldóra hvort þetta væri W ég gat nú sagt honum að þetta væru 2 L og hann stimplaði vegabréfið mitt og hleypti mér í gegn. Við komust svo heilar á höldnu á hótelið í Albena, ekkert smá fallegt en þurrt landslag, heilu akrarnir af sólblómum sem hefðu verið meiriháttar ef þau hefðu verið enn í blóma. Hótelið var mun betra en við áttum von á, búið að lýsa því fyrir okkur sem mjög gömlu og slitnu sem það var en samt betra. Ég var í herbergi með Carro og Jessicu og við skiptumst á að sofa á aukabeddanum því það var gamall tréhægindastóll sem var útdreginn, u.þ.b. 20 cm bil þar sem hnén komu og það var um að gera að snúa sér reglulega til að forðast legusár svo harður var hann, en við lifðum þetta af eins og allt annað. Kíktum svo aðeins á ströndina til að kanna aðstæður og fengum okkur svo að borða og þá kom líka þessi hrikalegasta rigning sem við höfum séð en þetta var bara "skúr" sem gekk yfir á klst. Saddar og þreyttar eftir langan dag fórum við uppá hótel að sofa.
Dagur 2
Eftir morgunmat var slappað af á ströndinni og ákveðið að kíkja svo á lífið í bænum um kvöldið. Við komum við í næstu búð og keyptum okkur vínflösku og hittumst svo inni á herbergi, kíktum svo á hótelbarinn, þetta dróst svo hrikalega hjá okkur að um miðnættið þegar við kíktum út, var allt að loka og við fengum náðarsamlegast að kaupa samlokur á einhverjum barnum sem við löbbuðum framhjá, fengum svo að vita daginn eftir að ferðamannatímabilið er bara út sept. þannig að það var orðið frekar rólegt í bænum. Þannig að ekki varð mikið úr djamminu í þessarri ferðinni.
Dagur 3
Fórum í verslunarferð til Varna, fengum næstum paník á útimarkaði sem við kíktum á, yfir ágengni sölumanna allir vildu selja okkur peysur, boli, skó, nærföt eða töskur og voru ekkert að sleppa okkur. Við enduðum reyndar allar á því að kaupa okkur Diesel peysur á 1200 kr íslenskar og vorum svo fljótar að forða okkur sem var kannski eins gott, því þessar hlýju peysur björguðu okkur alveg, um leið og sólin hvarf fór hitinn nefnilega líka og kvöldin voru ísköld. Um kvöldið fórum við svo í fyrsta skipti út að borða á Poco Loco veitingastað þar sem þjónarnir dansa og við erum að tala um ekkert smá flott show hjá þeim, lifandi tónlist þannig að í rauninni fær maður dinner and a show, stelpurnar féllu kylliflatar fyrir þessum sætu þjónum þannig að þetta varð okkar staður, var reyndar eini staðurinn þar sem var eitthvað líf þannig að þetta var svo sem í lagi.
Dagur 4
Slappað af á ströndinni hrikalega háar og lokkandi öldur en bannað að fara í sjóinn einmitt þegar mann langaði til þess sem mest, en best að hlíða strandvörðunum, kíkt í búðir, fengum nýja nágranna, Svíar öðrum megin og frekar spúkí Rússi hinum megin sem sagðist vera demókrati og skrifa fyrir einhvern sem var gerður útlægur (hugsa að það sé einhver georgíumaður, kannaðist alla vega við það úr fréttum) en við reyndum bara að forðast þennan kall og fórum svo út að borða á Poco Loco um kvöldið mér var boðið upp 2svar og fékk svo lítinn hjartalímmiða að launum fyrir =) ekkert smá gaman.
Dagur 5
Fórum í bátsferð út frá Balchik, ekkert smá fallegur dagur, ákvað samt að taka sjóveikitöflu svona fyrirbyggjandi og sem betur fer, því það var frekar lúmskur öldugangur. Carro greyið varð svo sjóveik að hún bara lá kyrr og naut ferðarinnar engan veginn. Um hádegið var stoppað í vík (frekar óspennandi) og manni boðið að synda, veiða á handfæri eða bara njóta góða veðursins meðan skipstjórinn undirbjó handa okkur hádegismat. Þar sem sjórinn var frekar skítugur þarna, ýmislegt rusl á floti ákvað ég að reyna að fiska sem gekk reyndar ekki fiskurinn frekar latur svona í góða veðrinu, kastaði reyndar prikinu sem hélt færinu fyrir borð en skipstjórinn bjargaði mér og sótti það með háf. Það fyndnasta við þessa bátsferð var að þarna í Búlgaríu voru samankomin á þessum bát, 3 búlgarar (fararstjórinn og tveir af bátnum) 6 Svíar, 1 Norðmaður, 2 Finnar og Íslendingurinn Anna Dóra vantaði bara Dani og þá hefðum við getað stofnað nýtt Norðurlandaráð =) Fórum svo að borða nema hvað á Poco Loco um kvöldið, vorum farnar að kunna prógrammið utanað og ég var búin að benda stelpunum á að mér fyndist þetta eiginlega orðið neyðarlegt að fara alltaf svona á sama staðinn en þetta var eini staðurinn þar sem var eitthvað um að ske og ég var 1 á móti 4 þannig að ég fékk að bakka.
Dagur 6
Ég, Caroline og Jessica ákváðum að gefa húðinni smá frí frá sólinni (líka af því að það var svo kaldur vindur) og kíkja í búðir. Held við getum sagt að við séum búnar að bjarga efnahag þeirra Búlgara sem hafa sumaraðstöðu á Albena. Ég verslaði a.m.k allar jólagjafirnar þannig að ég ætla ekki að segja hvað ég keypti, allt var á útsölu því ferðamannatímabilið fer að hætta. Ákváðum reyndar um kvöldið að fara á nýjan veitingastað, sænskan stað en viti menn, þjónarnir af Poco Loco komu hlaupandi með matinn, þá var þessi sænski staður hluti af einhverri keðju 3ja staða sem voru með sitthvorn matseðilinn eldaðan í sama eldhúsinu og borinn fram af sömu þjónum =0)
Dagur 7
Hrikalega kaldur vindur samt 25°C þannig að við ákváðum að gefa Varna annað tækifæri bara forðast þennan hrikalega markað sem við fórum á síðast. Nú gekk allt mikið betur við fórum reyndar á annan markað og merkilegt nokk keyptum bara ekki neitt. Annars virðist Búlgurunum nægja smá hola mestalagi 2x5 metrar þá er skellt upp hillum og opnuð búð enda gerðum við mikið af því að skoða í búðarglugga, hættum okkur ekki alveg inn í búðirnar.
Þar sem þetta var síðasta kvöldið fórum við út að borða á Poco Loco og Carro fékk að dansa við strákinn sem henni fannst svo sætur, bjargaði fríinu hennar!!
Dagur 8
Áttum að skila herberginu kl 12 og fjandans já ég segi fjandans ræstinakonurnar voru komnar inn á herbergin að þrífa áður en við vorum komnar út og skildu náttúrulega ekki stakt orð í ensku þegar við vorum að reyna að útskýra að við værum að fara hvort þær gætu komið seinna =(. Dagurinn var svo tekinn létt, slakað á við sundlaugina á næsta hóteli (hvorki sundlaug, né morgunmatur á okkar hóteli við fórum á hótelið við hliðina á á morgnana) svo kíkt í bæinn og reynt að eyða síðustu levunum okkar, borðuðum svo á sænska staðnum (stelpunum langaði svo í fisk og kartöflumús) og svo var haldið heim á leið. Að sjálfsögðu lenti ég aftur í vandræðum í vegabréfaskoðuninni þeir snéru vegabréfinum mínu á alla kanta og skoðuðu hverja síðu, hleyptu mér svo að lokum í gegn en komu svo á eftir mér og báðu um að fá vegabréfið mitt lánað í 2 mín. ég náttúrulega varð eins og eitt spurningamerki í framan og spurði why? þá kom maður sem talaði ensku og útskýrði að þetta væri svo þeir gætu lært hvernig íslenskt vegabréf liti út (ég er farin að halda að ég sé fyrsti Íslendingurinn sem hefur stigið fæti sínum til Varna og Albena) þannig að gott fólk afrit af vegabréfinu mínu er notað sem kennslugagn fyrir flugvallarstarfsmenn í Varna, kosturinn reyndar að ef ég kem aftur þá ættu þeir að þekkja mig c",)
Jæja bið að heilsa í bili, ætla að kíkja í lærubækurnar, búin að þvo hrikalega er ég dugleg, læt ykkur svo vita þegar ég hef sett inn myndir.
Anna Dóra kennslugang í því hvernig íslenskt vegarbréf lítur út
No comments:
Post a Comment